Andhetjuveisla
Ég hafði lengi verið hvattur til að horfa á þáttinn Vikingane á Netflix með þeim orðum að þetta væru einu víkingamyndirnar sem norrænufræðingar gætu horft á án þess að líða illa og lét loks til leiðast eftir að þeir höfðu verið á Netflixlistanum mínum síðan 2019, held ég. Ekki skil ég eigin tregðu en það er eitthvað við norskt sjónvarpsefni sem bæði hvetur og letur. Ég komst þó að því þegar ég lá á beit í Netflix eftir að hafa vanrækt stöðina mestallt seinasta ár að þetta væru aðeins um níu tímar samanlagt og gat því horft á þetta á svipuðum hraða og þegar ég les góða aðgengilega sögu. Heili bókmenntafræðingsins er sístarfandi þegar aðrir slappa af við sjónvarpið þannig að ég var stöðugt að velta fyrir mér hvernig lýsa mætti húmor þáttanna. Honum hefur verið líkt við Monty Python og Ricky Gervais, hvorttveggja af augljósum ástæðum. Samkennið með fyrri þáttunum er afslappað viðhorf til grafalvarlegra hluta eins og t.d. pyntinga, þrælahalds og ætternisstapans og eins tilhneigingin til að vera aldrei neitt sérstaklega hissa á neinu fráleitu sem gerist og ræða allt eins og fólk sé statt á sóknarnefndafundi — kannski kemur þetta best fram þegar fjötraður þræll sem á að fórna vegna brúðkaups segist vonast til þess að hjónabandið verði farsælt skömmu áður en hann er skorinn og blóðið og innyflin leka út um allt. Persónan Ormur minnir svo auðvitað á þann seinni, glataður millistjórnandi sem sér ekkert nema sjálfan sig, er með afsakanir og ótrúverðugar skýringar á reiðum höndum og er að vonum óvinsæll þó að hann sé samt svo mannlegur í sínu hugleysi og blekkingarleikir hans svo hræðilega misheppnaðir að maður hneigist til að halda með honum.
Persónur þáttanna eru bæði ýktar og sérkennilega sannar. Höfðingjasonurinn Ormur er hæfileikalaus hugleysingi, hin stöðusækna Liv er jafnvel enn siðlausari þegar kemur að ná markmiðum sínum (nær vissu hámarki þegar hún selur fjölskyldu sína til þrælasala til að geta einbeitt sér að nýjum manni sem gefur henni skargripi) og fremstir allra eru teiknimyndabófinn og víkingahöfðinginn Vargur sem upphaflega varð illur af því að vera með blettaskalla og er núna gersamlega galinn en þó stundum einkennilega óeffektívur (mun aldrei geta séð þann leikara aftur án þess að hugsa um Varg) og rómverski leikarinn Rufus sem er fulltrúi allra hrokafullra listamanna og lítur á heiminn allan sem gjörning eða innsetningu. Rufus er í stöðugri fýlu en þó aldrei beinlínis sleginn út af laginu eða örvæntingarfullur. Aukapersónurnar eru líka áhugaverðar, einkum vegna þess að líkt og persónur í kvikmyndum Tarantinos eða í hlaðvörpum nútímans eru þær stöðugt að rökræða um smátt og stórt og skiptast á tiltölulega nútímalegum skoðunum, jafnvel þrælarnir. Þær eiga samt líka til að fallast á fáránlega hluti (sbr. áðurnefnda fórnarathöfn) vegna þess að þannig sé samfélagið einfaldlega. Bakgrunnurinn er svo almennar goðsagnir um víkinga en þrátt fyrir alla geggjunina er samfélag þeirra bæði tilgerðarlausara og á köflum jafnvel raunsæislegra en í sumum alvarlegri „víkingamyndum“; eiginlega finnst mér þátturinn nær minni eigin sýn á miðaldamenninguna en flest af því sem bíómyndirnar hafa sýnt okkur í fúlustu alvöru seinustu áratugi, meðal annars vegna þess að kímnin snýst svo mikið um átök víkingahugarfars og nútímahugarfars.
Þó að stíllinn verði varla ólíkari minna mörg þemun í þáttunum á Íslendingasögur, s.s. víkingaferðir, misheppnuð hjónabönd og endalaus samkeppni um samfélagsstöðu og virðingu. Ein aukapersónan hefur sérstakan áhuga á tísku, önnur kann nokkuð vel við að vera þræll og í einum þættinum undrast persóna tækniframfarir sem séu svo langt komnar að „enginn skilji neitt í neinu“ sem er vitaskuld helsta einkenni framfara. Persónurnar eru gjarnar á að benda öðrum á að þeir hafi sagt þetta allt áður og eru óhræddar að vera ókurteisar innan hins norræna ramma. Ég held að það sé upphafleg útgáfa á norsku til en allt sem ég sá er á ensku með hæfilega norskum hreim sem stundum minnir á þann íslenska og mjög erfitt er að taka alvarlega. Dramatísk tónlist (og stöku söngur þar sem íslensku bregður fyrir) gerir ekkert nema styrkja grínið enn frekar; það er í misræminu sem hláturinn þrífst best.
Af hverju gengur þessi spaugsama þáttaröð sumpart betur upp en þegar menn reyna að búa til alvarlegar myndir um norræna fornkappa? Kannski vegna þess að persónurnar í fornsögunum eru fyrst og fremst raunverulegt fólk og það eru söguhetjur Vikingane líka; þátturinn er ekki að kikna undir því að vera dæmi um grafalvarlegan menningararf sem er kenndur í skólum heldur er engu líkara en höfundar hafi lesið sögurnar og notið þeirra. Fyrir vikið myndi ég sennilega frekar vísa nemendum mínum á þennan þátt en ýmsar alvarlegar tilraunir til að fanga norræna miðaldaandann.