Svargrá auðn Celans
Það dugar alls ekki að ræða Paul Celan aðeins eitt síðdegi og því hitti ég ljóðelska vini á netinu í annað sinn og hélt sjálfur fram ljóðinu „Radix, matrix“, aðallega vegna þess að ljóðið náði alls ekki til mín og því fer fjarri að ég skilji það hjálparlaust. Ég reyndist ekki einn um það en þó færir það mann alltaf nær skilningi að ræða um ljóð. Þýðingin sem við unnum með var eftir hinn nýliðna lúxembúrgíska Pierre Joris (1946–2025) sem lét orðið „Geschlecht“ óþýtt en annar þýðandi sem heitir svo fyndnu nafni sem Hamburger (virtur og margverðlaunaður þýðandi en sum okkar eru barnaleg) ákvað að það þýddi „lineage“ eins og sjá má að neðan. Hann reynir líka að leysa úr flækjunni sem „Ver- /schwisterte, Zu- /geschleuderte“ var mér en raunar sakna ég flækjunnar smá eftir á að hyggja. Celan er maðurinn sem talar við steina og einhvern eða einhverja „þig“ sem kemur víða fyrir í ljóðum hans (og líka „við“, álíka lítt útskýrt). Það blasar við af nöfnunum Abraham og Jesse að eitthvað vill hann tjá sig um eigin gyðinglegan uppruna en nákvæmlega hvað er engan veginn skýrt. Merkir titillinn að rætur okkar séu líka steingert kerfi sem skilyrðir okkur? Celan kippir orðunum iðulega úr hefðbundnu samhengi þannig að maður fer að tortryggja merkingu þeirra.
Ég minntist áður á hvernig Celan kýs að enda eitt sitt þekktasta ljóð á „Feuchtes, viel“ (sjá að neðan) sem þýðendur leysa úr á margvíslegan þátt. Ljóðinu um ræturnar lýkur álíka illskiljanlega á „wild-
blühenden Kronen“ sem koma „hinab“ því að Celan elskar margræðar eða óljósar áttatáknanir. Hann elskar líka gráa litinn, steina og mýrar. Hins vegar fellur honum illa við hefðbundna titla á ljóðum sem hjálpa lesendum kannski um of þó að stundum geti þeir nú bætt nýrri vídd við sjálft ljóðið. En ljóð hans um mýrina er á þessa leið: „HOCHMOOR, uhrglas- / förmig (einer hat Zeit), / soviel Ritter, / sonnentausüchtig, / aus dem / Lagg / stehen die Sabbatkerzen nach oben, / Schwingmoor, wenn du vertorfst, / entzeigere ich / den Gerechten.“ Hér er sjaldgæft dæmi um léttúð hjá Celan í innskotinu „einer hat Zeit“ sem vísar skemmtilega tvírætt til skaparans sem hefur tíma til að búa til náttúrufyrirbæri sem líkjast stundaglasi. Ljóðið er annars myrkt og órætt og óljóst hvað þeir réttsýnu koma mýrinni og kjötætublómum hennar við. Eitthvað liggur honum á hjarta en svo hnitaður er Celan stundum að manni finnst vísbendingar skorta, líkt og hjá eddukvæðaskáldunum forðum.
Gott dæmi um hve hnitaður Paul Celan gat verið er þetta ljóð: „DIE SPUR EINES BISSES im Nirgends. / Auch sie / musst du bekämpfen, / von hier aus.“ Hér er „þú“ ávarpaður sem þarf að berjast til að komast „héðan“ út en hvert er bitfar einskisins? Það er samt líka gáski í þessu stutta ljóði og mér er sagt að Celan hafi verið manna fyndnastur í einkabréfum til ísraelskrar vinkonu sinnar Ilönu Shmueli sem gefin voru út um 2011 þó að ljóð hans séu iðulega drungaleg og einlæg. En þetta tengist afstöðu hans til tungumálsins sem honum fannst að ætti að vera staðreyndabundið, sannsögulegt og einfalt (sjá að neðan). Hann óskaði sér „grárra“ ljóðmáls sem væri laus við falska gleði söngsins sem einkennt hefði fyrra ljóðmál.
Paul Celan var sannarlega maður síns tíma og eins síns menningararfs, skrifandi á tungu sem hvorki var hans að fullu né sú sem hann heyrði umhverfis sig í heimalandinu Frakklandi. Þýska hans er ekki heldur dæmigerð heldur aðeins á skjön, líkt og ljóðið þurfi að vera það til að geta sagt okkur eitthvað. Einnig það tengist fortíð Celans sem þýskumælandi gyðingur sem missti marga ættingja sína í hinum hroðalegu hamförum seinni heimsstyrjaldarinnar. Eðlilega var hann hugsi um hvað hann gæti gert við tungu sem hafði verið svo hrikalega misnotuð í aðdraganda hildarleiksins.