Útlaginn tók völdin
Í ársbyrjun og fram í febrúar horfði ég á hinn sígilda danska þátt Matador í 25. skipti eða svo en kynnti mér á svipuðum tíma í fyrsta sinn hinn óvænta kanadíska hittara Schitt’s Creek (2015–2020) en ég segi þetta ekki aðeins vegna þess að ég elski bæði Danmörku og Kanada (sem ég þó geri) eða til að hægt sé að nota þessa síðu til að skrifa ævisögu mína seinna (sem væri samt ekki vond hugmynd) heldur vegna þess að fléttan er í raun sú sama: aðkomumaður birtist í þorpi með að því er virðist óhagganlegu stigveldi og stendur í upphafi höllum fæti en nær síðan að verða leiðandi í krafti yfirþyrmandi viljastyrks og persónuleika. Markmiðin og útfærslan gætu kannski ekki verið ólíkari en þó er húmorinn í báðum tilvikum iðulega lunkinn og persónusköpunin sterk. Munurinn er kannski ekki ósvipaður og á epík og þáttasafni því að Schitt’s Creek einkennist af því að þættirnir eru örstuttir (20 mínútur hver); samt eiga þeir það líka sameiginlegt með Matador að margt er óvænt ekki sviðsett heldur áhorfendum leyft að geta í eyðurnar milli atriða og þrátt fyrir hið knappa form liggur styrkur Schitt’s Creek líka í hægri og oft óvæntri þróun persónanna sem ef til vill skýrir hvers vegna þættirnir fóru fyrst að slá í gegn í seinni syrpum. Þeir styrkjast með vaxandi dýpt, aðalatriðið er ekki flétta hvers þáttar heldur aðalpersónurnar, hvernig fer fyrir þeim og hvernig áhorfandinn fer smám saman að hugsa um þær eins og sína eigin fjölskyldu.
Persónurnar eru falleraður milljónamæringur (leikinn af Eugene Levy) sem ævinlega klæðist vel straujuðum jakkafötum, eiginkona hans (leikin af Catherine O’Hara) sem hefur fyrir löngu hlotið frægð við að leika í síðdegissápuóperu, gengur um með nýja hárkollu fyrir hvert tækifæri og er auk heldur með stórkostlegan orðaforða, og tvö fullorðin dekurbörn þeirra, strákur (Dan Levy) sem hefur fyrst og fremst áhuga á stíl og útliti og hefur ekki beinlínis slegið í gegn félagslega fram að þessu og stúlka (Annie Murphy) sem virðist hafa lent í ótrúlegustu ævintýrum á stuttri ævi (mörg tengd frægu fólki) sem fjölskyldan virðist ekki hafa haft minnstu hugmynd um eða muna eftir. Í þorpinu býr gjörólíkt fólk sem áhorfendum og sjálfri fjölskyldunni fer smám saman að falla æ betur við; það hefur ólíkt minni glamúr en þó að fjölskyldan virðist fyrst ætla að drukkna í sveitamennsku og plebbaskap þorpsins verða þau samt fljótlega eins og fiskur í vatni og virðast raunar hafa einstakt lag á að móta umhverfi sitt eftir eigin höfði. Andrúmsloftið er annars einkennilega kanadískt en þessa nágrannaþjóð vantar ameríska ákefð og áherslan er ekki á það yfirdrifna þó að sumt sé ýkt. Þó að það beri á ærsla- og farsahúmor er engri slíkri formúlu beinlínis fylgt heldur liggur styrkur þáttarins í hinu óvænta; þróun hans er iðulega ófyrirséð og það er jafnvel eins og það sé ætlun höfunda að snúa upp á öll þekktu frásagnarminnin. Þetta er svolítið eins og ef Alice Munro hefði samið gamansápu. Eins er hann skemmtilega óvæminn sama hvað gerist sem stundum gerir hann hjartnæmari.
Alls urðu Schitt’s Creek þættirnir 80 (en þar sem þeir eru stuttir merkir þetta 27 klukkutíma áhorf) og öfugt við svo fjölmargt efni á Netflix og öðrum streymisveitum lifðu þeir ekki sjálfa sig. Seinasta syrpan er þannig ekki hægfara dauðdagi heldur jafn gild þeim fyrri. Höfundarnir og feðgarnir Eugene og Dan Levy (sem jafnframt leika tvö helstu hlutverkin) virðast aldrei hafa orðið fangar óvæntra vinsælda sinna heldur héldu áfram jafn lengi og þeir höfðu andríki til. Er það afar hressandi í velgengnisfroðuumhverfi nútímans. Fyrir vikið er sjötta syrpan ekki síðri en sú fyrsta og undir lokin var enda hlaðið á þættina verðlaunum. Þau eru öll verðskulduð en á engan hallað þó að ég játi að hafa haft sérstaklega gaman af Catherine O’Hara í hlutverki hinnar leikrænu ættmóður þáttanna. Leiðir hennar og mín hafa ekki legið svo mikið saman nema í háðheimildarmyndum Christopher Guest og teiknimyndum sem hún talar í alveg síðan hún lék verstu mömmu í heimi í Home Alone forðum (þó að þessi sé kannski ekki mikið betri) og mér skilst að hún hafi upphaflega ekki viljað taka að sér svona stórt og langvinnt hlutverk en hvílíkur snillingur er þessi kona ekki og sýnir það í hverju atriði. Hárkollurnar hennar (sem hún kallar „the girls“) eru mikilvægar aukapersónur í þættinum.
Schitt’s Creek er þrátt fyrir ákveðinn fáránleika mjög fallegur og heilbrigður þáttur sem snýst um hið góða í manninum og auðvitað um ýmis jákvæð gildi eins og nægjusemi og hjálpsemi. Þrátt fyrir það er hann skemmtilega ópredikandi; áhorfendum er einfaldlega treyst fyrir sögunni og að draga sína lærdóma af henni. Þættirnir snúast líka á sinn iðulega farsakennda hátt um furðu venjulega hluti, ekki um læti og lífshættu. Á sérkennilegan hátt fengu þeir mig til að hugsa um bernsku mína á 8. áratugnum; kannski lifir einhver andi þeirra tíma enn í sveitum Kanada. Fyrirfram hafði hinn ódýri húmor í nafni þáttanna frekar neikvæð áhrif á mig og ég var líka tregur til að fara að horfa á sex syrpu þáttaröð sem ég hlyti að gefast upp á í miðju kafi. Miðað við það sem ég hef lesið á netinu voru þessi viðbrögð mín fjarri því að vera einstök; engan aðdáanda þáttarins langaði til að kynnast honum og flestir áttu von á einhverju allt öðru. Ég líka hafði ekki minnsta grun um hverju ég átti von á en ég var að lokum talinn á að horfa og þættirnir hurfu raunar ekki út af listanum mínum á Netflix þó að ég hafi nú séð þá alla af því að þeir verðskulda ótvírætt annað áhorf eins og flest gott efni. Kannski skrifa ég jafnvel um þá aftur að því loknu.