Bekkjarkerfið og fjórði veggurinn

Ég hef aldrei komið til eyjunnar Ischia í Napólíflóanum en þar var Netflix-þáttaröðin Di4ri tekin og eyjan er falleg. Sú þáttaröð er ætluð ungu kynslóðinni og er afar svöl eins og sést á notkun tölunnar 4 í stað a (þó að Prince heitinn hafi raunar vígt þetta fyrir fjórum áratugum þegar ég var á aldri krakkanna í þættinum). Ég vissi ekki að þetta væri krakkaþáttur þegar ég byrjaði en lét það þó ekki stöðva mig enda gamall Degrassi-aðdáandi. Dagbókaformið kemur m.a. fram í því að hin listræna blekking er sú að hver þáttur sé úr dagbók einnar aðalpersónu og viðkomandi „rýfur þá fjórða vegginn“ og ávarpar okkur áhorfendur (sem fulltrúa dagbókarinnar) beint — fjórði veggurinn mun fyrst nefndur af Diderot á 18. öld en ég held að það sé þýska skáldið Gerhart Hauptmann sem fyrst ræddi rof hans nálægt 1890, auðvitað höfðu listamenn löngu áður rofið hina listræna blekkingu um skil milli leiksviðs og áhorfenda en þó ekki með þetta hugtak að vopni. Að ég best veit notaði Bertolt Brecht það ekki um sína verfremdungseffekta. Þetta er skemmtileg brella sem hefur í öllum tilvikum þau áhrif að færa hinar ungu aðalpersónur nær okkur, líkt og Ferris Bueller á sínum tíma. Þau eru alls níu: fimm stúlkur og fjórir strákar en sú níunda bætist raunar ekki í hópinn fyrr en í seinni syrpunni (leikin af ungu söngkonunni Fiamma Parente sem hefur nýtt þáttinn vel til frægðar og frama). Í inngangsþáttum beggja er það vandræðagemsinn Pietro Maggi sem er dagbókarpersónan. Hann er óformlegur leiðtogi krakkanna, hávaxinn sætur strákur, Lastik- eða Alain Delon-týpa, kannski blíðari útgáfa af Tony í Skins, en ef til vill hálfgerður „fuckboi“ sem elskar lengi Liviu en hún á annan kærasta og hann bætir ekki úr skák með því að vera stöðugt gripinn við að segjast hafa kysst hana sem veðmál eða hafa beinlínis kysst aðrar stúlkur. Síðar verður Isabel honum hugleikin en hún er þá komin með annan kærasta; Pietro lætur það þó ekki stöðva sig.

Ég las ekki unglingabækur þegar ég var unglingur, þoldi ekki unglingamyndir og hafði takmarkaðan áhuga á flestri unglingamenningu, kynnti mér í raun aðeins það lágmark sem þurfti til að geta umgengist skólafélaga mína. Núna finnst mér hún miklu skemmtilegri en líka vegna þess að unglingamenning samtímans (a.m.k. á ítölskum eyjum) passar mun betur við fólk eins og mig en sú sem ríkti á Íslandi milli 1970 og 2000. Þannig einkennist líf krakkanna í 2-D af blíðu og jafnvel hrekkirnir eru góðviljaðir. Eiginlega má líta á þáttinn sem óð til hins besta í bekkjarkerfinu en því hef ég sjálfur kynnst þegar ég var í góðum bekk og eins með því að kenna vel heppnuðum menntaskólabekkjum sem góður andi ríkti í. Óþekkt þeirra hefði varla talist með á Íslandi á 9. áratugnum. Þau eru svo miklir vinir að þau gera uppreisn í lokin þegar til stendur að leysa bekkinn upp og hafa sigur þannig að þau fá að flytjast öll saman í nýjan skóla. Þau eru líka góð við hvert annað alla jafna og iðrast þegar út af bregður fyrir mistök. Fólk sem er á móti hvort öðru fyrst og talast helst ekki við nær saman að lokum og hjálpast að. Þó að Pietro kalli Liviu „Miss Perfect“ í upphafi er hann alltaf lítt leynilega hrifinn af henni og hið sama á við um félagana Daniele og Mirko sem lenda í vandræðum þegar Daniele kyssir Mirko en nokkrum þáttum síðar eru þeir orðnir bestu vinir á ný. Eins líkar Giulio (eða Pac) ekki við Monicu í fyrstu en þau verða síðan vinir eftir að hafa verið neydd til að læra saman og að lokum kærustupar. Arianna stelur frá Liviu en iðrast þess strax þó að hún þori aldrei að játa. Síðar verður Livia hennar helsta hjálparhella.

