Hestar í bókmenntum
Ég verð alltaf frekar hissa þegar annars skynsamt fólk talar um „búningadrama“ eins og það sé bókmenntagrein. Heitið er notað yfir alls konar leiksýningar, kvikmyndir og sjónvarpsþætti þar sem persónurnar klæðast búningum sem eiga að vera frá sögutímanum og er það vissulega verðugt viðfangsefni búningahönnuða en segir annars mest lítið um hvers konar efni er í verkinu. Þannig finnst mér eiginlega frekar lítilsvirðandi að kalla verk Flaubert, Tolstoj eða Charlotte Brontë „búningadrama“.
Eiginlega minnir þetta mig á konuna sem vildi aðeins lesa bókmenntir þar sem hestar kæmu við sögu sem útilokar hvorki Fagra-Blakk né Hrafnkels sögu. Samt verð ég auðvitað viðurkenna að það er ekkert ósvipað að gefa Íslendingasögur út sem Borgfirðinga eða Húnvetninga sögur óháð öllu efni þeirra enda hef ég aldrei tekið þátt í slíku.
Þegar ég hóf mitt bókmenntanám var gullöld strúktúralismans nýliðin en í honum fólst meðal annars að sett voru upp líkön þar sem höfuðandstæður allra bókmennta voru greindar sem náttúra og siðmenning, líf og dauði, himnaríki og helvíti og þar fram eftir götunum. Vitaskuld varð þetta stundum einfeldingslegt en samt gerði þetta sitt gagn eins og allt annað í strúktúralismanum. Aðaláminningin er þessi: kjarni hverrar sögu er sjaldan hvenær hún gerist eða hvert sögusviðið er eða hvort það er hestur í henni. Að þessu þurfa allir sem skrifa um bókmenntir að hyggja.