Þegar ég reyni mig við „roman fleuve“
Í von um að tilgerðin sé að komast í tísku og til að eyða þeim misskilningi sem fréttamaður RÚV tók að sér að breiða út að ég vilji sekta fólk fyrir útlendar slettur set ég franskt tökuorð í þetta heiti. Í ár gef ég út tvær bækur í ritröð. Um aðra ræði ég síðar og lít eiginlega ekki á það sem ritröð heldur eina skáldsögu í fjórum bindum sem hefur að einhverju leyti sama form og sú fræga kvikmynd Akira Kurosawa Rashomon sem full ástæða er til að horfa á.
En hin ritröðin mín, „Saga um glæp“ er eins konar roman-fleuve sem er skilgreind á wikipedia sem röð skáldsagna sem í heild sinni eigi að flytja skýr skilaboð um samfélagið og eðli þess, þar sem sömu persónur koma við sögu í allri ritröðinni en kastljósinu sé þó beint að mismunandi persónum og fléttu í hvert sinn. Útlagamorðin, Urðarköttur, Tíbrá, Skollaleikur og Reimleikar eru hluti slíkrar fjölsögu og ef þær eru lesnar saman má sjá ýmis samkenni eða jafnvel kenningu um tilurð ofbeldisglæpa. Þess vegna finnst mér gott þegar lesendur segja mér að hver saga sé betri en sú á undan því að ég hugsa bækurnar sem samlagningarverk þannig að það sé mikilvægt að lesa þær allar.
Líkingin í franska hugtakinu er sótt til fljótsins sem streymir áfram og frægasti ritraðarhöfundurinn er Balzac sem einnig er fyrirmynd mín. Einhverjum þykir kannski fordild að líkja sjálfum sér við frægan höfund en Balzac er þó ólíkur ýmsum ritsnillingum nútímans að því leyti að hann vildi ólmur skrifa vinsæla afþreyingu, hefði þess vegna verið vís til að skrifa glæpasögur ef hann væri uppi nú. Auk þess lá Balzac ekki yfir bókunum árum saman heldur skrifaði hratt og vasklega og ég hef reynt að fylgja dæmi hans. Samt geta bækurnar haft gildi og eru þó að ég segi sjálfur frá betur skrifaðar en aðrar sem eru lengur í smíðum. Eins og líka má sjá lét Balzac taka af sér myndir sem einna helst minna á þegar Sölvi Tryggvason gaf út bók.
Því er ástæða til þess að hvetja jafnvel þá lesendur sem eru lítt hrifnir af draugagangi til að lesa Reimleika. Allar sögurnar um glæpi eru mikilvægar einingar í minni „roman fleuve“ — sem allir menntamenn munu vonandi ljúga því að hafa lesið þegar fram líða stundir.