Híðishám, seinni þáttur

Þegar ég lá í híði í janúar og fram í febrúar reyndi ég að safna saman helstu Netflix-syrpum sem ég hafði merkt við seinustu mánuði því að ég nálgast sjónvarpsáhorf af nánast kalvínískri skyldurækni. Ein slík var Giri/Haji sem vinur minn hafði mælt með og snýst um japanskan lögreglumann sem kemur til Lundúna að leita bróður síns. Þetta er áhugaverð hugmynd og fyrstu tveir þættirnir afar spennandi en þátturinn náði ekki að heilla mig varanlega nema helst aukapersónurnar, t.d. kynlífsverkamaðurinn Rodney sem er leikinn af Will Sharpe úr The White Lotus og lífgar mjög upp á þáttinn þegar hann birtist. Eins er alltaf gaman að hinum ágæta bandaríska leikara Justin Long sem sýnir fjölhæfni sína enn einu sinni. Að öðru leyti var fléttan of flókin fyrir mig og fjöldamorð í þætti 4 spillti mjög fyrir ánægju minni af áhorfinu. Eins og lesendur glæpasagna minna vita er áhugi minn á skipulagðri glæpastarfsemi takmarkaður þó að hún geti stundum varpað áhugaverðu ljósi á sambönd einstaklinga. Giri/Haji lofaði góðu í fyrstu hvað það varðaði en þegar á leið fannst mér handritshöfundurinn reyna um of að leysa vandamál í fléttunni með því að kála persónum austur og vestur.

Áhugamenn um byggingu miðaldaverka fá mikið fyrir sinn snúð í þáttaröðinni Leyndarmáli árinnar (El secreto del rio) sem skapaður er af hinum margreynda Alberto Barrera (f. 1960). Þetta eru í raun tvær samtengdar en allsjálfstæðar sögur í þorpi nokkru er nefnist Eiðið (Istmo de Tehuantepec), sú fyrri um vináttu tveggja drenga af Zapotecþjóð, Eriks og Manuels, sem mikið reynir á en reynist jafn sterk og vinátta Gunnars og Njáls í Njálu sem er ekki lítið. Síðari sagan gerist nokkrum áratugum síðar en þá liggja leiðir þeirra aftur saman, annar gerbreyttur og samskiptin eru strax flóknari þar sem annar heldur í minningar um hinn en vill ekki fást við þá persónu sem hann er nú. Sá leikari (Diego Calva) tjáir bælingu mannsins með því að hreyfa munninn sem allra minnst þegar hann talar. Það vekur athygli hversu fersk og laus við réttlínu nálgun þessarar mexíkósku sögu er við flókin efni eins og kynferði, ást, vináttu, hugrekki og hamingju. Sérstaklega drengirnir leika vel í þáttunum og koma heitum en flóknum tilfinningum vel til skila. Í nútímasögunni svífur fortíðin áfram yfir vötnum og hin rofnu samskipti drengjanna þó að þar bætist hasarmyndaminni við.

Kannski horfði ég á þáttaröðina vegna þess að ég á góðu að venjast af Mexíkóum þegar kemur að því að gera flóknum tilfinningamálum skil í mynd. Veit ekki hvort þetta reyndist alveg sama snilldin og hjá Cuarón en hér er tekið á nýju efni, hugmyndum Zapotecþjóðarinnar um „muxe“ eða þriðja kynið en fulltrúi þess í upphafi þáttarins er hin þrifalega Solange, leikin af „Texcoco-norninni“ sem er vel þekkt í Mexíkó (youtubestjarnan Saak birtist þar líka; það forrit er augljóslega hin nýja framabraut). „Muxes“ geta verið harðar í horn að taka eins og kemur í ljós í lokaþættinum. Solange er meðal annars karatekennari drengjanna sem frelsar þá undan einelti hins illa drengs Braulios, fulltrúa hinnar eitruðu karlmennsku sem síðar verður hinn versti skúrkur. Hann er full einhliða persóna að mína mati fyrir utan að ég hef ekki þá reynslu að óþolandi krakkar verði alltaf óþolandi fullorðnir. Aðeins betur fer þátturinn með hinn fordómafulla föður Eriks sem er fyrst og fremst hræddur, eins og raunar Erik sjálfur og líka kærasta hans þegar gamli vinurinn snýr aftur mjög breyttur.

Það er langt síðan „keðjuaðferðin“ var nóg til að trylla mann af spennu og ungmenni nútímans þurfa meira. Þó er sjónvarpsþáttaröðin Draugastrákatvíeykið (Dead Boy Detectives) á Netflix skilgetið afkvæmi Júpíter Jones og félaga (kaflarnir heita jafnvel svipuðum nöfnum) þó að dularfullu málin séu yfirnáttúruleg í þetta sinn. Þátturinn er stílaður upp á youtube-kynslóðina og er í gamansömum anda sem tölvuorgeltónlistin í upphafi miðlar vel til lesenda en sambönd persóna mun innilegri og opinskárri en tíðkaðist í spennusögum bernsku minnar. Þannig er áköf rómantísk spenna milli sálufélaganna Charlie og Edwin sem reka leynilögreglustofu fyrir drauga en þeir eru hvor of sinni kynslóð og drjúgur hluti gamanseminnar snýst um að Edwin er fæddur um 1900 og er bandingi ýmissa fornra viðhorfa (minnir satt að segja svolítið á mig sjálfan á svipuðum aldri og hann á að vera).

