Kápulist
Í síðustu viku sat ég kápufund, einn af mörgum á ævinni. Þetta fylgir starfi útgefandans en ég hef nokkrum sinnum verið útgefandi, líka yfirlesari og ráðgjafi, enn oftar þó ritstjóri og höfundur. Þegar ég var átta ára var ég ekki í neinum vafa um að í framtíðinni vildi ég vera myndlistarmaður eða teiknari eins og ég kallaði það þá. Hér er dæmi um eitt af listaverkum mínum frá þeim tíma. Ekki spyrja mig hvers vegna textinn er á því fagra tungumáli dönsku.
Síðan samdi ég leikrit og á táningsárunum fann ég út að það yrðu epískar skáldsögur sem ég ætti að einbeita mér að. Metnaðurinn var heldur meiri en hæfileikarnir. Líklega setti ég saman eina risavaxna skáldsögu á hverju ári uns áfall í einkalífinu dró úr mér allan mátt og ég lagði skáldsagnadrauma nokkurn veginn á hilluna fram til ársins 2007. Þær voru auðvitað hver annarri verri. Ein gerðist á 15. öld og fjallaði um valdabaráttu tveggja byskupa en það orð skrifaði ég jafnan með y-i af hreinni tilgerð. Einnig þótti mér gott að troða inn í verkin skringiyrðum frá Halldóri Laxness og úr orðabókum.
Öll þessi verk dóu drottni sínum áður en þau voru tilbúin og fæst voru lesin af öðrum en mínum nánustu. Á þeim árum hugsaði ég því lítið um bókagerð. Í bernsku hafði ég rifið kápur af mörgum bókum sem voru heima í einhverju æði, m.a. bókunum Öldin okkar. Ég skil ekki enn hvers vegna. Kannski var ég undir áhrifum frá 19. öld þar sem kápur voru skrautlegar en einfaldar og nær aldrei með mynd af fólki eða stöðum.
Þegar loksins kom að því að ég gæfi út bók sjálfur árið 1997 (fræðibók en ekki skáldverk), þá hafði ég mikinn áhuga á kápunni og kom með ýmsar uppástungur, valdi m.a. mynd framan á kápu af Ottó 3. sem var keisari Þýskalands um 1000. Mér fannst kápan mjög flott þegar hún kom og finnst enn þó að óneitanlega beri hún vitni tískunni undir lok 20. aldar.