Engill dauðans af himni sendur

Vígamaðurinn (Pale Rider) í leikstjórn Clint Eastwood var ein af vinsælustu myndum ársins 1985 og kom það á óvart þar sem hún var almennt skilin sem „gamaldags vestri“ en andinn í henni er raunar talsvert annar en í vestrum fyrri tíma og kannski líkari Unforgiven sem Clint gerði síðar. Myndin er ekki endurgerð neinnar þekktar myndar eftir Akira Kurosawa en samt er eins og sá japanski meistari svífi yfir vötnum vegna þess að í myndinni eru skýrar biblíulegar andstæður enda er titillinn sóttur þaðan og sagan hefst á að stelpa biður til Guðs um aðstoð. Hvort það eru tengsl á milli utan hennar huga er aldrei skýrt en skömmu síðar birtist Clint Eastwood sem líkt og oft áður í kvikmyndum er nafnlaus og kallaður „presturinn“ þó að hugsanlega sé hann ekki slíkur. Strax í fyrsta atriði gerir Clint sig gildandi með kylfu gegn fjórum áhangendum hins ríka LaHood sem öllu ræður í þessu héraði og ásælist jarðir gullleitarmanna í nágrenninu. Risavaxinn kappi leikinn af stáltannanum úr James Bond myndunum (Richard Kiel) er þá fenginn til að kenna predikaranum lexíu en það fer á annan veg. Í kjölfarið gerir auðmaðurinn gullleitarmönnunum tilboð vegna þess að honum líst ekki alveg á predikarann en þeir neita samt að fara og þá fer að hitna í kolunum.

Með þeim fyrirvara þó að myndin gerist á vetri og það er snjór út um allt sem annars var sjaldséður í vestrum fyrri áratuga. Stelpan sem bað til Guðs ákveður um miðja mynd að hún sé ástfangin af Clint þó að hún sé aðeins 14 ára (jafngömul Maríu mey) en hann sé gamall maður. Síðar reynist mamma hennar (leikin af Carrie Snodgress heitinni) ástfangin af Clint líka en sonur ríka mannsins (leikinn af kornungum og mjóum Chris Penn) girnist hins vegar 14 ára stelpuna og reynir að nauðga henni við mikinn hlátur fylgdarmanna sinna (nema helst Richard Kiel sem ætlar greinilega að grípa inn í atburðarásina og sennilega til góðs því að hann skiptir um lið í lokin sem ég hlýt að líta á sem vísun í James Bond). Á meðan hefur Clint haldið í næsta bæ og virðast þau hamskipti ekki boða neitt gott. Ríki maðurinn hefur hins vegar fengið alræmdan skerfara að nafni Stockburn sem ferðast um landið ásamt sex fylgdarmönnum og styður við ójöfnuð og rangindi hinna ríku. Gefið er til kynna að gömul saga sé á milli predikarans (Clints) og Stockburns en okkur er aldrei sagt inntak hennar og sem betur fer er Clint ekki George Lucas og gerði því ekki þrjár framhaldsmyndir til að skýra hið augljósa.

Stockburn og sex árar hans birtast á tilkomumikinn hátt ríðandi yfir fjallaskarð undir dúndrandi trommu- og básúnutakti Lennie Niehaus (1929-2000) sem lengi vann með Clint. Ef vígði maðurinn er engill af himni sendur blasir við að Stockburn og þöglir félagar hans eru frá öðrum og verri stað og það kemur fljótlega á daginn þegar einn gullleitarmaðurinn finnur risagullmola og fer með hann í bæinn. Hann er þar fagnandi eins og fífl á götunni þegar þessir sjö óhugnanlegu frakkalæddu menn (sjá að neðan) birtast og láta hann fyrst „dansa“ en ögra manngarminum síðan til að draga fram byssuna og þá skjóta þeir hann í tætlur. Augljóslega eru Stockburn og hans menn engin lömb að leika sér við og þegar aðeins er hálftimi eftir af myndinni er fátt framundan annað en epískur lokabardagi Clints við þessa óvætti og auðvitað minnipokafúlmenni LaHoods sem voru fyrir á staðnum og þarf að afgreiða fyrst eins og forrétt.

Stockburn er gamall hvítskeggur en ekki síður óhugnanlegur fyrir það. Hann þekkir Clint greinilega frá fornu fari en telur að sá maður sé látinn. Kannski er það misskilningur en vekur líka upp grunsemdir um hvort predikarinn Clint sé hugsanlega draugur eða jafnvel engill sendur frá himni til að gera yfirbót fyrir fornar syndir sem svar við kalli ungmeyjarinnar. Myndin lætur ekkert uppi um þetta. Stelpan og mamman ræða sameiginlega ást á predikaranum nálægt lokum myndarinnar þegar fátt eitt er eftir annað en að Clint ríði einn inn í bæinn og ginnir lítilsiglda taglhnýtinga LaHoods til að ráðast að sér sex í einu (meðal annars þá sömu og hann afgreiddi snöfurmannlega með kylfunni áður) áður en hann snýr sér að erkifjandanum Stockburn og hans kónum. Það er myndrænasta atriðið, stórkostleg fjallasýn í báðar áttir, og hatta- og frakkaklæddir sexmenningarnir fá að rölta lengi um sallarólegir undir vökuluðu auga Stockburns áður en ósýnilegur og draugslegur Clint birtist úr ýmsum áttum líkt og vofa og plaffar þá alla í kássu.

„Þú?!“ er það eina sem hinn aldni Stockburn nær að segja áður en Clint afgreiðir hann þannig að við fáum aldrei að vita hver saga þeirra var (sem er miklu skemmtilegra fyrir okkur áhugamenn um ráðgátur). Þegar stelpan kemur æðandi á staðinn er gesturinn þegar á leið burtu og hún kallar þakkir sínar og ástarjátningu út í bergmál fjallanna. Bæjarbúar standa forviða eftir öll ósköpin og Clint sést ríða burt í snjónum.

Previous
Previous

Drykkjan og barnið

Next
Next

Norræna kímnin og tilfinningatryllingurinn