Stundum þarf að veðja
Um daginn kom gamall nemandi til mín og sagði mér að þegar hún var við nám í Houston í Texas hafi hún séð ókunnugt fólk lesa bók mína, The Troll Inside You, og það gladdi mig auðvitað mjög því að allar bækur – og sérstaklega ef maður skrifar þær á öðru máli – eru ætlaðar ókunnugum sem skilja mann kannski betur en fólkið sem maður þekkir. Það gildir sérstaklega um þessa. Það var feykilega gaman að skrifa hana en erfitt að koma henni út. Mig langaði að nota hana til þess að eiga í samræðu við fræðafólk utan norrænna fræða og líka til að skrifa bók sem fylgdi uppskriftinni að fræðibók ekki í einu og öllu. Fyrsti útgefandinn sem ég talaði við einblíndi hins vegar á norræn fræði og fannst að ég ætti að gera bókina hefðbundnari. Hann var samt mjög jákvæður og það kostaði mig átak að standa með sjálfum mér.
Það er alltaf erfitt að hafna góðum boðum og halda í óvissuferð í staðinn. Ég er afar hagsýnn og vanur að fylgja rammanum og skrifa jafnvel iðulega eftir pöntun. Mín kenning er sú að góður listamaður þrífist vel í ramma en í þetta sinn langaði mig að gera það sem ég vildi og þegar ég heyri um fólkið í Houston – og raunar líka þegar ég skoða alþjóðleg bókasafnskerfi og sé að tröllið er komið á bókasöfn í Botswana og Sameinuðu arabísku furstadæmunum – þá finnst mér að ég hafi veðjað og uppskorið. Sem er ánægjuleg tilfinning fyrir mann sem aldrei vinnur í happdrættum og telur sig ekkert sérstaklega heppinn.