Kólombískar kynjar
Eins og aðrir bókabéusar af minni kynslóð las ég Hundrað ára einsemd um tvítugt; orðstír furðuraunsæisins reis hvað hæst undir lok 9. áratugar aldarinnar sem leið og engir höfundar þóttu fremri en Gabriel Garcia Marquez og lærisveinka hans Isabel Allende. Síðan varð hið hefðbundna stjörnuhrap beggja og allir urðu þreyttir á furðuraunsæinu. Ég er ekki viss um að ég hefði nennt að horfa á Hundrað ára einsemd á Netflix nema vegna þess að vinur minn með góða dómgreind mælti með þáttunum og það tók mig tíma að komast inn í þessa nýju kólombísku syrpu. Hún hefur þó margt sér til ágætis, t.d. að vera tekin í Kólombíu sem sumum finnst vera fegursta land í heimi og þar að auki með kólombískum leikurum. Mér fannst líka takast vel að koma furðuraunsæinu til skila en þó á sjónvarpsgerð aldrei sömu möguleika á því og sjálf skáldsagan því að það er ekki síst í frásagnartóninum sem furðuraunsæið býr. Það er ekki nóg að það séu galdrar, draugar, forspár, fyrirboðar og örlagahyggja í sögunni og jafnvel sjálfur tíminn hegði sér á óvæntan hátt. Megineinkenni furðuraunsæisins er að sagt sé frá öllu þessu án minnstu undrunar, eins og Marquez gerir jafnan og er þetta stílbragð vel þekkt úr íslenskum miðaldabókmenntum.
Líkt og þær hefst Hundrað ára einsemd á landnámi, José Arcadio og Ursula Buendia leiða hóp úr eigin þorpi á mikilli göngu yfir fjöllin og stofna þar fríríkið Macondo við á eina. Síðan eru þau óformlegir leiðtogar þorpsins og afkomendur þeirra næstu öldina. Macondo er einangrað og að einhverju leyti sjálfstætt en þegar Kólombía sjálf verður sjálfstætt lýðveldi með tilheyrandi stjórnsýslu dregst þorpið að lokum inn í langvinnar stjórnmálaerjur í landinu milli íhaldssamra og frjálslyndra. Um leið er framrás tækninnar stórt þema í bókinni, fyrst raunar með förufólki og íblönduð hindurvitnum á borð við alkemíu. Macondo er fallegur og litríkur bær og talsvert burðugri í þáttaröðinni en ég ímyndaði mér þegar ég las bókina fyrir löngu en ég hafði vitaskuld enga reynslu af Kólombíu þá. Eins nær þátturinn að skapa sterka kennd fyrir mannfjöldanum í þorpinu þegar það er á hátindi sínum en líkt og ýmis þorp á 19. og 20. öld er Macondo ekki varanlegt og ég mundi enn vel eftir spegla- og tíbrármyndmáli í bókinni forðum.
Á Netflix er hægt að sjá átta þætti sem er nokkurn veginn fyrsti hluti (eða kannski þriðjungur?) sögunnar og það er óhætt að kalla þetta aðlögun sem einkennist af virðingu fyrir frumtextanum þó að ýmsu sé hnikað til í þágu formsins eins og óhjákvæmilegt er. Hún er litrík, blóðheit og tilfinningarík. Ekki er reynt að breiða yfir sumt sem Marquez hefur síðar verið harkalega gagnrýndur fyrir, t.d. sifjaspell og ítrekuð ástarsambönd fullorðinna og unglinga. Eins er talsvert um alls konar ofbeldi af ýmsu tagi í þáttunum og erfiðara fyrir mig núna að halda fjarlægð gagnvart því en þegar ég las bókina forðum. Aldrei fannst mér persónur Marquez beinlínis geðþekkar og finnst það ekki heldur í þetta sinn. Kaldhæðni Marquez er stundum yfirþyrmandi og fjarlægðarskapandi en hinu er ekki hægt að andæfa að þættirnir eru myndræn veisla, færslan frá bók til myndar einkennist af virðingu svo að varla verður betur gert þó að ég sakni sögumannsgaldursins.
Gagnrýnin sýn Marquez á samfélagið er að sumu leyti sígild þó að lýsingar hans á samskiptum kynjanna séu það ekki. Hvorki Íhaldsflokkurinn né Frjálslyndiflokkurinn hafa svörin í úttekt Marquez og kannski hefðu hérlendar fréttastofur gott af því að tileinka sér svipaða gagnrýna afstöðu jafnvel þó að þeim hafi núna tekist að fá ríkisstjórn að eigin skapi til að slefa fyrir (ekki að ég byggist við meiru af þeim; Netflix er mun betri heimild um raunveruleikann). Það sem stendur upp úr þegar kemur að hinni nýju Hundrað ára einsemd er að hafa kynnst Kólombíu aðeins betur (ég átti einu sinni kólombíska nágranna sem ég sakna enn), þessu merkilega 52 milljón manna samfélagi rétt hjá miðbaugnum sem hefur sannarlega ekki farið varhluta af hæfileikum mannkynsins til að breiða út illsku og böl.