Konungur deyr
Javier Marías er látinn en hann var talinn einn fremsti rithöfundur Spánar seinustu 30 árin. Hann var líka tilnefndur konungur gerviríkisins Redonda sem kom við sögu í bók hans Todas las almas sem er eina bókin hans sem ég hef lesið. Redonda er óbyggð eyja í Karíbahafinu sem tilheyrir formlega Antigua og Barbuda (þannig að Karl 3. er þar formlega konungur í bili) en bókmenntamenn tóku hana upp á arma sína á 20. öld, fyrst M.P. Shiel sem var fæddur þar í grennd en síðan hafa áhugamenn um Redonda arfleitt aðra rithöfunda sem hafa sýnt áhuga að titlinum og Marías var sem sagt konungur þessarar eyjar sem enginn býr á, ekki viðurkenndur þó af neinum.
Ég las Todas las almas í enskri þýðingu skömmu eftir að hún kom út. Þá var ég mun duglegri að fylgjast með en núna. Þetta er bók sem fjallar um ástarsamband (sem ég náði litlu sambandi við) og um Oxford séna með augum útlendings; hún læðist rólega áfram og varla hægt að tala um sögufléttu sem gerði bókina erfiða fyrir mig á sínum tíma en samt gafst ég aldrei upp þegar ég var á þrítugsaldri og hún hefur náð að lifa með mér en nú finnst mér ég þurfa að lesa hana aftur þar sem ég hef kynnst Oxford mun betur.
Marías var afar heimspekilegur höfundur. Margir sögumenn hans voru þýðendur. Eins má í Todas las almas sjá áhuga hans á þagmælsku og hinum seigfljótandi tíma sem við öll verið minnt á seinustu viku.