Drykkjan og barnið
Eftir að hafa rekist á áhugaverða grein Toril Moi um Vigdis Hjorth í LRB ákváðum ég og nokkrir vinir að kynna okkur Vigdísi nánar þó að raunar hafi ég áður fjallað um hana á þessari síðu. Einar fjórar bækur hafa komið út á íslensku eftir hana, hver með sinn þýðanda og misvel þýddar (í einni heitir hún ekki einu sinni Hjorth heldur Hjort). Eitt af því sem Toril ræðir í sinni grein er hugmyndin um erótíska höfundinn sem blómstraði lengi um Vigdísi sem þó er vel lesin í Kierkegaard og fleiri heimspekingum og hún spyr sig hvers vegna sögur kvenna um drykkju, skáldsagnaritun og framhjáhald þyki ekki jafn alvarlegar og samsvarandi sögur karla (bæði Fosse og Knausgaard eru nefndir í greininni) eða að minnsta kosti ekki fyrr en Annie Ernaux landaði Nobbanum. Sannarlega má finna þessi minni í sögum Hjorth, m.a. Frönskum leik og Mömmu sem ég las báðar í mars.
Um rætur Hjorth í módernismanum þarf varla að ræða. Bækur hennar eru stuttar; þær sem hafa verið þýddar á íslensku alls 800 síður og þar af á ein (Arfur og umhverfi) helminginn. Tilraunakenndur og knappur stíll hennar blasir við öllum og minnir mig stundum á íslenska nöfnu hennar. Textinn er einfaldur, það er setningagerðin sem skapar hughrifin um módernisma fremur en myndlíkingar eða flækjur. Thomas Bernhard er iðulega nefndur til sem áhrifavaldur. Stundum finnst manni nóg um. Einn lesandi Franska leiksins á netinu segir að á 20. hverri síðu sé frábær setning en á milli séu orð sem virðist hafa verið hrúgað saman á handahófskenndan hátt. Þá gagnrýni hafa þó nýrri bækur hennar ekki fengið; smekkur fyrir bókmenntalegu tilraunaeldhúsi temprast með aldrinum. Hjorth hefur sagt í viðtölum að allar hennar bækur séu umfjöllun um samfélagsmálefni sem hún síðan finnur persónulegan flöt á áður en hún hefur skriftir og það á sannarlega við um bæði Franskan leik og Mömmu. Sú síðari höfðaði meira til mín og eflaust á það við um fleiri íslenska lesendur.
Hjorth hræðist ekki óþægileg efni fremur en landa hennar Herbjørg Wassmo sem ég las mér til mikillar armæðu upp úr tvítugu; bækurnar voru góðar en ekki þess eðlis að ég treysti mér til að lesa þær aftur, fremur en að ég mun leggja í teiknimyndina Gröf eldflugnanna á ný (sýnist ég ekki einu sinni hafa náð að skrifa um hana í boðaðri framhaldsgrein). Norskum höfundum finnst greinilega lítil ástæða til að sýna lesendum vægð með eins konar húmor og kannski er það gott; að minnsta kosti næ ég litlu sem engu sambandi við meintan húmor sumra íslenskra höfunda sem gagnrýnendur eiga til að nefna. Í Mömmu finnst mér henni takast til með því að nota sjónarhorn táningsins. Raunar er hún þar á svipaðri braut og ég var í Brotamynd sem ýmsir tóku ekki alvarlega vegna þess að söguhetjan var ung kona af Twitterkynslóðinni. Hjorth segir sögu margra ára án þess að gefa lesandanum alltaf færi á að átta sig á tímanum. Þó að tilraunamennskan sé ekki jafn yfirþyrmandi og í Frönskum leik er sagan frekar meta og hin listræna blekking er hugsanlega að sagan sé skólaritgerð um ættingja.
Það er miklu meira undir hjá Hjorth í þessari bók en eingöngu alkóhólisminn. Hún er líka að ræða frjálsræði í uppeldinu, stöðu listamannsins, áhrif karlamála móðurinnar á barnið og kannski ekki síst hvernig foreldri móta börnin með öllum sínum gjörðum og orðum. Mamman er að mörgu leyti aðlaðandi persóna sem vill barninu vel og hefði helst kosið að eigin drykkja mótaði ekki barnið en það er auðvitað ekki einfalt viðureignar í raun. Báðar þessar bækur eru drekkhlaðnar tilvistarangist en Hjorth heldur henni að mestu undir yfirborðinu og þetta er kannski eðli 160 blaðsíðna skáldsögunnar, hver síða er eins og 10% af öllum síðunum sem ekki komust í bókina.