Orðhellar Celans
Paul Celan dó árið sem ég fæddist, tæpir þrír mánuðir greindu að líf hans og mitt, sennilega framdi hann sjálfsmorð þó að ekki skildi hann eftir sig neinar skýringar. Ég hef ævinlega verið forvitinn um Celan enda er hann mjög í hávegum hafður meðal vestrænnar intelligensíu og mikið um hann fjallað af heimspekingum og öðrum gáfumönnum. Hann hét upphaflega Paul Antschel, fæddur í Rúmeníu (nú Úkraínu) og þýska var móðurmál hans en faðirinn hefði helst kosið að hebreska yrði helsta tungumál sonarins. Ekki þarf að fjölyrða um seinni heimsstyrjöldina en Celan lifði hana af og bjó í París frá 1948. Um svipað leyti kynntist hann skáldinu og Heiddeger-fræðingnum Ingeborg Bachmann sem hafði mikil áhrif á hann og Heidegger meðal annars gegnum hana. Meðan þau lifðu var hún meira metin sem skáld en hann og var það kvalafullt fyrir Celan sem þráði viðurkenningu ákaft þó að fá skáld 20. aldar hafi samt verið meiri heimspekingar eða naumhyggjumenn.
Í febrúar ræddi ég nokkur ljóð Celans við mér gáfaðra fólk, meðal annars „Fadensonnen“ (er í samnefndri ljóðabók frá 1968) sem hljómar á þessa leið: „Fadensonnen / über der grauschwarzen Ödnis. / Ein baum- / hoher Gedanke /greift sich den Lichtton: es sind / noch Lieder zu singen jenseits / der Menschen“. Sumum þykir þetta meðal léttari ljóða Celans en sjálfum þykir mér „grauschwarze Ödnis“ hljóma fremur drungalega. En þetta er líklega gott dæmi um aðferð Celans. Hans styrkur er ekki í táknum og myndlíkingum heldur sjálfri hugsuninni, hann er pælari á borð við Heidegger og Gadamer og unnendur hans velta fyrir sér hugsunum hans (tréháum, eins og hann segir hér). Celan hafði mikinn áhuga á tungumálinu sjálfu og möguleikum þessum og ómöguleikum. Hann er óírónískastur 20. aldar skálda og lítið fyrir að henda bjartsýnismolum í lesendur sína undir lokin, sbr. ljóðið „Todtnauberg“ sem lýkur á „Feuchtes, viel“ en þýðendur deila um hvernig skuli þýða rakann eða saggann eða móðuna.
Í ljóðum Celans eru grár og svartur áberandi litir. Það snjóar eða er rakt. Hann mun eitt sinn hafa sagst andvígur táknljóðum en notar þó stöku líkingar eins og í ljóði sínu um orðahellana: „Kleide die Wörthöhlen aus / mit Pantherhäuten, / erweitere sie, fellhin und fellher, / sinnhin und sinnher, / gib ihnen Vorhöfe, Kammern, Klappen / und Wildnisse, parietal. / und lausch ihrem zweiten / und jeweils zweiten und zweiten / Ton.“ Augljóslega er hann að fjalla um tunguna sjálfa með þessum orðahellum sem hann ætlar að klæða skinni pardusdýrsins. Síðan vill hann víkka þá og notar alls konar Heidegger-samsetningar einfaldra orða. Hann ætlar að gefa þeim garða, herbergi, fellidyr, og þegar við erum farin að sjá myndina í hellinum dembir hann á okkur hinu torskiljanlega orði „parietal“ sem ég þurfti að fletta upp en vísar til veggjanna. Í kjölfarið hlustum við eftir öðrum tón og öðrum og öðrum því að kannski eigum við að sjá fyrir okkur fornt hellamálverk eða heyra bergmálið.
Ég ætla mér ekki þá dul á þessari síðu að eiga seinasta orðið um Celan því að það er enginn hörgull á lærðum ritgerðum um ljóð hans jafnvel á netinu. Hann dregur að sér andans menn af ýmsu tagi enda notaði ég tækifærið og las um leið bókina Economy of the Unlost eftir Anne Carson sem er ekki löng en þeim mun dýpri. Heidegger hef ég alltaf átt erfitt með vegna heimsku minnar þó að ég beri mikla virðingu fyrir öllum sem glíma við hann en hvað Celan varðar get ég ekki sagt að ég skilji hann enn en skynja samt þungann og virði skáldið fyrir að hafna ýmsum hefðbundnum verkfærum skálda og þrá einfaldleikann en ná samt að yrkja eitthvað sem er fjarri því að vera einfeldingslegt. Ég finn ekki alveg orðin til að lýsa því hvað er gott við hann en samt finn ég þungann og held leitinni áfram.