Þó að hinn draugastrákurinn Charlie sé talsvert yngri er einnig hann fulltrúi eldri kynslóða (notar t.d. úrelt slangur á borð við „brills“ og „aces“) en þriðja persónan, miðillinn Crystal, á heima í hinum bælingarlausa nútíma. Hér skiptir öllu máli að aðalpersónurnar eru aðlaðandi og gaman að fylgjast með þeim og hið sama gildir um mikinn fjölda aukapersóna sem sumar eru illir andar, talandi kettir eða hrafnar í mannslíki en hegða sér og tala kátlega hversdagslega. Þetta eru alls átta þættir og ég sat límdur við þá og hafði ekki miklar áhyggjur af alls konar lífshættulegri yfirnáttúru (Helvíti og allt) sem er kastað inn til þess eins að leysa úr öllu líkt og krakkar komast á næsta þrep í tölvuleik með því að velta vöngum i mínútu eða tvær. Sjarmi ungu leikaranna og hraðskreiðar og smellnar samræður duga til að halda manni við efnið sem ég hef ekki hæfileika til að taka alvarlega.

Eftir draugaganginn og kynuslann er norski spennuþátturinn Ekki sekur (Frikjent) nánast eins og frí. Hann er frá 2015 og átti víst sinn þátt í að koma Noregi á sjónvarpskortið. Miðað við öll íðilfögru drónaskotin af Sognafirði hlýtur ferðamálaráðið þar að hafa styrkt þáttinn. Fléttan snýst um norskan viðskiptajöfur í Malaysíu sem snýr heim 20 árum eftir að hann var sýknaður af morði kærustu sinnar en við litla hrifningu aðstandenda fórnarlambsins. Í stuttu máli fjallar þátturinn um fyrirgefningu sem lætur á sér standa en enginn getur samt staðið á móti valdi peninganna. Með aðalhlutverkin fara hin vel þekktu Nicolai Cleve Broch (úr Buddy) og Lena Endre (Erika Berger úr myndunum eftir sögu Stieg Larssons) en hvorug aðalpersónan er sérlega sympatísk í fyrstu og reyndar virðist þorpið þar sem allt gerist fullt af fordómafullu leiðindafólki sem tekur sinn tíma að kynna fyrir okkur. Fléttan er svolítið hlaðin fyrir minn smekk, þáttaröðin er greinlega ekki byggð á bók þannig að það vantar pínulítið skýra stefnu þegar böndin beinast að hinum og þessum á frekar losaralegan og jafnvel þreytandi hátt og áhorfandinn er aldrei neinu nær; það tekur eina 18 þætti að finna morðingjann án þess að sú lausn yrði sérdeilis áhugaverð. Andrúmsloftið er þó gott og á einhvern hátt sannferðugt enda þátturinn byggður á raunverulegu sakamáli þar sem a.m.k. tveir hafa verið handteknir og síðar sýknaðir. Á hinn bóginn er asíska tengingin ekki nýtt sérdeilis vel og stundum eins og aðalpersónan Aksel hafi alls ekki farið neitt.

Frá sama ári er sænski sjónvarpsþátturinn Modus sem líka sló í gegn og hefur það fram yfir Frikjent að vera eftir bók (eftir Önnu Holt sem var dómsmálaráðherra í Noregi í 100 daga, s.s. náði ekki íslenska metinu í endasleppum ráðherradómi) sem er e.t.v. skýringin á að handritið og sögufléttan eru ólíkt þéttari. Morðinginn er þekktur frá upphafi en afar óljóst hvað honum gengur til. Hann er líka ansi djöfullegur og gengur tiltölulega hratt frá þremur manneskjum: biskup, sjónvarpskokki og listamanni sem ekkert virðast eiga sameiginlegt en hin FBI-menntaða Inger Johanne VIk er fengin inn í rannsóknina til að greiða úr flækjunni með greinandi hæfileikum sínum sem eru engu síðri en þeirra dr. House eða Sherlock Holmes. Vandinn er hins vegar sá að dóttir hennar á rófinu varð vitni að fyrsta morðinu og er sú eina sem hefur beinlínis séð morðingjann. Þetta er í raun og veru ekki svo flókið og er alveg nóg til að halda okkur við efnið í fyrstu syrpunni. Þó að nafngreindar persónur séu ívið fleiri en í Frikjent eru þær margar skýrt bundnar við takmarkað svæði og þetta veldur því ekki ruglingi þó að sumir gagnrýnendur og ritstjórar haldi ranglega að fjöldi persóna einn skipti hér máli. Í þætti 5 verða hvörf þegar hreingerningakona leikin af Anki Lidén (móður Avicii heitins) ber kennsl á bíl morðingjans.

