Ungversk örvænting
Eitt sinn fór ég á Voga í Vatnsleysuströnd og hlustaði þar á gjörning kanadískrar listakonu sem meðal annars ræddi ungverskan uppruna sinn og lagið Szomorú vasárnap sem er þekkt fyrir að tengjast sjálfsmorðum. Mér hefur stundum orðið hugsað til þess seinustu sex mánuði ársins því að ég hef nýtt árið 2022 í óformlegt námskeið í ungverskri kvikmyndagerð þar sem kennarinn deildi mér út fimm myndum en ég horfði svo sjálfur á þá sjöttu á norrænni sjónvarpstöð, orðinn nógu sjálfstæður til að geta valið mér verkefni.
Nú voru ungversku kvikmyndarnar sem ég sá aðeins sýnishorn og þar að auki kann ég ekki neitt í ungversku en allar áttu þær það sameiginlegt að tónlist lék þar mikilvægt hlutverk í sköpun stemmingar og myndatakan var full af harmrænni fegurð og táknrænu. Þær fjölluðu flestar um fólk í kreppu, raunar finnst mér samt eftir á að orðið kreppa eigi varla við þar sem hið eðlilega ungverska ástand sé hryggð og lífsangist. Um framfaratrú var ekki að ræða, persónurnar eltast við óhöndlanlega þrá án vona og væntinga. Margar voru raunar gamanmyndir en þær voru ekki síður fullar af harmi og vonleysi.
Hinn ungverski kvikmyndahraði er ekki sóttur til MTV. Oft líða margar mínútur milli þess að nokkuð er sagt og myndavélin læðist stundum lengi um ganga fátæklegra húsakynna. Samskipti foreldra og barna einkennast af tómi og sársauka en hálfu verri eru þó ástarsamböndin. Ein sú eftirminnilegasta gerist í sláturhúsi og snemma í myndinni tekst kýr í málmfjötrum á loft á leið til slátrunar. Það atriði gæti gert flesta að grænmetisætum.
Ég hef reynt að vera glaðsinna í lífinu í von um að líða þá betur en ungversk kvikmyndagerð kemur manni í samband við sársaukann, örvæntinguna og vonleysið. Þó voru flestar myndirnar líka fullar af húmor, fegurð og jafnvel léttleika, umfram dapurlegar norrænar myndir. Það ýtti undir þá fordóma mína að Mið-Evrópumenn búi yfir meiri fágun og elegans en við á Norðurhjara.
Myndirnar á námskeiðinu: Isten hozta, örnagy úr!, Kárhozat, Ernelláek farkaséknál, Testről és lélekről, Rossz versek. Við bættist úr sjónvarpi: Viharsarok.