Deyjandi dýr

Þeir sem lesa mín lítilfjörlegu skrif hér reglulega hafa væntanlega tekið eftir aukinni nálægð Ítalíu í minni menningarneyslu og þar sem Netflix var mín hjálparhella í janúar og fram í mars var næstum óhjákvæmilegt að ég horfði á Il Gattopardo, glænýjan þátt eftir gamalli sögu, og það á sjálfan frumsýningardaginn. Söguna hef ég líka lesið, að mig minnir í Danmörku árið 1997 þegar ég kom þangað í fyrsta sinn og bjó á Hotel Imperial við Vester Farimagsgade ásamt mömmu heitinni, ógleymanlega í vikunni sem Díana prinsessa dó í París. Sagan er eftir Giuseppe Tomasi di Lampedusa (1896–1957), gefin út að honum látnum og kvikmynduð af sjálfum Visconti strax árið 1963 en með Burt Lancaster, Alain Delon og Claudiu Cardinale í helstu hlutverkum en raunar hef ég aldrei séð þá frægu mynd. Sagan gerist á Sikiley á sameiningartímanum (risorgimento) en þar var Lampedusa fæddur og upp alinn. Hann var sérvitur aðalsmaður sem að sögn eyddi drjúgum hluta sólarhringsins í einveru, lesandi og hugleiðandi. Lengi vel skrifaði hann aðeins fyrir sjálfan sig í nótissubækur og engin skáldverk birtust á prenti að honum lifanda.

Oftast er Il Gattopardo þýdd sem Hlébarðinn (t.d. á dönsku en ég las hana á því máli en hef enn ekki gluggað í íslensku þýðinguna eftir sjálfan Tómas Guðmundsson) en dýrið sem um ræðir mun vera afríski villikötturinn leptailurus serval (íslenska wikipedia kallar þetta „servalkött“, orð sem ég hef aldrei heyrt fyrr) sem er að vísu hraðskreitt dýr og blettótt en þó ekki beinlínis hlébarði. Upphaflega ætlaði Lampedusa að láta alla söguna gerast á einum degi en að lokum á það aðeins við um fyrsta kaflann og hún spannar hálfa öld. Sagan hafði verið áformuð síðan á dögum Mussolini en var samin 1955-1957. Lampedusa reyndi að fá hana gefna út með hjálp skáldvina sinna en gekk ekki vel og lungnakrabbinn tók hann áður en sagan kom á prent. Hún varð fljótlega feykivinsæl og margverðlaunuð en um það vissi Lampedusa ekkert — en raunar féll kommúnistum eins og Alberto Moravia alls ekki við bókina og þótti sjónarhornið hægrisinnað. Þar sem sagan gerist árið 1860 og fjallar um aðalinn má það til sanns vegar færa. Ekki er hún þó áróðursrit af neinu tagi.

Við lifum á umbrotatímum og sagan lýsir slíkum tíma þegar ýmsar skilgreiningar og rammar eru að taka breytingum þó að deila megi um hve róttækar þær séu. Hún hefst eins og áður sagði árið 1860. Verdi er mikið sunginn. Garibaldi og rauðskyrtur hans eru komnir til Sikileyjar með það að markmiði að sameina Ítalíu undir Sardiniukonunginum Vittorio Emmanuele 2. sem jafnframt var hertogi af Savoy. Garibaldi varð svo mikil hetja um alla Evrópu að á Íslandi voru drengir nefndir eftir honum, t.d. faðir eins helsta kommúnistaleiðtoga Siglufjarðar. Enn er líka til enskt kex með því nafni sem var stundum keypt heima hjá mér fyrir 40 árum eða svo en er heldur minna áberandi á Íslandi núna. Í öndvegi er hinn aldni aðalsmaður Fabrizio prins af Salina sem hefur lengi verið tryggur Sikileyjakonungi sem réð allri Suður-Ítalíu á 19. öld en konungur þess var á þessum lokaárum þessa ríkis Francesco 2. af Bourbon-ætt (afkomandi Loðvíks 14.). Fabrizio er harður nagli og sést það meðal annars á því að hann hvæsir allt sem hann segir. Samt hefur hann mikið dálæti á frænda sínum Tancredi, umfram eigin syni. Upphaflega vill hann gifta honum eftirlætisdóttur sína Concettu.

Tancredi reynist aftur á móti vera í liði Garibaldis sem kemur prinsafjölskyldunni í uppnám. Hann segir strax í fyrsta þætti af kænsku hins metorðagjarna miðjumanns: „Stundum þarf að breyta til að koma í veg fyrir breytingar“ — ef Trump læsi bækur kæmi manni í hug að hann hefði lesið þessa. Því miður verður ekkert af ráðahagnum, Fabrizio til sárrar armæðu. Sjálfur er prinsinn fjöllyndur mjög og leiðist guðhræðsla eiginkonunnar ógurlega. Allir vita af þessu en slíkur aðalsmaður kemst vitaskuld upp með allt. Tancredi fellur raunar vel við Concettu og reynir að fá hana til að hlaupast á brott með sér en hún er treg til slíkrar uppreisnar þó að kannski hefði hún látið undan ef hann hefði ekki orðið eineygður tímabundið af því að berjast fyrir kexið. Hún er sannarlega ástfangin af honum en illu heilli gleymir hann henni hratt þegar hin íðilfagra Angelica, dóttir borgarstjórans í Donnafugata, birtist á heimili prinsafjölskyldunnar í lok annars þáttar en annar eins „entrans“ hefur vart sést í sjónvarpi síðan Joan Collins skaut upp kollinum í upphafi annarrar syrpu Dynasty og breytti þeirri slöku sápu í vinsælasta sjónvarpsefni Bandaríkjanna.

