Konfekt

Eitt algengasta líkingamálið um góðar bókmenntir er konfektið. Ég hef grennslast fyrir og líkingin virðist hafa breiðst heldur meira út á Íslandi en í nágrannatungumálum. Mér líkar hún þó ekki en hef samt ekki skilið til fulls hvers vegna. Þannig að mig langar til að rýna aðeins betur í hana eins og rýmið leyfir.

  1. Fjölbreytni: Konfekt er sem kunnugt er safn sælgætis af ýmsu tagi og með hinum og þessum bragðtegundum. Góðar bókmenntir eru þá sundurleitar en ég er þó ekki handviss um að ég sé sammála því. Þó finnst mér þetta jákvæðasta hliðin á líkingunni.

  2. Óhóf: Góð bók er eins og heill konfektkassi. En eru bókmenntir hófleysa? Ef allt er best í hófi, er þá best að halda sig frá fagurbókmenntum, lesa aðeins um jólin, eina bók á ári?

  3. Munaður: Ekki mæli ég gegn munaði og hef stundum notið hans en mér finnst erfitt að sætta mig við að bókmenntir séu skilgreindar sem munaðarvara. Í mínum huga eru þær jafn lífsnauðsynlegar og spítalar og skólar, hvorki meira né minna. Kannski er konfekthugmyndin einmitt mesta ógnin við bókmenntirnar.

4. Óhollusta: Sykur er ekki beinlínis hollur. Maðurinn getur ekki aðeins lifað án konfekts, líklega er líf án konfekts nokkuð gott líf og ekkert endilega verra hlutskipti en konfektát. Eru bókmenntir þá óhollar? Kannski eru þær það í einhverjum skilningi — en á sama hátt og konfekt?

5. Eftirvænting og stundarnautn: Konfekt vekur eftirvæntingu og tímabundna nautn. Eftir of mikið konfektát tekur við ógleði og velgja. Ef til vill er þetta góð lýsing á einhverjum bókmenntum — en sennilega ekki þeim mikilvægustu.

Ég geri ráð fyrir að einhverjum þyki slík grandskoðun konfektlíkingarinnar nálgast hártogun. Það þyrfti ekki að koma á óvart, fjölmörgum finnst öll bókmenntatúlkun og jafnvel margt vísindastarf í hugvísindum vera hártogun. Það er einn helsti bölvaldur hugvísinda í nútímasamfélagi að vera talin óþarfi og til skrauts. Fáum datt í hug að flokka hugvísindi undir „nauðsynleg störf“ í faraldrinum. Ég mætti þó til vinnu meðan hann stóð sem hæst og flokkaði þannig sjálfan mig sem bráðnauðsynlegan starfsmann, óháð mati annarra.

Já, jafnvel mínum hógværu bókum hefur stundum verið líkt við konfekt. Ég er allt of kurteis til að svara eins og mig langar þá helst til: Takk en nei, takk!

Previous
Previous

Bækur dagsins

Next
Next

Maður og dýr