Hliðvarsla
Eitt tískuhugtak síðustu ára sem auðvitað kemur úr ensku er hliðvarsla (eða gatekeeping) og lýsir hvernig ráðandi klíka á hverju sviði gætir þess vandlega að aðrir komist ekki að. Sérstaklega hefur verið bent á þetta þegar rætt er um stöðu kynjanna í ýmsum lærdómssamfélögum, t.d. á háskólastiginu. Hugtakið er áhugavert en kannski misnotað hér á landi þar sem mann grunar að hliðvarsla sé mun algengari en reiknað er með. Að minnsta kosti er margt sem nefnt er í bókunum óþægilega kunnuglegt fyrir mig, t.d. að vera ekki með prófgráðu í rétta faginu til að teljast marktækur í tiltekinni umræðu, vinna ekki hjá réttri stofnun til að fá að tala, vera ekki sérfræðingur í efni sem maður hef sannarlega rannsakað vegna þess að doktorsritgerðin fjallaði um annað, vitna ekki í réttu fræðimennina eða tala ekki út frá nýjustu (yfirleitt bandarísku) umræðunni. Ég á víst gott safn af ritdómum og greinum með slíkri hliðvörslu, svo að ekki sé minnst á ritrýni og einkasamtöl. Þannig að mér dettur í hug að hliðvarslan sé flóknari en stundum er lýst og henni beitt líka af þeim sem segjast standa höllum fæti en gera það kannski ekki alltaf í raun.
Sá sem fær ekki að vera með hlýtur að velta fyrir sér fyrst hvort hann sé ekki hávaxinn eða með vitlaus áhugamál og í röngu félagslífi – en svo er spurningin hvort öllum finnist ekki að hinir séu risavaxin klíka sem þeir séu ekki með í, útlegð sé hið eðlilega hugarástand hugsandi manneskju. Samt er líklegra að hliðvörsluhugtakið sé einfaldlega stundum misnotað og misskilið, valdagreiningin á bak við sé einfaldlega ekki nógu nákvæm, eins og þegar orðinu „valdastétt“ er slengt fram í opinberri umræðu af fólki sem hefur meiri menningarauð og mannaforráð en flestir. Þá grunar mann að verið sé að yfirfæra grunnfærna altæka en erlenda (bandaríska) samfélagsgreiningu á önnur samfélög án nægilegs tillits til tilbrigða í valdastöðu milli ólíkra samfélaga og hópa. Jafnvel koma út bækur með hvatvíslegum vaðli um elítur — en á hinn bóginn var ánægjulegt að sjá upphafið að betri og vísindalegri nálgun hjá Gunnari Helga Kristinssyni (Elítur og valdakerfi á Íslandi) í fyrra.