Angelica er ekki af aðalsættum eins og fram kemur þegar greint er frá uppruna hennar á fátæka hluta Sikileyjar (atriðin kannski tekin á sama stað og Guðfaðirinn forðum). Þá veldur Tancredi gamla manninum enn meiri vonbrigðum með því að hafna dóttur hans fyrir slíka stúlku sem sá gamli þráir samt býsna augljóslega. En ekki verður auðveldlega við glamúrnum séð. Ungi sprelligosinn giftist auðvitað skutlunni að lokum þó að hann gleymi aldrei Concettu alveg og haldi áfram að þrá gáfur hennar og siðfágun. Þetta hljómar eins og dæmigerð eldhúsnóvella en hin pólitísku átök ljá sögunni epíska vídd sem minnir stundum á Stríð og frið. Lampedusa var þó undir ívið meiri áhrifum módernismans og mig minnir að mér hafi fallið vel við knappan stíl hans þegar ég var ungur og kannski sjálfur meira sjarmerandi en ég hélt. Concetta situr eftir ein og yfirgefin, táknmynd hins forna útdauða aðals. Ef ég man rétt lauk skáldsögunni á henni aldraðri og einmana en ekki þessum þætti þar sem hún er þó mun stærri persóna en í gömlu Visconti-myndinni. Þegar þýðing Tómasar kom út árið 1963 var sagt að sagan risi hæst í túlkun höfundarins á „hnignun, hverfulleik og dauða“, það sem Lampedusa lýsir er siðmenning á hverfanda hveli, gildi á útleið í nýjum heimi. Ég er svolítið sammála og finnst mörg bestu atriðin í þessari nýju syrpu snúast um Fabrizio horfast í augu við þróun lífsins og eigin stórkostlegu og þunglyndislegu hnignun.

Áramótaguðinn Janus drottnar þannig yfir sögunni en mynd af honum er áberandi á vegg heima hjá Fabrizio. En sagan fjallar ekki aðeins um óumflýjanlegar breytingar eða stéttaskiptingu. Annað áberandi minni er dýrið í manninum sem heiti sögunnar vísar óbeint til. Sikiley hefur lengi þótt einn frumstæðasti hluti Ítalíu og þrátt fyrir sitt göfuga ætterni er Fabrizio að mörgu leyti frumstæður maður og á valdi eigin fýsna, meðal annars þegar kemur að konum en líka ófullnægðum væntingum hans og þrám til Tancredi sem verður holdgervingur alls sem Fabrizio er að missa úr höndum sér. Eins má segja að Tancredi velji hið holdlega umfram hið andlega þegar hann tekur Angelicu fram yfir Concettu — og er strax í brúðkaupinu farinn að hvísla allt sem hann segir líkt og Fabrizio. Hvergi kemur þetta betur fram en í atriðinu þar sem Concetta situr eftir ein með biblíu sína í klaustri á meðan Tancredi afklæðir sína nýju konu. Þessi saga er greinilega samin af gömlum og deyjandi manni um sextugt og hin glæsta framtíð Tancredi verður Fabrizio endurtekin áminning um eigin dauða. Þess vegna eru samskipti þeirra frænda ævinlega full af átökum en um leið eins konar ást, eins og Diddú og Ragnhildur hefðu sagt. Þeir eru hinar sönnu tvíburasálir þessarar sögu.

Það er varla tilviljun að Lampedusa er dreginn upp núna á öðru breytingaskeiði. Allt þetta ár hefur einkennst af örvæntingu hinnar fornu yfirburðaálfu Evrópu og endurteknum fundum leiðtoga hennar sem allir hafa þann tilgang að láta eins og hnignunin sé ekki hafin þó að tilburðir þeirra til að staðfesta eigið mikilvægi muni fátt gera nema flýta óumflýjanlegri hnignun álfunnar sem nú ætlar að skipta velferðinni, frelsinu og hamingjunni út fyrir vopn í paranojukasti. Þar eru Ítalir stundum skemmtilega tregastir í taumi og raunsæjastir vegna þess að þeirra eigin tilburðir til að þykjast vera Rómaveldi mistókust herfilega á 20. öld og í staðinn unnu þeir sér það orðspor að vera jafnan fyrstir að yfirgefa sökkvandi skip. Saga hins deyjandi aðalsmanns Fabrizio er því skemmtilega viðeigandi jafnvel í ár, 70 árum eftir að hún var samin og 165 árum eftir að hún gerist.

Áhugaverð finnst mér valsatónlistin í þættinum sem minnir eigi lítið á Guðföðurinn. Um helmingur lokaþáttarins er eitt glæsilegt ball með afar aðlaðandi veitingum þar sem flestar aðalpersónurnar hittast, dansa og ræða sameininguna, stöðu gamla aðalsins, spillinguna, glæpina og allt sem gömlu blaðaskrifakallarnir sem sífellt halda að allir séu að bíða eftir áliti þeirra á stöðu mála eru iðnir að ræða á opinberum vettvangi. Afar 19. aldarlegt í stuttu máli. Tancredi leitar að sjálfsögðu uppi Concettu til að geta vorkennt sér yfir að hafa gifst rangri konu. Fabrizio fylgist með Tancredi og Angelicu dansa polka, finnur fyrir torkennilegu suði í kollinum og situr lengi einn afsíðis eins og undanvillingur í hinni nýju Ítalíu. Þau Angelica dansa þó eftir það og er þokkagyðjan greinilega ekki síður heilluð af gamla frændanum en eiginmanni sínum. Er það kannski góð túlkun á boðskap Lampedusa? Að þrátt fyrir að hafa misst flest sitt búi aðallinn enn yfir sexappíl umfram alla aðra.

Previous
Previous

Til hamingju með daginn, Tom!

Next
Next

Híðishám, seinni þáttur