Steini frá Hamri og upplestrar höfunda
Á morgun verður málþing um skáldið frá Hamri í hátíðasal Háskóla Íslands. Þar verð ég staddur og ekki annað hægt því að Þorsteinn heitinn var vinur mömmu og þess vegna leyfi ég mér að kalla hann Steina í fyrirsögn. Þegar foreldrar mínir voru látnir komst ég að því að maður erfir vini þeirra og jafnvel stúdentsárganginn og þess vegna finnst mér ég hafa þekkt Þorstein heitinn. Ein ástæða þess að mamma leit alltaf á hann sem sérstakan vin sinn er sú að ólíkt flestum öðrum sem hún þekkti í sinni fyrri bóhematilveru á Laugavegi 11 og urðu síðan frægir bar Þorsteinn alltaf kennsl á hana og heilsaði. Hann var líka svo góður við okkur afkomendurna að lesa við útför hennar. Foreldrar mínir vildu hvorugt prest við jarðarför sína og þá þurfti ljóð í staðinn.
Fleira segi ég ekki um Þorstein að sinni því að mitt litla vit um skáldskap hans fær útrás á málþinginu á morgun. Hins vegar kynntist ég honum á nýjan hátt þegar ég varð sjálfur rithöfundur. Íslendingar eru eins og sjálfsagt fleiri gjarnir á að biðja höfunda að lesa upp úr verkum sínum (nema einna helst sakamálasagnahöfunda sem skýrir e.t.v. hvers vegna ég hef sinnt þeim undanfarið) en hins vegar vill þannig til að ég er hvorki neitt sérstakur upplesari eigin verka og þar að auki finnst mér erfitt að koma fram opinberlega þó að því trúi sjálfsagt enginn þar sem ég hef haldið ríflega 160 fræðileg erindi. En fólk veit ekki um allt sem ég hef neitað.
Þar sem ég veit að ekki er allt sem sýnist get ég ekki vitað hvort Þorsteini heitnum fannst gaman að lesa upp eða ekki. Á hinn bóginn get ég vottað að hann var frábær upplesari eigin ljóða (þess vegna báðum við hann að lesa í kirkjunni eða öllu heldur systir mín sem fólk á erfitt með að neita). Þegar ljóðabækur hans komu út voru ævinlega mættir tugir aðdáenda hans í útgáfuhófin, mest konur. Síðan las Þorsteinn af miklum þunga og dýpt en án alls hávaða eða látalæta og þá var eins og rafstraumur færi um salinn. Ekki voru áhrifin minni þó að áheyrendur væru færri. Það gleymir aldrei neinn skáldinu frá Hamri að lesa upp ljóð sinn fyrir bergnumdar grúppíur.