Godard og hrollvekjuvestrinn
Þegar ég rakst á kvikmyndina Man of the West (1958), leikstýrt af Anthony Mann (1906–1967) með Gary Cooper (1901–1961) í aðalhlutverki, í danska sjónvarpinu fyrr í ár hafði ég satt að segja aldrei heyrt hennar getið fyrr, en þegar ég las mér til frétti ég að henni hefði verið illa tekið í fyrstu og hún fordæmd fyrir að vera ósiðleg en Bandaríkjamenn voru auðvitað mjög uppteknir af siðferði 1930–1960 og síðan á ný í seinni tíð. En ég las líka að einn gagnrýnandi hefði tekið myndinni öðruvísi og það var sjálfur Jean-Luc Godard (1930–2022) sem taldi Mann vestursins bestu kvikmynd ársins 1958 og að í henni væri hinn hefðbundni vestri afbyggður í nánast hverjum ramma. Í kjölfarið frétti ég að kanadíski kvikmyndarýnirinn Robin Wood (1931–2009) teldi að vestrar Anthony Mann væru fyrirmyndir hryllingsmynda 8. áratugarins þar sem dreifbýlið var allrækilega skrímslavætt og ég var þá orðinn allforvitinn enda vinur sjálfrar Carol Clover. Aðrir kvikmyndagagnrýnendur hafa lýst myndina meistaraverk Anthony Mann en hann var ekki talinn meðal fremstu kvikmyndaleikstjóra meðan hann lifði. Fyrst í stað sérhæfði hann sig í svonefndum myrkurmyndum (film noir) en helgaði sig vestrum á 6. áratugnum. Kirk Douglas fékk Mann til að leikstýra Spartacus árið 1960 en rak hann síðan fyrir að vera of handgenginn Peter Ustinov sem að lokum varð sá eini sem fékk óskarsverðlaun fyrir leik í kvikmyndinni. Í stað Manns kom Stanley Kubrick eins og frægt er orðið þó að hinn þrautseigi Douglas ætti auðvitað myndina.
Hinir fjölmörgu aðdáendur Anthony Mann meðal kvikmyndarýna hafa bent á það hversu landslagið leikur mikið hlutverk í kvikmyndum hans og það sá ég um leið og ég fór að horfa, einnig að fléttan er nokkurn veginn eins og í ýmsum helstu keðjusagarmorðingjamyndum síðari áratuga. Hávaxinn alvarlegur maður sem segir ekki rétt til nafns lendir í lestarráni ásamt fólki sem hann hefur hitt í lestinni, glaðbeittum svikahrappi og harðgerðri söngkonu. Lestarránið misheppnast en þrenningin verður eftir og álpast í hús í grenndinni þar sem ræningjarnir halda til. Eitt af þeim, hávaxni maðurinn (Gary Cooper sjálfur), reynist þekkja þessar slóðir og þessa dólga og nú eru þau í vanda stödd. Ræningjarnir ógna þeim og heimta að konan afklæðist, það er löng og hræðileg sena en er að lokum stöðvuð í miðju kafi (öldin önnur en nú). Einn ræningi liggur særður og sá harðasti í hópnum fer inn til hans og skýtur félaga sinn til bana til að staðfesta eigin hörku. Við hópinn bætast tveir menn sem reynast skyldmenni Gary Cooper, leiðtoginn reyndar frændinn sem hafði alið hann upp og vill nú endurheimta þennan horfna arftaka sinn.
Þó að Gary komi í veg fyrir nauðgun söngkonunnar slást þau í hópinn með ræningjunum sem hyggja á nýtt rán. Gary stútar harða naglanum sem áður hefur drepið svikahrappinn en fyrst hefnir hann fyrir auðmýkingu konunnar með því að afklæða manninn beinlínis í langdregnu og afar hrottafengnu atriði sem ég geri ráð fyrir að Godard hafi líkað og fundist ekta en siðgæðisvörðunum hafi mislíkað að sama skapi. Að lokum liggur leiðin til draugabæjar eins sem frændinn gamli vill ræna en sá reynist að mestu yfirgefinn og Gary kemur að lokum öllum ræningjunum fyrir kattarnef og bjargar konunni sem frændanum hefur raunar tekist að misþyrma í fjarveru hans. En fyrst eiga þeir gamli frændinn langar og miklar samræður um þróun útlagamenningarinnar í Vesturheimi og ég get tekið undir með Godard að þar er gamli vestrinn einmitt rækilega afbyggður.
Gary Cooper er auðvitað ekki beinlínis trúverðugur sem ungi frændi eins né neins enda hátt á sextugsaldri þegar myndin var gerð og auk heldur dauðveikur af krabbameini. Samt hefur hann ágenga nærveru og er furðu sannfærandi í hlutverkinu, sársaukinn skín af honum og er viðeigandi í ljósi þess að sagan felur í sér uppgjör hans við eigin fortíð. Gamli frændinn er leikinn af Lee J. Cobb (1911–1976) sem var tíu árum yngri en Cooper; hann er í gamalsmannsgervi og leikur frændann ansi stórkarlalega; það verður þó lykill að því að hægt er að hafa samúð með manngarminum illa en úrelta. Lee J. Cobb er auðvitað eins helsti leikari síns tíma eins og allir vita sem hafa séð Tólf reiða menn (1957), kvikmynd sem jafnvel unga ofurhetjamyndakynslóð 21. aldar skilur að er snilldarverk. Cobb var þar í hlutverki hins hrædda og sára kviðdómara númer 3. Hann fékk líka tvær óskarstilnefningar og tvær gullhnattartilnefningar um þetta leyti en varð samt aldrei stjarna. Núna er hann almennt viðurkenndur sem stórleikari.
Áðurnefndur Robin Wood líkti Manni vestursins við Lé konung og það er ekki erfitt að sjá það heldur. Persóna Cobbs er þá hinn gamli og firrti konungur sem hefur misst sitt hlutverk og tilgang og það eru þau örlög hans sem eru kjarni sögunnar en ekki gjörðir hins drumbslega Coopers. Hvað sem því líður reyndist Man of the West haganlega gerð og áleitin mynd sem unga kynslóðin ætti ekki að leiða hjá sér. Danska sjónvarpið reyndist enn og aftur með fingurinn á púlsinum, þó að það sé gott að eiga streymisveitu nær hún aldrei að koma manni á óvart á sama hátt.