Hvert lestur Grettis sögu getur leitt
Það hamlar mér aðeins að geta ekki rætt hér öll spennandi handritin sem ég les þessa dagana fyrir Hið íslenska bókmenntafélag. Eins geymi ég að tjá mig um Mathias Énard fyrr en ég hef lokið við fyrri bókina. Á meðan verðið þið að þola að ég tali um sjónvarpið eins og versti menningarfræðingur sem er hættur að lesa. Ég gerðist nefnilega áskrifandi að Amazon Prime um daginn til að horfa á Rings of Power eftir að vinur minn hafði gabbað fyrsta þættinum inn á mig.
Í þessu tilviki er það nú samt ekki þannig að ég hafi ekki lesið bókina sem um ræðir. Raunar mun ég vera sá fyrsti sem skrifaði fræðigrein um verk Tolkiens á íslensku og eini Íslendingurinn sem hefur skrifað í Tolkien Studies. Þannig að ég er í raun og vera að horfa á Rings of Power af fræðilegum áhuga og mun halda því áfram. Ekki þó aðeins, mér er ögn skemmt líka. Þrátt fyrir að þetta sé ekki beinlínis trygg aðlögun. Þvert á móti. Andi Tolkiens svífur alls ekki yfir vötnum, miklu frekar andi Peter Jacksons. Það eru gefnar ýmsar höfundaréttarskýringar á því en mín prívatskýring er að lesendur Tolkiens séu sennilega í afar misgóðu sambandi við hugarheim hans.
Ótryggar aðlaganir geta líka kennt manni heilmikið. Þannig eru hobbitarnir í Rings of Power og í öllum 21. aldar myndum mun miklu meira sveitó en í bókunum þar sem engum dettur í hug að þeir séu einfeldingar. Ég er alls ekki viss um að Tolkien hafi aðhyllst þessar skýru náttúru og siðmenningar andstöðu sem svífur yfir vötnum í Rings of Power eins og hjá Jackson. Líklega hefði honum sárnað hversu kjánalegir hobbitarnir verða stundum. Stundum hefur hvarflað að manni að það væri hreinlegra að láta brúður Jim Henson leika þá. Á hinn bóginn finnst mér ólíklegt að hann hefði haft nokkuð að athuga við kynþátt leikaranna sem rifist er um í enskumælandi löndum.
Það er líka deilt um Galadríel sem er þó óþarft af því að persónan í þáttunum á ekkert sameiginlegt með þeirri sem Tolkien skapaði nema nafnið. Hefði farið betur á að búa til nýtt nafn. Tolkien var of handgenginn miðaldamenningu til að láta álfadrottningu hegða sér eins og óþekkan riddara. Aragorn reyndist að vísu vera konungur í dulargervi en hann var í útlegð og ekki kominn í ríki sitt.
En fallegur er þátturinn með afbrigðum og heldur manni vel við efnið þó að frjálslega sé farið með heim Tolkiens. Sjálfur sótti hann sinn innblástur í okkar bókmenntir og hefði ef til vill aldrei skapað Miðgarð ef Grettis saga og Völsunga saga hefðu ekki ratað til hans í æsku.