Tröllasögur nútímans

Í danska sjónvarpinu hafa núna verið sjónvarpsþættir um ferðakónginn Simon Spies og stúlkurnar sem bökuðu morgunbollur fyrir hann (en bolle er sem kunnugt er tvírætt orð á dönsku). Þær voru margar 15-18 ára og sumar þurftu að sofa hjá honum líka. Ein vann síðan í „happadrættinum“. Að lokum giftist Spies tvítugri stúlku og var dauður skömmu síðar þannig að Janni erfði allar milljónirnar og hefur lifað í vellystingum síðan. Hinar fóru sumar í hundana. Í þáttunum fer systir einnar stúlkunnar sem síðar varð eiturlyfjasjúklingur að leita upplýsinga um systur sína, kemst að því að ferðakóngurinn var líka sadisti og úr verður hörð ádrepa á Spies og umhverfi hans.

Það þversagnakennda við afhjúpunina er að öllum var kunnugt um hegðun Spies allan tímann en hann naut vinsælda og virðingar ekki aðeins fyrir dugnað sinn í viðskiptum heldur líka upp að vissu marki fyrir hegðunina í einkalífinu sem þótti eins og hver önnur sérviska. Niðurstaðan er þá kannski sú að vandamálið hafi ekki verið hann heldur samfélagið allt, þ.e. samfélagið fyrir 40-60 árum. Þar með auðvitað verður þetta að enn einu málinu um syndir fortíðarinnar. Gamli tíminn er tröllið í sögunni.

Þátturinn er vel gerður og gangrýnin skoðun á Simon Spies tímabær en þó hlýtur maður ekki að hugsa hvort það sé ekki áberandi að leitað sé sektar í fortíðinni eða fjarlægum löndum, þ.e. að nútíminn haldi réttarhöld yfir fortíðinni til að staðfesta sjálfan sig sem hinn besta tíma en sömu gagnrýnisgleraugum er ekki beitt á sama hátt á nútímann og hans kreddur. Tröllin eru ævinlega annarstaðar. Hin gömlu viðhorf eru afhjúpuð þegar þau eru á undanhaldi. En ef þessar sögur sýna fram á eitthvað er það samsekt mestalls samfélagsins og um leið gæti lærdómurinn verið sá að taka ekki því sem er í tísku sem gefnu. Helsta málsvörn vina Spies er nefnilega: Svona voru bara viðhorfin þá. En hvað þá með okkar viðhorf núna? Munu þau öll eldast vel?

Ég er svo gamall að muna eftir Spies á lífi því að um hann var mikið fjallað í Billed-Bladet sem kenndi mér dönsku frá 11-14 ára. Mér fannst hann ógeðugur þá og líka ógeðugt hversu eðlilegt öllum fyndist að hann væri stöðugt umkringdur fáklæddum táningsstúlkum – en á þeim árum var líka alltaf berbrjósta táningsstúlka á heilsíðu í þessu blaði undir yfirskriftinni „Hun gør Danmark dejligere“. Ég get því ekki annað en velt því fyrir mér hvort eftir 40 ár verði kannski gerðir sjónvarpsþættir sem afhjúpa ýmsa sem mér finnst ógeðugir núna en aðrir dýrka og dá – og hvort ég geti nokkuð glaðst yfir því svo seint.

Previous
Previous

Áður en ég dey

Next
Next

Hestar í bókmenntum