Maður og dýr
Ég er löngu hættur að fara í bíó. Í vor brá ég mér þó á The Northman í Kringlubíói og í gærkvöld á frumsýningu á Svari við bréfi Helgu, kvikmynd Ásu Helgu Haraldsdóttur eftir sögu Bergsveins Birgissonar. Bergsveinn hefur sérstakan stíl sem ekki blasir við að þýðist vel í kvikmynd og hið sama gildir um form sögunnar sem er ekki endilega kvikmyndavænt. En þjóðin tók ástfóstri við söguna og því hefur hún bæði ratað á svið og nú á tjaldið.
Tvennt vakti sérstaka athygli mína strax í upphafi. Annars vegar hvernig myndavélinni er beitt til að skapa sterka tilfinningu fyrir innilokunarkennd og breytir þá engu þó að við séum stödd í firði með fjöll í fjarska. Hins vegar hversu vel unnið er með það viðfangsefni skáldsögunnar sem er maðurinn og dýrið og kemur skýrt fram þegar ástarsambandið er að fæðast þegar elskendurnir fylgjast með hrút að koma fram vilja sínum með nokkrum látum.
Pestin ýtti undir eðlislæga fælni mína við mannfjölda og mér varð um og ó þegar stóri salurinn í Háskólabíó troðfylltist. Glaðbeitt kona náði sér í tvö laus sæti við hlið mér með því að slöngva troðfullum og níðþungum bakpoka á gólfið. Síðan fór hún að sækja sessunaut sinn og alllengi sat ég við hlið yfirgefins pokans og velti fyrir mér hvort í honum væri kannski sprengja; það hefðu verið vond tíðindi, flestallir hinir 1000 hefðu átt betri líkur á að lifa af en ég. Sem betur fer sneri konan aftur og pokinn reyndist blásaklaus og fullur af einhverju öðru en sprengiefni.
Óbein tilvísun í meistaraverkið Barry Lyndon kom mér í gott skap, Schubert-lagið hans gekk aftur í breyttri mynd. Í kjölfarið fór ég að velta fyrir mér sambandi beggja mynda við fortíðina. Á sínum tíma heillaði Kubrick kvikmyndaheiminn með því að nota aðeins náttúrulega lýsingu og færa áhorfandann með afgerandi hætti á 18. öldina. Svar við bréfi Helgu er sviðsett í þröngum sveitaheimi sem er auðþekktur sem miðbik 20. aldar en þó sérstakur og sjálfstæður, slátturinn í öndvegi ásamt íðilfögrum húsum og grafalvarlegum leshring sem er örlítið spaugilegur en samt ekki hlægilegur.
Það er ekki síst þessi söguheimur sem lifir með manni eftir kvöldið, ásamt sterkum tilfinningum aðalpersónanna (prýðisvel túlkaðar af þremur helstu enskmenntuðu leikurum Íslands) sem mestu flugi ná þegar ekkert er sagt.