Áður en ég dey

Undanfarnar vikur hef ég að gefnu tilefni velt fyrir mér ýmsum þáttum í fari höfundarins Eiríks Guðmundssonar og gömul verk hans hafa verið dregin fram úr hillum. Ég sá Eirík fyrst fyrir 36 árum sem hávaxinn eldribekking í menntaskóla. Sá litli aldursmunur efldi auðvitað virðingu mína fyrir honum sem reyndist í því tilviki verðskulduð. Við urðum aldrei nánir vinir en vorum samferða alla tíð í háskólanum og lífinu; eina bók hans las ég í handriti og þótti vænt um að hljóta þann óvænta heiður .

Eiríkur gat annars verið óræður og hlaupist undan tilraunum til að ná taki á honum. Í bókinni sem ég las (1983) kemur samt uppruni hans sem landsbyggðarstráks skýrt fram. Þeir voru alltaf mestu töffararnir og það fannst mér Eiríkur vera með sínum hætti og ef til vill var það líka ólán hans. En í óskipulagðri upprifjun minni gluggaði ég í 39 þrep á leið til glötunar. Það sem þar kom við kaunin var lýsing Eiríks á franska skáldinu Georges Perec og lista hans um það sem hann yrði að gera áður en hann dæi:

Fáir höfundar 20. aldar glímdu af meiri ákefð við tómið og eyðurnar en hinn heillandi Perec sem skrifaði 300 blaðsíðna skáldsögu án þess að nota stafinn e og sú fjallaði um brotthvarf og eyður (La Disparition á frönsku, A Void á ensku). Fáir höfundar settu sér strangari reglur og ramma en Perec en á sinn hátt glímdi Eiríkur líka iðulega við ramma útvarpsins sem hann kunni flestum öðrum betur að leika sér með.

Perec lést fyrir aldur fram eins og Eiríkur og þannig einkennist ævi hans af fjarveru (efri áranna) sem rímar við höfundarverk hans. Allir deyja en við skynjum hina grimmu hönd dauðans aldrei sterkar en þegar hún fangar þá sem okkur finnst að hefðu hugsanlega afrekað eitthvað stórkostlegt á tímanum sem aldrei kom.

Previous
Previous

Stundum þarf að veðja

Next
Next

Tröllasögur nútímans