Sögur eru alstaðar

Þó að það væri notalegt að geta rakið hér lestur minn á Karamazov-bræðrunum síðustu helgi er víst best að hafa það jafnan er sannara reynist. Í staðinn horfði ég á sex þátta syrpu um Watergatemálið í norska sjónvarpinu. Hún var haganlega gerð og í raun eins konar myndasaga. Öfugt við fyrri sögur ekki hetjusaga um hugrakka blaðamenn heldur fremur um stjórnkerfi, dómskerfi og lýðræði sem þrátt fyrir allt virkuðu og tilraunir til að hunsa þetta allt í krafti stuðnings „þögla meirihlutans“.

Íslendingasögurnar eru fullar af áhugaverðum aukapersónum og eins er með þessa Watergatesögu. Ein sú mikilvægasta er maður sem heitir Alexander Butterfield og tengdist málinu næstum ekkert, var ekki dæmdur fyrir neitt og lifir enn (ég fletti honum upp eins og alltaf þegar ég horfi á heimildarmyndir í sjónvarpinu). Einu áhrifin hans á söguna er að hafa í vitnaleiðslum fyrir þinginu ljóstrað því upp að Nixon tæki upp öll samtöl á skrifstofu sinni og þannig varð hann það sem mig minnir að Åsfrid Svensen hafi kallað „katalysator“ í Textens mønstre forðum daga. Tilvist þeirra gagna hleypti nýjum fítonskrafti í mál sem hefði ef til vill lognast út af annars. Síðan hverfur Butterfield úr sögunni, eins og þvottakonan í Hrafnkels sögu.

Stigmögnun frásagnar er þekkt einkenni áhrifamikilla sagna og þá þarf lykilviðburði, eins konar fyrra ris á undan risinu sjálfu. Í Watergatesögunni er það „laugardagskvöldsfjöldamorðin“ svokölluðu — ekki kom fram hvaða orðsnillingur fann upp á þessum titli á sínum tíma— þegar Nixon bað dómsmálaráðherrann að reka saksóknarann sem hann hafði sjálfur skipað en ráðherrann sagði af sér. Þetta hefði aldrei orðið sami stórviðburður nema vegna þess að þá var komið að aðstoðardómsmálaráðherranum sem sést á myndinni fyrir ofan, William Ruckelshaus, — 18. aldar skáldsagnahöfundur hefði ekki getað valið betri nöfn — og sá sagði líka af sér. Þessi seinni afsögn er auðvitað forsenda þess að hægt sé að tala um „fjöldamorð“ og gerði viðburðinn virkilega sögulegan. Tvítekningin er áhrifamikil. Það var svo undirmaður Ruckelshaus sem rak að lokum saksóknarann og dró það dilk á eftir sér fyrir hann. Alveg eins og í Njálu hefur hver kinnhestur afleiðingar.

Risið í sex þátta sögunni var svo þegar samflokksmenn Nixons missa smám saman trú á honum og heltast úr lestinni einn af öðrum eftir því sem mikilvægu mínúturnar 18 hurfu úr upptökunum áður en þær voru afhentar og fleiri rjúkandi byssuhlaup uppgötvuðust þegar málinu vindur fram. Eins þegar hæstiréttur skipar Nixon að afhenda upptökurnar og málaferlin bera hið bullandi íróníska heiti „Bandaríkin gegn Nixon“. Eftir þessa dramatísku viðburði er afsögn Nixons (sem notaði tækifærið og hélt furðugóða og sannfærandi ræðu) nánast eins og eftirmáli en af því að formið er sagnfræði lýkur sögunni á þeim persónum sem enn lifa (allar háaldraðar) sem draga hver sína ályktun af öllu saman. Af nógu er að taka og þar af leiðandi eru viðtölin full af gullkornum. Svo er það söguleg tilviljun (eða snilld norska sjónvarpsins) að ég sá þættina mitt í heitri umræðu um annan gagnaþjófnað annars forseta.

Previous
Previous

Maður og dýr

Next
Next

Söguþráður og lélegar bókmenntir