Gys og grímur
Líkt og fram hefur komið er ég menningarlegt afkvæmi Halla og Ladda og hugmyndin um að fylgja systrum mínum í Borgarleikhúsið skömmu fyrir páska að sjá „Þetta er Laddi“ reyndist ómótstæðileg. Ég var sjálfur í stjórn Leikfélagsins í átta ár og sá allar sýningar og þó að mér finnist erfitt síðan að tjá mig opinberlega um Leikfélagið er ekki annað hægt en að brjóta þá reglu þegar sjálfur Laddi á í hlut. Eins er rétt að nefna sýningarhöfundinn og leikstjórann Ólaf Egil Egilsson sem hefur áður hlotið verðskuldað lof fyrir umgengni sína við þjóðargersemar Íslendinga og unnið á skarpan hátt með form glymskrattasöngleiksins sem umfram allt annað dregur alla alþýðu manna í leikhús um þessar mundir. Leikgerðirnar sem hann hefur samið einn eða með öðrum hafa notið óhemju vinsælda en líka náð að túlka og greina innan þessa lýðvæna forms. Það er líka reynt hér. Sýningin um Ladda fetar vel það einstigi að vera trú Ladda, sjálfu leikhúsforminu og reyna að kafa á dýpið eins og hægt er en þó alltaf með póstmódernísku tvísæi og ákveðinni vitund um að hin ævisögulega nálgun getur flækst í klisjur um dapra trúðinn sem eru kannski sérlega hættulegar þegar hinn hógværi Laddi er annars vegar. Sýnilegin kemst vel frá þessu að lokum eftir alls konar karnival og sérdeilis flott burleskuatriði Margrétar Erlu Maack sem er haganlega fléttað inn.
Vala Kristín Eiríksdóttir á sérstakt lof skilið fyrir að halda uppi sýningunni ásamt Ladda sjálfum. Sögumaður eða ljónatemjari hennar verður sterk persóna og góð viðbót við sjálfa aðalpersónuna og hennar mörgu andlit. Leikarar Borgarleikhússins sýna hversu þrautþjálfaðir þeir eru og sýningin er þétt og fumlaus en auðvitað er hlutur þeirra ekki einfaldur, þ.e. að fara með persónur Ladda fyrir framan manninn sem fer með þær öðrum betur — sérstaklega á þetta við um Eirík Fjalar sem er einfaldlega ekki fyndinn nema sem búktalaradúkka Ladda. Þetta gekk sem sagt furðu vel þó að vitaskuld stæli Laddi sjálfur óhjákvæmilega senunni alloft. Mörgum tókst afar vel upp, sérstaklega Björgvin Franz Gíslasyni í hlutverki Elsu Lund. Skemmtileg írónísk fjarlægð var í mörgum atriðunum, t.d. Heilsubælinu í Gervahverfi og laginu um Roy Rogers. Hlutur Dengsa úr Á tali hjá Hemma Gunn var góður; sá feykivinsæli þáttur og hans hæfileikaríki en flókni stjórnandi væri vitaskuld stórgott efni í sérstaka sýningu en um það þurfti að stilla sig. Það er augljóslega ekki ætlunin að flytja númerin einfaldlega eins og þau voru heldur snúa aðeins upp á þau og gera leikhúsvæn. Svo er nokkur áhorfendaþátttaka sem skýrir hvers vegna ég keypti miða aftarlega.
