Besta Njáluaðlögunin

Til eru ýmsar leikgerðir, kvikmyndir og sjónvarpsgerðir af norrænum miðaldaarfi, frá Útlaganum til The Northman sem hvorttveggja er vel heppnuð aðlögun á gjörólíkan hátt. Vegna þess að ég kenni Njáls sögu í íslensku þetta misserið hefur mér verið sérstaklega hugsað til hennar og ég sagði nemendum mínum um daginn að eftirlætiskvikmyndin mín eftir Njálu sé Three Billboards Outside Ebbing, Missouri sem vann ýmis verðlaun árið 2018.

Ég geri mér grein fyrir að val mitt er ekki augljóst vegna þess að þessi frábæra kvikmynd er aldrei sögð vera Íslendingasaga, hvað þá Njáls saga. Höfundurinn, Írinn Martin McDonagh, hefur mér vitanlega aldrei minnst á Njáls sögu eða Íslendingasögur í viðtölum um myndina. En samt finnst mér hann skilja Íslendingasögur betur en flestir sem hafa unnið með þær seinustu aldirnar. Three Billboards er mynd sem er bæði harmræn og drepfyndin, með frábærum samræðum og mikilli vinnu í persónusköpun. Hún fjallar um hefnd og réttlæti og stöðu einstaklinga gagnvart lögum og rétti. Allt þetta á líka við um Njálu og þar að auki finnst mér efnistökin glettilega lík. Fyrir alla sem lesa Njáls sögu eins og ég er Three Billboards besta kvikmyndin eftir henni.

Fyndnin vill gleymast í víkingamyndum nútímans, jafnvel þeim bestu. Á hinn bóginn eru flestar Íslendingasögur drepfyndnar og aðallega Njáls saga. Samtölin í þeim ná ekki heldur sama flugi og í Njálu og fæstar ná utan um þessa harmrænu íróníu sem einkennir Three Billboards, sögu sem er bæði drepfyndin og grafalvarleg. Kannski sjá aðrir lesendur þetta ekki í sögunum en það kemur mér á óvart. Ég hef reynt að hjálpa með greininni „Skarphéðinn talar“ (2015) þar sem ég líki Skarphéðni við Mr. Bennett, ekki bara í gríni eða til að vera öðruvísi heldur meina ég það og eins meina ég það að Three Billboards sé besta Njálan.

Ég var afar hrifinn af The Northman sem ég sá í vor og finnst að varla verði betur gert með þeirri aðferð sem þar var beitt. Ef sögurnar verða kvikmyndaðar í framtíðinni þyrfti helst að fara aðra leið og ekki gleyma fyndninni. Aftur á móti mætti leggja minni áherslu á krafta og bardagatækni persónanna því að Íslendingasögurnar snúast reyndar mest lítið um bardaga. Kannski þyrfti snúning af því tagi þegar Johnny Depp lék sjóræningja á allt annan hátt en hafði verið gert og sló rækilega í gegn. Það þurfti kjark til að reyna það og líka til þess að leyfa honum þetta. Kannski mætti auglýsa eftir svipaðri dirfsku í næstu fornsagnamynd.

Previous
Previous

Að hverju dáist maður?

Next
Next

Hliðvarsla