Modus nýtur þess eins að andstæður eru skýrar í þættinum en líkt og flestir sakamálaþættir byrjar hann vel en fer síðan að dala þar sem eina mögulega úrlausnin virðist vera að búa til fremur tilgerðarlegt einvígi löggunnar og bófans djöfullega. Seinni syrpan minnir meira á 24 en norræna myrkrið og ég er ekki hissa að þar með hafi syrpunni verið lokið. Það er ekki aðalleikkonunni Melindu Kinnaman (systur Joels) að kenna, hún stendur sig vel og heldur öllu uppi. Frekar mætti kenna um þeim plagsið höfunda og m.a. höfunda sjónvarpsþátta að hugsa of mikið um upphaf sögunnar og ekki nóg um sögulokin þegar handritsgerð stendur yfir.

Á Netflix er líka ný þáttaröð byggð á ævi Lidiu Poët (1855–1949) sem var sakir kynferðis bannað að flytja mál sem lögfræðingur í Ítalíu en sinnti þeim störfum þó fyrir bróður sinn Enrico. Þátturinn er fjarri því að vera eina nýlega dæmið um sjónvarpsþáttaröð sem gerist fyrir einni öld eða svo og fjallar um kjarkaða konu sem ruðst hefur inn á karlasvæði (Enola Holmes er nýlegt dæmi) en ég hafði þörf fyrir að ferðast til Torino í febrúarstormunum, elska að hlusta á ítölsku og er að mörgu leyti andlegur 19. aldar maður. Ekki er verra að lausn málanna blasir oftast við þegar einn hinna grunuðu dregur skyndilega upp byssu eða leggur á flótta eins og algengt var í glæpasögum bernsku minnar. Þátturinn um Lidiu hefur notið mikillar lýðhylli og mun sannarlega höfða til allra sem sátu límdir fyrir framan Castle forðum.

Sjónvarpsþættir af þessu tagi eru þó ekki mjög róttækir í raun og sennilega stílaðir upp á fólk sem heldur að Viðreisn sé vinstriflokkur. Þrátt fyrir hið yfirlýsta femíníska þema sést Lidia fyrst í rúminu með einum af fjölmörgum ítölskum folum í þáttunum og ósjaldan má virða fyrir sér hina hefðbundnu myrtu konu í líkhúsinu með brjóstin úti. Augljóslega lýsir þessi þáttur lífi lögfræðinga á Ítalíu undir lok 19. aldar ekkert sérstaklega vel og mér finnst hann hálfger froða en þó alls ekki slæm froða. Lýðhylli þáttanna er auðskiljanleg, þetta er hin ágætasta afþreying með hröðum takti, fögrum 19. aldar búningum og persónurnar líflegar og vel leiknar. Megináherslan er á samband Lidiu við bíræfna blaðamanninn Jacopo sem leikinn er af Eduardo Scarpetta úr sjónvarpsþáttunum um þær Lilu og Lenu. Krúttlega óþolandi bróðir Lidiu er líka mikilvæg persóna og skemmtileg og þegar líður á þáttinn fer vanheili saksóknarinn Fourneau að skipta máli. Öfugt við þættina tvo á undan er seinni syrpan engu síðri en sú fyrri.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um En helt vanlig familj sem gæti líka heitið „heimskasti pabbi í heimi“ en aðalpersónurnar eru miðaldra foreldrar sem standa frammi fyrir því að dóttir þeirra er sökuð um morð en áður hafa þau sannfært hana um að kæra ekki mann fyrir nauðgun þar sem ólíklegt væri að það leiddi til ákæru. Þetta eru sex þættir en hefði mátt þétta í fjóra því að svo mikill tími fer í foreldrana (einkum pabbann) frenjast um í tilgangsleysi til þess eins að spilla málinu, svolítið svipað og í Your Honor um árið, önnur þáttaröð með frábærri hugmynd (og dúndurgóðum fyrsta þætti) sem leystist upp í þvælu og rökleysu. Ég læt þessa fyrst og fremst getið vegna þess að það er ekki alltaf nóg að hugmyndin sé mjög góð heldur þarf útfærslan líka að vera það. Þátturinn fær samt prik fyrir Christian Fandango Sundgren sem er farinn að sérhæfa sig í hlutverki skúrka sem eru sjarmerandi í fyrstu og þátturinn gengur helst upp sem viðvörun gegn því að velja sér menn eftir útlitinu. Sem vitaskuld er samt hægara sagt en gert.

Previous
Previous

Deyjandi dýr

Next
Next

Hin dularfulla Marta