Til hamingju með daginn, Tom!

Í nýlegum pistli minntist ég á Tom Lehrer og var í kjölfarið spurður hvort ég ætlaði aldrei að skrifa um hann heila grein á þessari síðu. Nú fer hver að verða síðastur að gera það á líftíma hans þar sem Tom er 97 ára í dag. Hann hefur meira og minna verið fyrrverandi skemmtikraftur í rúma hálfa öld, hætti að koma fram opinberlega upp úr 1970 eftir að hafa verið virkur í tæpa tvo áratugi. Fyrsta plata hans kom út árið 1953 og fimm árum síðar var hann farinn að verða vel þekktur a.m.k. í sumum kreðsum. Á 7. áratugnum kom hann fram í sjónvarpi og í kjölfarið hætti hann að skemmta í Bandaríkjunum en hélt fjölmenna tónleika í Danmörku, Svíþjóð og Noregi þar sem hann var feykivinsæll undir lok 7. áratugarins. Kannski var það þess vegna sem foreldrar mínir þekktu hann svona vel og áttu plötur hans. Seinna eignaðist ég hljómdiska með honum og tek regluleg Tom Lehrer skeið síðan.

Tom Lehrer var eins konar kennari okkar aðdáenda sinna. Ég myndi ef til vill ekki þekkja Ölmu Mahler Gropius Werfel ef ekki væri fyrir hann. Einnig kynnti hann mig fyrir dr. Wernher von Braun sem var um hríð þjóðhetja í Bandaríkjunum þrátt fyrir fortíð sína í þjónustu Hitlers. Söngvar hans um nýju stærðfræðina, tilraun hans til að troða öllum frumefnunum inn í eitt gott lag frá Gilbert og Sullivan og tillaga hans um smellna tónlist fyrir hina umbótasinnuðu í Vatíkaninu eru allt snilldarverk og eins söngur hans um vígbúnaðarkapphlaupið þar sem hann spáir fyrir að Luxembourg og Monaco verði að lokum kjarnorkuveldi (núna á 5% tímanum er þetta viðeigandi spádómur). Hann hafði auðvitað áður samið lagið „We Will All Go Together When We Go“ sem er eins konar bjartsýnisljóð um kjarnorkustríð þar sem einn ljósu punktanna er að tryggingarfélög munu sleppa við að greiða út tryggingar: „No one will have the endurance / to collect on his insurance, / Lloyd's of London will be loaded when they go.“ Stundum er þessi fáránleikabjartsýni þó ekkert fjarstæðukenndari en það sem vellur upp úr stjórnmálamönnum og herfræðingum enn í dag.

Nú á síðari tímum finnst mér glens Tom Lehrer milli atriða ekki síðara en söngvar hans eins og t.d. þessi mónólógur: „I know some people feel that marriage as an institution is dying out, but I disagree and the point was driven home to me rather forcefully not long ago by a letter I received which said: "Darling, I love you and I cannot live without you. Marry me, or I will kill myself.” Well, I was a little disturbed at that until I took another look at the envelope and saw that it was addressed to ‘occupant’.“ Þegar ég heyrði þetta fyrst hafði ég ekki hugmynd um hvers konar bréf væru send á „occupant“ þannig að lærði húmor Lehrers þróast og þroskast með manni og verður bara betri við aukinn skilning. Orðaleikir eru hans ær og kýr, í eldri plötu rekur hann ævisögu Dr. Gall sem að hans sögn fann upp gallblöðruna og segir þá: “His educational career began, interestingly enough, in agricultural school, where he majored in animal husbandry, until they ... caught him at it one day” sem er auðvitað bara fyndið fyrir þá sem hugsa sóðalega.

Annað uppáhald er þessi: „Speaking of love, one problem that recurs more and more frequently these days, in books and plays and movies, is the inability of people to communicate with the people they love: husbands and wives who can't communicate, children who can't communicate with their parents, and so on. And the characters in these books and plays and so on, and in real life, I might add, spend hours bemoaning the fact that they can't communicate. I feel that if a person can't communicate, the very least he can do is to shut up!“ Þetta er kannski ekki flókið grín (og þó) en ljóð Jónasar eru ekki heldur flókin og snilldin felst stundum í að láta sér detta þetta í hug. Fyrir utan auðvitað að sumt sem Tom Lehrer segir er fyndið aðallega vegna þess að það er satt.

Previous
Previous

Aldin út er sprungið

Next
Next

Deyjandi dýr