Félagsleg útskúfun í þáttunum tengist yfirleitt misheppnuðum ástarsamböndum sem valda tímabundnum erfiðleikum. Þá eru söguhetjurnar stundum afar dramatískar (umfram tilefni) í yfirlýsingum sínum sem er fyndið a.m.k. fyrir þá sem hafa lagt unglingsárin að baki. Það er þó viðurkennt að unglingaástir séu tímabundnar og skammlífar og fólk er fljótt að þróast í sundur. Íþróttastelpuna Isabel dreymir um fyrsta kossinn en þegar hún finnur rétta gaurinn reynist sá gjarn til að halda yfir henni langar ræður um allt sem hann er góður í (ég held að ég hafi hitt þennan mann!) og þetta samband verður því skammlíft. Í seinni syrpunni kynnist hún svo íþróttagaurnum Roby sem sýnir henni áhuga þrátt fyrir að þau séu hvort úr sínum skóla en vandinn er að Pietro verður afbrýðissamur vegna þess að Isa var vinkona hans og brátt kemur líka í ljós að Roby er alveg eins og sá fyrri og talar mest um körfuboltaafrek sín þegar þau hittast í skólanum. Seinni syrpan snýst einmitt um átök milli krakka frá mismunandi hlutum eyjunnar (Marina Piccola og Marina Grande) sem skyndilega eru sameinuð undir einu þaki. Daniele dreymir um að komast í álit hjá hipphoppdönsurum en þeim finnst hann vera sveitalúði og ætla ekki að taka hann í sátt fyrr en þá vantar sárlega aukadansara. Illgjarnar stelpur úr hinum skólanum leggja Adriönnu í einelti á samfélagsmiðlum en hún hafði verið ókrýnd fegurðardrottning í sínu fyrra umhverfi. Þá sýna söguhetjur styrk sinn og sameinast gegn eineltisseggjunum á fallegan hátt þó að síðan komi í ljós að á slíku ofbeldi er engin einföld lausn; vondu stelpurnar halda áfram að króa Adrönnu af þegar hún er ein og fjárkúga hana að lokum en Livia kemur að lokum til bjargar og síðan allur bekkurinn.

Vegna dagbókarformsins eru þættirnir fullir af kraumandi íróníu. Fólk segir eitt við félagana en annað við áhorfandann eða dagbókina. Þetta gerir að verkum að kastljósinu er beint að grímunni sem jafnvel unglingar eru að þjálfa sig í að bera innan um annað fólk og kunna ekki alveg á. Hreinskilni er greinilega afar eftirsóknarverð í þáttunum og oftast segja persónurnar hvor annarri satt að lokum (Íslendingar eru sannarlega ólíkt betri í að þegja yfir hlutum áratugum saman). Smám saman koma líka upp brestir í vinahópnum, fólk hleypur útundan sér og lendir í vandræðum. Slúður skiptir miklu máli; fólk sér iðulega eitthvað sem það átti ekki að sjá og verður samt að halda leyndu til að koma ekki illindum af stað. Í stuttu máli eru þetta dæmigerðar smásamfélagssögur en halda manni við efnið vegna þess að allar aðalpersónurnar eru þrátt fyrir alla sína bresti elskulegt fólk sem fyrst og fremst er fórnarlamb aðstæðna. Mig minnir að Halldór Laxness hafi eitt sinn skrifað í nótissubók sína að hann yrði að gera persónurnar geðugri. Þetta skilja höfundar Di4ri greinilega því að löngun okkar til að standa með þeim heldur áhorfendum við efnið í tæplega 30 þætti (mér sýnist þættirnir búnir sem er samt gott því að engu á að halda áfram endalaust).

Fyrir utan húsvörðinn í gamla skólanum skipta kennarar og fullorðnir almennt engu máli í þessum heimi, ekki frekar en í Smáfólkinu á sínum tíma, gera sannarlega ekkert gagn nema kannski í lokin, eru aðallega ljón á vegi ungmenna sem vilja lifa eigin lífi. Maður vorkennir kennurunum stundum (einkum veslings enskukennaranum) vegna þess að krakkarnir eru svo uppteknir af eigin vandræðum að þeir fylgjast aldrei með í skólanum, svo önnum kafnir eru þeir við að skiptast á miðum og ræða vandræði sín. Þetta er greinilega ekki á Íslandi því að fall vegna leti vofir yfir mörgum persónum um tíma og veldur þeim áhyggjum. Flestallt er samt mikilvægra en skólinn og námið og hetjurnar eru ekki kennarar og foreldrar heldur rapparar (s.s. söngvari upphafsstefsins í fyrri syrpu) og svokallaðir „geimerar“ (fullorðnir menn eins og PewDiePie sem leika tölvuleiki á netinu; ég hef ekki gengið svo langt að fylgjast með þeim menningarkima); einn slíkur fullorðinn æskumaður birtist í þáttunum og virðist ganga undir nafninu Pow3r.

Þetta er sem sagt efni þar sem góðmennskan er í öndvegi (samt án yfirlætis, líkt og Jesús kenndi) og ég vona eiginlega að íslenskir krakkar séu að horfa — já, og líka foreldrarnir því að Di4ri getur ekki annað en aukið væntumþykjuna til unglinga. Þessir þættir eru mjög heilnæmir á okkar tíma vísu. Það vottar ekki fyrir áfengi eða eiturlyfjum, krakkarnir búa heima hjá foreldrunum og ferðast um allt á hjólum, og þó að vandamálin séu yfirþyrmandi fyrir sjálfar persónurnar smástund reynast þau flest furðu viðráðanleg, nema helst þegar ráðríki hins aðlaðandi óformlega leiðtoga Pietros keyrir um þverbak. Samfélagsmiðlarnir eru sannarlega til vandræða en góð persónuleg samskipti grafa undan valdi þeirra og vonar maður að sú sé sem víðast raunin í raunheimum líka.

Previous
Previous

Krónos át börnin sín

Next
Next

Drykkjan og barnið