Morð eru kannski einmitt ekki leikur einn

Ungur maður hittir gamla töntu í lest og hún segir honum frá grun eða vissu sinni um að ónefndur nágranni hennar sé að fremja fjöldamorð í friðsælu sveitaþorpi. Sagan er eftir Agöthu Christie (var raunar lesin í útvarpinu þegar ég var tíu ára en hefði aldrei hlustað á slíkar fullorðinsbókmenntir á þeim aldri) og þetta er kjarninn í bókinni en strax í upphafi áttar maður sig á að hún verður sviðsett á nýjan hátt í jólaþætti Ríkisútvarpsins, Murder is Easy. Aðalpersónan Luke Fitzwilliam er í þessari gerð Nígeríumaður (leikarinn David Jonsson sem raunar er ættaður frá Svíþjóð að hluta) sem er um það bil að hefja störf fyrir ríkisstjórnina og þar að auki dreymir hann undarlega drauma eða fær sýnir en hvorugt er þetta beinlínis úr bókinni (og var þó Agatha gamla alls ekki hafin yfir drauma og sýnir). Þar sem aðalpersóna bæði bókar og þátta á að vera áberandi aðkomumaður í sveitaþorpi er kannski ekki úr vegi að gera hann að nígerískum innflytjanda og sannarlega þykist hann vera menningarmannfræðingur eins og í bókinni. Á hinn bóginn er hann ekki lengur vinur náfrænda Bridget sem hann hittir í þorpinu og því eru þau ívið vinsamlegri hvort við annað í upphafi en maður ætti kannski von á þegar þessi tengsl vantar.

Ég hef áður bent á að Agötuaðlaganir voru bestar milli 1974 og 2000 eftir að hafa verið hræðilegar um langan aldur en hafa síðan sokkið í aðra lægð seinasta aldarfjórðung. Það er eins og aðlagendur skilji ekki nógu vel að snilld Agötu fellst alls ekki í stóru línunum heldur einmitt í smáatriðunum; hún var listasmiður en ekki höfundur með yfirþyrmandi boðskap. Fyrir utan óþarflega ágenga stemmingstónlist sem passar ekkert sérstaklega vel við Agöthu Christie — ég hef sannarlega aldrei kallað bækur hennar „cozy crime“ og fellur reyndar alls ekki við hugtakið en finnst samt kannski óþarfi að troða of miklum drunga inn í eldri verk — og allar óþörfu draumsenurnar er þessi útfærsla meðal þeirra betri og sannarlega ólíkt skárri en þegar sama saga var sviðsett í þáttunum um Miss Marple (og henni auðvitað troðið inn að óþörfu þó að hún sé ekki í bókinni), jafnvel þó að Benedict Cumberbatch væri þar meðal leikara. Fyrir alllöngu var gerð sjónvarpsmynd með m.a. Helen Hayes og Oliviu De Havilland og var sýnd í sjónvarpinu en sennilega eftir minn háttatíma; þar var mannfræðingurinn látinn vera tölvufræðingur og tölva tók (afar klaufalega) þátt í að leysa glæpinn — um hana er fjallað hér á Youtube en á þeim glænýja stað er merkilega mikla bókmenntarýni að finna (sem segir okkur kannski að þau fræði eru alls ekki úrelt eða gamaldags, sem Rannís hefði kannski gott af því að frétta). Eins og í Marple er morðinginn talsvert yngri en í bókinni sem mér finnst hálfgerð synd. Hinn hégómlegi lávarður sem er lengi grunaður um glæpinn er jafnvel enn farsakenndari en í fyrri gerðum. Búðareigandanum Ellsworthy er sleppt eins og stundum áður enda lýsing hans í bókinni frekar fordómafull.

Helsti kostur þessarar sjónvarpsgerðar er Jonsson sem hefur sterka nærveru og samleikur þeirra Morfydd Clark (Galadriel úr The Rings of Power) er það besta við þáttinn enda eru persónur þeirra teknar alvarlega í aðlöguninni. Sumar aðrar persónur eru aftur á móti hálf kjánalegar, afar illa mótaðar og leikararnir eiga eðlilega í vandræðum með að koma þeim sæmilega til skila. Breytingar frá bókinni eru mýmargar og fæstar skiljanlegar eða gagnlegar. Þannig er læknirinn Humblebly látinn vera prestur í þessari gerð án þess að ég viti af hverju, Humbleby-mæðgurnar eru af indversku kyni, læknirinn dr. Thomas er rasisti, bílstjórinn Rivers er sósíalisti og gamla konan úr lestinni er ítrekað kölluð „Pinky“ sem hún var sannarlega ekki í bókinni. Flétta bókarinnar var kannski ekki sú besta sem Agatha Christie setti saman en þó skárri en kraðakið sem verður til úr öllum þessum hræringum. Það eina sem eftir stendur og er sæmilega líflegt er Whitfield lávarður, heitkona hans Bridget og svo rannsakandinn Luke. Sjálfur morðinginn sést svo lítið að áhorfendur ná varla að hafa áhuga á tilefni morðsins fyrir utan að vera fjarri jafn sakleysislegur og óvæntur og í bókinni heldur fremur eins og annar morðingi úr allt annarri sögu eftir Agötu. Hlutum af lausninni er þó haldið og gefa þáttunum gildi.

Nígeríumanninum er furðu vel tekið í þorpinu en á hinn bóginn líta allir niður á lávarðinn vegna þess að hann er ekki fæddur til auðs og valda og kenn ekki að hegða sér eins og sannur aðalsmaður. Þannig er reynt að halda ákveðinni stéttarvitund úr bókinni og eins þeirri hugsun Agötu úr mörgum bókum hennar að enginn hlusti á eldri konur og með þær sé ekki vel farið en allt aukaefnið frá sjónvarpsgerðarhöfundum sjálfum blandast hálf illa við efnið sem þeir voru með í höndunum frá glæpadrottningunni sjálfri. Niðurstaðan er kannski sú að það er enginn leikur að gera góða Agötu-aðlögun og jafnvel þó að oft hafi tekist mun verr til en í þetta sinn (t.d. hjá Branagh garminum sem kann því miður jafn lítið á Christie og hann kann vel á Shakespeare) verður ekki séð að ný gullöld Agötuaðlagana geti talist hafin. Við lifum í voninni.

Previous
Previous

Orðhellar Celans

Next
Next

Heimspekilegur föðuróður