Tove Jansson

Það var ánægjulegt að fá að sitja í pallborði á Degi á mörkum veruleika og ímyndunar í heimi Tove Jansson í Hörpu í gær. Málþingið er samstarfsverkefni Íslendinga og Finna og stýrt af miklum myndarbrag en um leið léttleika af Gerði Kristnýju. Það var vel kynnt, vel skipulagt og fjölmennt. Haukur Ingvarsson stýrði mínu pallborði þar sem ég ræddi við Sigríði Guðmarsdóttur og Nönnu Hlín Halldórsdóttur.

Það ber nokkuð á „krúttvæðingu“ Múmínálfaheimsins seinni ár og eins hefur hin ævisögulega rannsóknaraðferð verið áberandi. Nemendur mínir þekkja minn hug til hennar. Hún getur stundum opnað dyr en oftar festir hún túlkunina í fullþröngan ramma í ljósi þess að jafnvel nýlátnir listamenn sem skildu eftir sig urmul af gögnum gengu í gegnum alls konar reynslu sem hvergi er skráð og var jafnvel mikilvægari en það sem gögn finnast um.

Ég er allviss um að það sem ég heillaðist mest af á sínum tíma var aragrúinn af skondnum verum í bókunum og ég hef alltaf haldið upp á þær þrjár sem eru með einna flestar persónur: Örlaganóttina, Pípuhatt galdrakarlsins og Vetrarundur í Múmíndal. Þessar persónur eru svo lifandi og haganlega gerðar að barnið ég hef haldið áfram að hitta þær alla tíð. Ein þeirra er skíðahemúllinn sem var svo hress að hann lyfti upp öllu samfélaginu í Múmíndal með glaðværð og hressleika en að lokum varð gleði hans of yfirþyrmandi og allir vildu losna við hann.

Fólkið í Múmíndal er alls ekki fullkomið heldur vantar þar ekki öfund, hræðslu, minnimáttarkennd, leti og fleira. Það eru þessir komplexar sem hafa gert þau öll að ferðafélögum manns alla fullorðinsævina og þessi skýri heimspekilegi og fagurfræðilegi hljómbotn sem er í verkinu. Evrópsk tilvistarstefna og finnsk melankólía ganga í eina sæng sem á betra skilið en að vera „krúttvædd“.

Previous
Previous

Konungur deyr

Next
Next

Stundum þarf að veðja