Heimspekilegur föðuróður

Michael Ende (1929-1995) tileinkaði skáldverkið Der Spiegel im spiegel föður sínum, súrrealíska málaranum Edgar Ende (1901-1965) og eins tileinkar Sólveig Thoroddsen sínum föður þýðinguna sem kom út í fyrra, þeim góða og ljúfa manni sem var eins og lifandi menningarstofnun og er enda sárt saknað víða. Nú er ég ekki sérfróður um súrrealisma en sýnist bókin innblásin af honum. Ekki á það síst við um myndmálið og hvernig við erum jafnan líkt og stödd í undarlegum draumi en ég var einmitt nývaknaður frá einum slíkum þegar ég hóf lestur bókarinnar snemma í janúar.

Spegillinn í speglinum (útg. 1984 á þýsku) eru 30 smásögur án titils sem allar virðast almennar fremur en sértækar þannig að oft finnst lesandanum hann vera að lesa heimspeki. Auk þess eru myndverk Edgars Ende í bókinni og sennilega má líta á þau sem hluta textans en þó aldrei á augljósan hátt. Líkt og í öðrum verkum sínum veitir Michael Ende engan afslátt og treystir hinum harðgerða en næma þýska lesanda.

Sjálfur taldi Ende þetta verk sitt illtúlkanlegt og merking hvers texta (sumir eru örstuttir en flestir spanna um 10 blaðsíður) væri háð hverjum og einum lesanda og persónulegri reynslu hans. Sem á raunar við um bókmenntir yfirleitt en sennilega hafa fáir höfundar gert sér svo skýra grein fyrir þessu. En fyrir vikið kannski finnur lesandi sem dauðlangar að ræða bókina fátt um hana á netinu. Þetta er því bókin sem allir fremstu bókaklúbbar og leshringir landsins þurfa að hittast og ræða á vordögum.

Previous
Previous

Morð eru kannski einmitt ekki leikur einn

Next
Next

Hver man eftir Sigge Stark?