Hver man eftir Sigge Stark?
Hvað er sameiginlegt með ástarsöguhöfundunum Erling Poulsen, Bodil Forsberg, Eva Steen og Else Marie Nohr? Ja, t.d. dna-ið er eitt því að þau voru öll sami maður sem hét raunar Erling Poulsen (1919-1995) en skrifaði bækur undir öllum þessum nöfnum, m.a. fyrir Familie-Journalen. Þetta var á þeim tímum þar sem dagblöð og vikublöð birtu skáldskap og þá þrifust blaðamenn eins og afburðamaðurinn Jón frændi minn Ólafsson (1850–1916) sem bar þann titil með verðugu stolti en nú þrífst fátt í fjölmiðlum nema þrugl og pervers heimssýn þeirra sem veldur mér hryggð í hvert sinn sem ég álpast inn á netsíður þeirra.
Erling Poulsen var ekki eini höfundur bernsku minnar sem skrifaði undir dulnefni og var í boði á 37 krónur á bókamörkuðum. Hið sama á við um Kjell Halbing (1934–2004) sem skrifaði skandínavíska „vestra“ undir höfundarnafninu Louis Masterson. Mér skilst að alls hafi bækur hans um Morgan Kane orðið 83, settar saman á 12-13 árum. Hann vann áður í banka og eins og allir aðdáendur Spilverks þjóðanna (ég er sannarlega einn þeirra) vita þá hafði lekið út strax árið 1978 að Morgan Kane væri norskur því að hver man ekki eftir línunni „Spurðu Morgan Kane, þann norska svein, hann fæst í næstu sjoppu“? Það sem Masterson skrifaði voru sannkallaðar sjoppubókmenntir og ég man beinlínis eftir þeim úr sjoppum á landsbyggðinni en nú er allt slíkt efni dautt því að markhópurinn er hættur að lesa bækur, bæði sér til gagns og ógagns [kannski þurfa menntunarrannsakendur líka að kanna hvort ungmenni geti lesið bækur sér til ógagns, varla er það ómerkilegra en hitt).
Öfugt við Bodil Forsberg var enski ástarsagnahöfundurinn Theresa Charles kona og hét réttu nafni Irene Mossop (1904–1988); hún ku hafa skrifað 175 bækur undir ýmsum nöfnum og ég er hvergi nærri búinn að ná henni (eða lesa hana, svo ég muni). Svo var Barbara Cartland (1901–2000) sem skrifaði bækur undir eigin nafni og var stjúpamma Díönu prinsessu; sumir kenna henni og ástarsögum hennar um hjúskaparógæfu Karls 3. Bretakonungs í sínu fyrsta misheppnaða hjónabandi. Sigge Stark telst líka hafa verið til í raun þó að í raun héti hún Signe Björnberg (1896–1964) og var líka óhemju mikilvirkur höfundur. Hún var um hríð mest lesni og mest gagnrýndi höfundur Svía.
Hugsanlega var Enid Blyton (1897–1968) mest lesni og mest gagnrýndi höfundur Breta á sama tíma en hún samdi bækur undir eigin nafni þó að hún héti mestallan fullorðinsaldur sinn ýmist frú Pollock eða frú Waters. Hún var í 18 ár gift majornum Hugh Pollock sem er að sögn eini karlmaður 20. aldar sem var giftur tveimur metsöluhöfundum sem áttu meira en 100 titla hvor því að síðari kona hans var Ida Pollock (1908–2013) sem einnig gaf út bækur undir nöfnunum Ida Crowe, Joan Allen, Susan Barrie, Pamela Kent, Averil Ives, Anita Charles, Barbara Rowan, Jane Beaufort, Rose Burghley, Mary Whistler og Marguerite Bell. Að sögn var hún enn að skrifa eftir 100 ára afmælið. Hugh greyið drakk víst mikið en varla verður hans mikilvirku eiginkonum kennt um það.
Á þessum tíma var mikið rætt um „sjoppubókmenntir“, orð sem lifði góðu lífi milli 1980 og 2010 en hefur væntanlega dáið ásamt sjoppunni, þeirri ágætu menningarstofnun. Ég er aðdáandi sumra slíkra bókmennta og vil gera greinarmun á vel heppnuðum afþreyingarbókum (eins og t.d. sumum fyrstu bókum Alistair McLean, þeim sem hann var nógu edrú til að skrifa sjálfur) og hreinu drasli. Samt finnst mér ekki ástæða til að láta eins og það sé enginn munur á bókum og salan sé eini marktæki mælikvarðinn. Bodil Forsberg og félagar gerðu sitt gagn fyrir bókmenntalífið en gátu aldrei verið eini tilgangur þess.