Norræna kímnin og tilfinningatryllingurinn

Norræna húmornum er best lýst með því að eitt sinn horfði ég á norræna gamanmynd á fögru sumarkvöldi í Texas með tveimur eldklárum Bandaríkjamönnum sem líkaði myndin vel en skildu samt ekki að þetta væri gamanmynd fyrr en í lokin þegar ég sagði þeim það. Mér kom þetta í hug þegar ég var að horfa á sænska Netflix-þáttinn Tore eða Þóri (sem var tískunafn um 1970; eitt sinn var ég í bekk með þremur sem hétu Þórir). Sá fjallar um 27 ára ungmenni sem missir föður sinn á sviplegan hátt. Þessi sænski Þórir er álíka illa haldinn af Péturs Pan heilkenninu og margir yngri vinir mínir, hreinn sveinn sem hefur ævinlega búið heima, besta vinkona hans er á fimmtugsaldri og hundur þeirra feðga hlýðir stráknum ekki einu sinni. Þótt ótrúlegt megi virðast er strákurinn í vinnu, raunar hjá pabba sínum, og virðist ekki einu sinni standa sig neitt illa í henni lengi vel og hann kann líka að leika við börn og tala við eldra fólk en þegar pabbinn deyr tryllist hann, verður óskiljanlega dónalegur við vinkonu sína líkt og gaurinn í Vábeiðunum frá Inisherin og virðist ekki geta haldið uppi eðlilegum samræðum við neinn, a.m.k. fyrst eftir áfallið. Jafnvel hundinn vill hann losa sig við án þess að skilja það alveg sjálfur.

Þátturinn er saminn af aðalleikaranum William Spetz frá Umeå sem er sonur innflytjanda frá Pakistan og var fyrst bloggari og feykivinsæl youtube-stjarna á unglingsárunum. Þar kynnti hann auðvitað húmor ungu kynslóðarinnar sem er stundum sérstæður og segja má að gangi aftur í þáttunum. Spetz notar sjálfan sig mikið í listinni og mann grunar að Tore sé eins konar hliðarsjálf hans þó að augljóslega sé Spetz eðlilegur miðað við Tore sem getur ekki einu sinni gefið hundinn sem þeir feðgar hafa nefnt MJ eftir poppkónginum án þess að hræða væntanlega kaupendur burt (það atriði er mjög gott dæmi um sérstöðu sænska húmorsins). Auk þess mætir hann í fyrsta sinn á barinn, drekkur sig ofurölvi og er næstum nauðgað í kjölfarið. Vegna undarlegrar hegðunar Tore einkennist syrpan af vandræðahúmor þar sem strákurinn reynir í fyrstu að forðast helstu vinkonu sína (þessa gömlu) sem er frekar furðuleg líka og maður áttar sig ekki alveg á hvernig hún varð vinkona hans og síðar er hann beinlínis vondur við hana. Hann reynir líka að kynnast ungum manni sem vinnur í blómabúð og þarf að glíma við nýjar upplýsingar sem koma úr kafinu um hinn látna föður sinn — og allt þetta er ívið fyndnara vegna þess hve ótrúlega næs og kurteisir Svíar eru alltaf, hvað sem gerist og vegna þess hve ódæmigerð söguhetja Tore er að öllu leyti.

Tore fer að hella sér í skemmtanalífið og jafnvel eiturlyf í veiklulegri sjálfseyðingartilraun. Hann er svo heppinn að ramba snemma á dragdrottninguna Shady Meat sem er jafn skynsöm og hann er laus við alla heilbrigða skynsemi og verður að lokum ráðgjafi hans því að Tore kann fótum sínum alls ekki forráð. Strax í þriðja þætti er hann orðinn krambúleraður eftir að hafa tekið sýru ásamt manninum sem reyndi að nauðga honum (sem síðar biðst innilega afsökunar einmitt þegar Tore er allt í einu orðinn æstur í að láta hann taka sig) en samt er stráksi sá eini sem öldruð kona í sjálfsmorðshugleiðingum þorir að hringja í þó að það sé kannski ekki snjallt hjá honum að mata hana á lsd í kjölfarið. Frásagnarhátturinn er svo steiktur að maður veltir stundum fyrir sér hvort saga Tore hafi eitthvert gildi fyrir okkur hin en aðferðin er auðvitað ekki ósvipuð því sem mín elskaða Svava Jakobsdóttir gerði í sumum smásögum sínum, þ.e. að snúa röngunni fram. Það sem er sannast við þessa þroskasögu er kaotískt innra líf þessa rígfullorðna drengs sem hugsanlega vegna hins ofurmilda skandínavíska uppeldis ræður ekki við neinar tilfinningar sínar, hvorki ástina til föðurins né verðandi kærastans né gömlu vinkonunnar né nýju vinanna af barnum. Enn síður kemur hann orðum að því sem hann langar til að segja og umhverfið skilur tilvistarangist hans ekki beinlínis vel.

Afrek William Spetz í þessum þætti er að láta mann halda með hinum vanþroskaða en brothætta Tore jafnvel um leið og hann klúðrar öllum sínum samskiptum á fjölbreyttan hátt og þótt hann taki ekki alltaf mikið tillit til annarra sem er kannski einkenni hinnar barnalegu kynslóðar sem er núna orðin fullorðin. Kannski er það vegna þess að hann vill samt vel og langar til að bæta fyrir heimskuna, þrátt fyrir allan aumingjaskapinn eða kannski vegna hans er hin nýja kynslóð talsvert minni hrottar en við vorum hér á landi á 8. og 9. áratungum og í lok þáttarins er Tore fyrirgefið á sérstakan hátt, hann getur aldrei þessu vant lokið því sem hann hefur tekið sér fyrir hendur og nær að snúa við einni af sínum mörgu röngu ákvörðunum í sálarkreppunni. Fyrir utan melódramatískt atriði þar sem Tore brýtur allt og bramlar í angist sinni eins og persónur í sjónvarpsþáttum gera iðulega finnst mér Spetz hafa tekist vel upp í sinni tilraunamennsku og ég mun sannarlega halda áfram að fylgjast með því sem hann gerir.

Next
Next

Svargrá auðn Celans