Amontillado

Ég man enn þegar ég fór að sjá Gestaboð Babettu í litlum sal í Regnboganum, á árunum sem ég fór iðulega 3-4 sinnum á mánuði í bíó. Þessi kynni endurnýjaði ég síðan núna um jólin með hjálp danska sjónvarpsins. Gat ekki stillt mig þegar ég sá hana á dagskrá því að hver getur gleymt „cailles en sarcophage“ sem hefur einu sinni séð gesti Babette borða þá. Þessi marglofaða mynd, gerð af Gabriel Axel eftir sögu Karen Blixen, gekk næstum heilt ár í litlum íslenskum bíósal fyrir 35 árum eða svo og öll reykvíska intelligensían sá hana í bíó, sumir oft. Fyrir mér var hún uppljómun því að engin leið er að missa athyglina þó að kvikmyndir sé einar 100 mínútur og fjalli fyrst og fremst um eina matarveislu.

En hún fjallar auðvitað um svo margt annað líka, t.d. um listina, peningana og það innihald sem fólk kýs að gefa eigin lífi (svo að ekki sé minnst á náðina sem kemur við sögu í magnaðri stuttri ræðu sænska hershöfðingjans). Kokkurinn Babette kemur í þorp í Jótland, send þangað af frægum óperusöngvara sem eins konan ástarjátning til prestsdótturinnar Filippu. Faðir hennar var strangur trúarleiðtogi sem nú er látinn og dætur hans eru orðnar miðaldra en höfðu hvor um sig í æsku eignast einn ákafan vonbiðil, hermanninn Lorenz og söngvarann Papin. Þær eru enn í forsvari fyrir söfnuð hins látna prests en þar eru allir orðnir gamlir og önugir og þreyttir hver á öðrum og láta það óspart í ljós lausir undan ægishjálmi prestsins (sem er raunar fyndnasta atriði myndarinnar, sérstaklega setningin: „Jeg har gennemskuet dig, Christoffer. Falsk er du“).

Flétta myndarinnar snýst um að Babette vinnur í happdrætti. Systurnar eru þá dauðhræddar um að þeirra ómissandi matselja hyggist núna skilja við þær en hún kýs að nota allan vinninginn í eina veislu sem jafnast á við bestu veitingastaðamáltíðir á Café Anglais í París þó að söfnuðurinn sé alls ekki svo góðu vanur og kunni ekki einu sinni við að njóta veislumatarins. Ótti safnaðarins við þessa veislu (þau streyma að hógværu húsinu eins og svartkrákur þegar hún hefst) skapar raunar helstu átök sögunnar en í myndinni er veislan boðuð þegar helmingur tímans er eftir — óttanum um að fyrirtækið misheppnist lýkur raunar ekki fyrr en í forréttinum þegar hinn lífsreyndi og sigldi en heimspekilega sinnaði hermaður Lorens Löwenhielm bragðar á fyrsta vínglasinu og segir með sænskum hreim „amontillado“ (eitt besta dæmi sem ég veit um aristótelísk hvörf eða περιπέτεια í sögu). Babette hélt veisluna bæði til að þakka fyrir sig og sýna hversu hún metur systurnar en líka vegna þess að sem kokkur er hún sannur listamaður og ein máltíð af þessu er listrænn gjörningur af því tagi sem getur gefið heilli mannsævi aukið gildi og það er kannski hlutskipti listarinnar, að dvelja með fólki smástund og breyta lífi þess, persónu og stefnu.

Kannski fjallar sagan ekki síst um það sem Karen Blixen eyddi ævinni í, söguna sem dvelur þér örskamma stund á langri ævi en breytir kannski öllu eða a.m.k. einhverju. Greifynjan sendi frá sér sex smásagnasöfn, eina glæpasögu og eitt endurminningabindi en með þessum verkum heillaði hún heiminn nægilega til að verða einn frægasti höfundur Danmerkur á sínum tíma þó að hún væri einkum þekkt undir höfundarnafninu Isak Dinesen (undir því nafni birti hún Seven Gothic Tales í Bandaríkjunum um svipað leyti og bókin kom út á dönsku). Sögumannsröddin er iðulega sterk í verkum Blixen og það á meðal annars um smásöguna sem Gabriel Axel kvikmyndaði en þar er hin þekkta Ghita Nørby (hin ljúfa en sterka Ingeborg Skjern í Matador) sögumaður. Sjálf leit Blixen á sig sem eins konar Sjeherazade 20. aldar en söguefni hennar var gjarnan sótt til 19. aldar og þar með æskuára hennar. Babette í sögunni er greinilega hliðstæða hennar að þessu leyti þó að hennar list felist ekki í að segja sögur heldur að tjá sig í mat. Þó að sagan virðist stundum varanlegri en kvöldmaturinn (þó að ég muni sannarlega enn eftir ýmsum góðum matarstundum frá árinu sem leið og fyrri árum) er ekki endilega svo því að hin sanna list frásagnarinnar verður til þegar ein manneskja segir annarri sögu, jafnvel þó að prentbókin hafi milligöngu.

Hver einasti sanni höfundur veit að list hans felst í að kveikja kenndir, tilfinningar, hugsanir og jafnvel eitthvað sem ekki er hægt að koma orðum að hjá einum og einum lesanda og list höfundarins felst ekki í metsölu eða verðlaunum heldur þessu andartaki þar sem hann nær sambandi og stundum ævilöngu við aðra manneskju með orðum sínum. Þetta er allt sem skiptir máli og Blixen er að mínu viti að koma þessu til skila. Með því að kvikmynda smásöguna og veisluna í 100 mínútna mynd er Axel að tjá þetta sama og kannski er það þess vegna sem það skiptir ekki máli hversu oft maður sér Gestaboð Babettu – myndin hefur alltaf sama kjarna að flytja. Það er engin eilífð til, ekki einu sinni eilíf listaverk. Það besta sem listamaðurinn getur vænst er að ná að snerta aðra (fáa eða marga) á andartaki og helst ná til innstu hugarlendna þeirra og jafnvel hins ómeðvitaða. Dinesen-Blixen var höfundur sem gat það og aldrei sem með þessari sögu um listakokkinn en svo má ekki gleyma Gabriel Axel sem skildi að þetta væri hin fullkomna kvikmynd þó að enginn væri hasarinn.

Previous
Previous

Hver man eftir Sigge Stark?

Next
Next

Ofreiði afinn