Metsölubækur og menningarnám
Maður nælir sér í nýþýdda bók eftir metsöluhöfund og uppgötvar að hún fjallar líka um metsöluhöfund. Hvað gæti verið dæmigerðara fyrir nútímann? Liðinn er sá tími að rithöfundar töldu sig samfélagslækna sem gátu léttilega skrifað margra binda sögur um lauslátar en hjartagóðar konur þar sem eitt matarboð gat stundum staðið í marga kafla. En matarboð nútímans eru sennilega á samfélagsmiðlum og rithöfundarnir geta ekki einu sinni læknað sjálfa sig, hvað þá samfélagið. Ný skáldsaga Rebeccu Kuang, Gervigul, fjallar um þessa nýju tíma og er auk heldur þessi tími í sjálfri sér, eins og við lifum í risavaxinni satíru þar sem höfundar skrifa bækur um höfunda og ná metsölu vegna þess að bækurnar fjalla um metsölu. Er fólki ekki kennt að skrifa um það sem það þekkir og sumir þekkja ekkert nema löngunina til að vera höfundur? Bókin Gervigul (Yellowface á frummálinu sem öfugt við íslenska hugtakið á sér forsögu og ýmsa merkingarauka) hefst á þessu og snýst áfram um þetta. Einn höfundur öfundar annan og tekur svo yfir sögu hans; fær þessi blekkingarleikur gengið upp?
Kuang má eiga það að hún er nösk og bráðfyndin á köflum, eins og sjá má af dæminu hér að neðan um hvernig rökleg heljarstökk amerískættaðrar samfélagsmiðlaumræðu virka. Þetta er satíra sem 18. aldar menn hefðu getað verið stoltir af. Sagan snýst að verulegu leyti um samfélagsmiðlaheiminn og hegðun fólks á Twitter í sögunni er nákvæmlega eins og ég sá iðulega á sama miðli þegar ég var þar. Þar ríkja mikil bandarísk átök um kynþáttabakgrunn allra sem þarlendir láta eins og komi í staðinn fyrir átök heimsálfanna (því að netróttæklingar sjá aldrei neitt athugavert við ráðandi stöðu Bandaríkjanna eða enskunnar). Þetta er ekki saga tveggja borga heldur saga tveggja metsöluhöfunda. Aðalpersónan Juniper Song (áður June Hayward) verður fræg fyrir sögu sem hún tók úr ritvél sérviturrar kunningjakonu og skólasystur sinnar, Athenu Liu, eftir að sú síðarnefnda kafnar slysalega á pönnuköku. En Juniper losnar ekki við Athenu sem heldur áfram að voka yfir henni eins og illur tvífaradraugur í besta stíl 19. aldar manna. Bókin sem hún endurskrifar fjallar um óréttlæti gagnvart Kínverjum, slær í gegn og forlagið reynir að gefa í skyn að Juniper sé af asískum ættum m.a. með því að láta hana nota millinafn sitt Song (sem var hippanafn sem vísaði til söngs en gæti hljómað asískt) af því að það lítur betur út. Þetta tryllir Twittersamfélagið en June heldur áfram að sækja innblástur til Athenu sem kemur henni í æ meiri bobba. Eftir að ég las hana heyrði ég þá gagnrýni á netinu að Rebecca Kuang væri sjálf ekkert ólík Athenu Liu og væri ef til vill að gera lítið úr réttmætri gagnrýni á fyrri bækur sínar með sálgreiningu sinni á hinni afbrýðissömu June. Ástæða er því til að lesa bókina aftur og velta fyrir sér hvort eitthvað sé til í því sem June segir um Athenu, burtséð frá hugsanlegri afbrýðissemi hennar.
Twitter gat líka stundum verið fyndið á saklausari hátt (án allrar beiskjunnar) eins og sjá má að neðan þar sem einhver gárungurinn notar tækifærið til að flissa að kjól Juniper í miðri ritstuldarumræðu þar sem hún er orðin álíka hötuð og Rowling, Gaiman og fleiri fallnar fyrrum twitterstjörnur. Það merkilega er að nethatrið gerir höfundinn aðeins vinsælli og salan eykst og eykst eftir því sem samfélagsmiðlaóhróðurinn um Juniper verður meiri. Sjálf er höfundurinn einmitt mjög upptekin af vinsældum og sölutölum og sagan er ágætt sýnidæmi um hversu árangurshugsunin hefur heltekið bókmenntalífið. Um leið vita allir að þessi árangur er hverfull, stjörnur sem fá margra talna fyrirframgreiðslu koma og fara og peningarnir koma ekki í stað bókmenntalegra gæða. Málþing, bókaklúbbar, ritlistarnámskeið og aðrir fylgihlutir bókmenntalífsins koma einnig mjög við sögu þó að aðalsamskiptin fari fram gegnum Instagram og Twitter. Að lokum er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu (þó að Juniper sjálf geri það ekki) en að hvorki metsalan né hið meinta menningarnám skipti kannski miklu máli í raun.
Eignarhald höfunda á textum er leiðarminni í sögunni eins og fleiri sögum á póstmódernískum tímum; vofa höfundarins er sterkari en hann var sjálfur fyrir sinn barthesíska fræðidauða. Juniper tók sögu Athenu traustataki og vann með hana eins og gervigreind en hvor er eiginlega höfundurinn þegar allt kemur til alls? Og getur óvissan um sambandið styrkt Juniper sem höfund og gert hana enn vinsælli? Við lifum ekki lengur á tímum sjálfsskapaðra snillinga, þvert á móti eru vinsælar bækur fyrirframvaldar og auglýstar í botn þannig að þegar bókin kemur út er velgengni hennar þegar ráðin; sjálf útgáfan verður hálfpartinn antíklímax. Á endanum fjallar satíra Kuangs um menningarkerfi nútímans og gerir það býsna vel og haganlega þó að mér finnist efnið stundum of sorglegt til að geta hlegið og ég velti fyrir mér þeirri sérkennilegu staðreynd að metsöluhöfundur sé auglýstur í topp fyrir satíru um fyrirframauglýsta metsöluhöfunda.