Ekki er annað hægt að segja en áhorfendur hafi verið með á nótunum í sýningunni sem ég var á, þeir ruku á fætur í fullri einlægni í lok sýningarinnar til að hylla Ladda og raunar fyrr og sungu með jafnvel þótt þeir væru ekki beðnir um það. Sérstakur fögnuður braust út þegar Þórður húsvörður birtist og skil ég það vel; hann átti líka bestu línu verksins („það skemmir glerið að vera alltaf að horfa út um gluggann“). Eins voru sennilega ýmsir næstum búnir að gleyma Leifi óheppna sem er ein af eldri persónum Ladda. Gamlar myndir og upptökur voru nýttar en alltaf til að styðja sjálft sviðið. Tekin var umræða um Grínverjann og offeitu konuna og var það vel gert þó að nokkrir Miðflokksmenn í salnum vildu greinilega að Laddi tæki Grínverjann aftur. Þessi þáttur um breyttan tíðaranda skýrir líka að hluta tilfinningar áhorfenda sem hafa þekkt Ladda svo lengi að hann er orðinn hluti af okkur sjálfum og eiginlega erum við að einhverju leyti að fagna okkur sjálfum. Ágætlega var líka unnið með Sir Óliver tímabil Ladda. Hann kemur fyrir í sýningunni sem hann sjálfur, afar tregur að ræða sín einkamál og vill frekar snúa öllu upp í grín. Finnst hann ekki verðskulda klapp nema fyrir grínið. Þetta er bæði persóna hans en líka forn íslensk menning og ágætlega er unnið úr þessu.
Það sem ég saknaði helst var að fá ekki Halla með í sýninguna en eflaust eru skiljanlegar skýringar á því. Eiginlega finnst mér mesta furða hvað Laddi getur enn sjálfur, hálfri öld eftir að hann vann hug og hjörtu þjóðarinnar eftir að hafa álpast inn í sjónvarpsþáttinn „Ugla sat á kvisti“ með grín í anda Spike Jones og félaga. Nú er hann orðinn aldraður eins og gamli maðurinn úr laginu „Austurstræti“ sem augljóslega var freistandi að láta hann syngja þó að mér finnist það fjarri því að vera eitt betri laga Ladda. Eins tengi ég „Súpermann“ fullmikið við upphaflega ítalska lagið en viðurkenni að það gerir sig vel í svona sýningu þar sem það snýst um þátttöku áhorfendahópsins.
Þó að gervin hans Ladda séu mörg afar fyndin (fyrir utan þau sem ég hef þegar nefnt gleður Skúli rafvirki ekki síst og Hallgrímur hvítlaukskokkur) hefur mér lengi fundist hann fyndinn líka sem eigið hlédræga sjálf og fyrir örfáum árum horfði ég á gömlu sjónvarpsmyndina hans Hrafns Gunnlaugssonar um poppara sem fer að kenna út á landi þar sem Laddi var í alvarlegu hlutverki og olli þjóðinni miklum vonbrigðum — og mér fannst hún raunar hafa elst furðu vel og þar sást að Laddi hefði vel getað slegið í gegn á annan hátt líka. Ég man líka eftir fremur núanseruðum gamanleik hans í Magnúsi Þráins Bertelssonar og í aukahlutverki í Íslenska draumnum. Í sýningunni kom fram sem ég vissi ekki að Ladda dreymdi eitt sinn um að gera alvarlega poppplötu ásamt Gunnari Þórðarsyni en var talinn af því — framlag hans til íslenskrar popptónlistar er samt verulegt þó ekki væri nema með HLH-flokknum og Brunaliðinu en það síðarnefnda er allnokkuð notað í sýningunni. Hans örlög eru að hafa verið að vera of góður í því sem hann gerir best og fá því helst ekki að gera annað.
Að lokum vil ég geta þess að mér fannst gaman að sjá risavaxinn strump fljúga yfir sviðið, ekki af því að ég sé aðdáandi þessara furðulegu bláu vera en ég veit samt að margir Íslendingar sem eru yngri en ég komust í samband við Ladda gegnum Strumpana og því þarf líka að sýna virðingu þó að mín kynslóð muni aðallega 20 ára stórveldistímabil hans á Ríkisútvarpinu milli 1974 og 1995 (Þórð húsvörð, Dengsa, Elsu og alla hina) þegar allt vinsælasta efni miðilsins þurfti óhjákvæmilega á Ladda að halda. Eins og minnt er á í sýningunni hlýtur Laddi iðulega að hafa lifað svipuðu lífi og eiginmaður Lóu litlu á Brú, unnið eins og hestur og haft sjaldan frí. En auðvitað er niðurstaðan af baslinu stórkostlegur ferill sem ég á fastlega von á að skili sér í harðri atlögu að sýningametinu í Borgarleikhúsinu.