Bækur dagsins

Fólk sem les kemur sér upp siðvenjum sem virðast óumbreytanlega uns það kollvarpar þeim dag einn af eðlislægri óeirð, svipað og þegar það skyndilega hættir að sækja heim eftirlætisveitingahúsið sitt. Hjá mér gerðist það þegar þreytan fór að sækja að á kvöldin. Það blasti við að með þessu áframhaldi yrði lítið úr lestri en þá rann upp fyrir mér að í bernsku gat ég lesið hvenær sem er: á morgnana, síðdegis og fyrir svefninn. Til varð ný rútína.

Það eru 12 ár síðan ég sneri baki við íslenskum dagblöðum. Þeim fór lengi fram en síðan fór þeim að fara aftur og alla jafna er ekki eftir miklu að slægjast þar fyrir bókelska heldur er „meinhornið“ sem fundið var upp á fyrir tæpum 40 árum orðið allsráðandi og hefur útrýmt öllu öðru af ákefð lúpínunnar. Í staðinn las ég lengi erlend bókmenntablöð á morgnana en síðar bætti ég við skáldsögum og fann (sem ekki þurfti kannski að koma á óvart) að ég átti léttara með ögrandi skáldverk á flestum öðrum tímum dagsins en skömmu fyrir svefninn.

Flesta daga les ég þrjár bækur. Ein er oft skáldverk sem ég hef aldrei kynnst áður eins og bókin í miðjunni á myndinni sem ég mun ef til vill tjá mig um síðar. Vinur minn benti mér á Mathias Énard og ég var fljótur að panta bækur hans á Amazon. Eitt sinn dreymdi mig um að lesa 50 slíkar bækur á ári en síðan rann upp fyrir mér að slík talning og kappsemi er aðeins til óþurftar, smám saman fer maður að velja of léttar bækur eða lesa þær of hratt einungis til að ná tölunni.

Önnur er iðulega fræðibók eins og sú til vinstri sem barst mér í vikunni. Þetta er nýtt greinasafn um áhrif íslenskra miðaldabókmennta og nýjar túlkunarleiðir á þeim. Ég fór til Manitoba fyrir sex árum að ræða um þetta efni og það var eftirminnileg ferð, m.a. vegna þess að ég hitti þar í hinsta sinn 97 ára gamla frænku mína sem fædd var og alin upp í Vesturheimi, en líka millilendingin í Toronto og stutt stopp í Saskatoon á heimleiðinni. Erindið mitt og greinin í ritinu fjallar um hvernig hægt er að lesa hina lítt skiljanlegu Fóstbræðra sögu á glænýjan hátt með aðstoð tvífarahugmyndar 19. aldar. Glannaleg hugmynd en mér finnst hún sannfærandi í hvert sinn sem ég les greinina.

Á kvöldin er ég orðinn svo slappur að lesa að þá endurles ég eftirlætishöfunda mína á borð við Agöthu Christie sem sjá má til hægri. Ég á flestar bækur hennar og hef lesið mörgum sinnum. Þegar Quizup var og hét vann ég hvert einasta einvígi um ævi og rit Agöthu Christie, alls um 100. Fólk heldur að það þekki verk hennar en … Mig hefur stundum dreymt um að koma ýmsum hugmyndum mínum um verk Agöthu á prent en það eru alltaf önnur meira aðkallandi verkefni. Góðar afþreyingarbækur má lesa oft og síðkvöldið er kjörið til þess. Einstöku sinnum finn ég reyndar nýja bók sem hentar líka til þess en staðreyndin er þó að flest roskið fólk sem les aðeins á kvöldin les að lokum mest lítið.

Previous
Previous

Hestar í bókmenntum

Next
Next

Konfekt