Söguþráður og lélegar bókmenntir
Einu sinni sagði ég við vin minn á kaffihúsi að söguþráður væri einkenni lélegra bókmennta. Þótti okkur þetta báðum svo fyndið að ég setti þetta á samfélagsmiðla skömmu síðar og sennilega móðgaði ég með því fremsta glæpasagnahöfund Íslands á þeim tíma en ber þó vonandi ekki ábyrgð á því að hann hefur ekki sent frá sér bók síðan og er það mikill skaði fyrir okkur sem elskum vel gerðar spennusögur.
Á þessum tíma var ég nýbúinn að lesa skáldsöguna Stoner eftir John Williams sem kom út árið 1965 við litlar undirtektir en vakti svo athygli intelligensíunnar þegar hún kom út á ný á 21. öldinni. Í bókinni er þráðurinn óhefðbundinn og spennan felst alls ekki í æsandi atburðum en samt dregst lesandinn áfram bergnuminn. Eins ég hef setið límdur seinustu ár við að lesa hinar endurútgefnu bækur um Önnu frá Grænuhlíð. Þar gerist þó stundum lítið sem ekkert í hverri bók annað en Anna flytur á nýjan stað og kynnist nýju fólki. Svolítið eins og raunveruleikinn. Kannski er hann spennandi.
Þegar börnin í fjölskyldunni sýna mér Marvel-myndir og álíka liggur stundum við að ég sofni undir endalausum bardagasenunum — samúð mín með Martin Scorsese er allnokkur. Eins man ég nánast ekkert sem gerist í seinustu James Bond mynd — eftir kynninguna sem ævinlega er listaverk. Ég er hreinlega orðinn svo öfugsnúinn að mér finnst svokölluð spenna ekki spennandi. Það eina sem heldur athygli minni er fólk að tala saman og annað álíka hversdagslegt.
Sjálfur hef ég í stöku smásögu (t.d. í Bogart) reynt að láta lítið sem ekkert gerast nema í stílnum og milli fólks en enn hefur mér ekki tekist það í heilli bók. Í staðinn hef ég skrifað glæpasögur sem brjóta að vísu ýmsar reglur en fylgja þó meginkröfum hefðarinnar. Lít ég á þær sem síðbúna afsökunarbeiðni til höfundarins sem ég kannski móðgaði með gáleysislegu hjali um söguþráðarleysi.
Stundum hef ég spurt nemendur sem tala um að bækur séu spennandi eða óspennandi spurningarinnar „Hvað er spennandi?“. Minn smekkur er ólíkur smekk margra og þó að Spielberg og Lucas hafi sannað að smekkur 12 ára stráka er góð vísbending um almennar vinsældir er ekki þar með sagt að spennu í sögu sé hægt að skilgreina á algildan hátt.