Illþolandi bræðrungar

Eitt af því versta við að líða illa af tilefnislausu er einmitt tilefnisleysið og íbúar hins ríka heims hafa fæstir mikilfengleg tilefni til vanlíðunar en samt líður þeim mörgum illa. Hvernig er svo þessi vanlíðan samanborið við útrýmingarbúðir nasista eða þjóðarmorðið í Rwanda? Er hún ekki samt raunveruleiki á sinn hátt, einkakatastrófa sem er engu skárri fyrir að vera ómerkileg í samanburði við aðrar og sannari katastrófur? Hin netta kvikmynd A Real Pain spyr þessarar spurningar og ég var vitanlega áhugasamur að sjá hana. Þó ekki væri nema vegna þess að í fyrra fór ég til Berlínar og slóst í för með Bandaríkjamönnum að skoða fangabúðirnar í Sachsenhausen.

Nú hef ég lítil persónuleg tengsl við gyðinga eða nasista né þekkti ég þessa tvo Íslendinga sem lentu í þessum búðum og þegar ég fer í svona ferðir er það iðulega mín meginhugsun að líkaminn kunni að bregðast mér á einhvern hátt þó að í þetta sinn hefði ég líka frænda minn að hugsa um sem var ennþá tiltölulega ungur þá miðað við núna. En auðvitað gleymi ég ekki þessari ferð og ekki fólkinu sem var með mér vegna þess að það er eitthvað sérstakt við svona ferðir. Í A Real Pain sláumst við í för með bræðrungum frá New York sem eru á leið til Póllands að minnast ömmu sinnar sem arfleiddi þá að fjármunum í því skyni. Hún sjálf hafði lifað af helförina en ekki snúið aftur til Póllands. Amman svífur þannig yfir vötnunum í myndinni en sést ekki.

Frændurnir Benji og David eru fjarska ólíkir og til marks um þann stéttamun sem kominn er upp á milli fertugra sem hófu samt lífið við svipaðar aðstæður. David er hæglátur og með áráttugreiningu, eiginmaður og faðir og allvel stæður. Líf hans hefur skýran og hefðbundinn tilgang. Benji er hálfgerður aumingi sem auk heldur er nýbúinn að reyna að fremja sjálfsmorð. Samt er það hann sem er ráðandi í samskiptum þeirra, veður í fyrstu yfir David og reynist síðan vera gersamlega yfirþyrmandi persónuleiki sem setur mark sitt á hvern hóp.

Ég þekki nokkra yfirþyrmandi persónuleika og sumir eru bestir í smáskömmtum en flestir læra að hafa taumhald á sér en ekki þó Benji. Hann er frá upphafi til vandræða í sundurleitum hópnum en nær iðulega að heilla alla með gáska sínum og sjarma sem er þó ekki áreynslulaus. Alla nema David sem þekkir hann of vel og veit of mikið um hans raunverulega líf. Þetta kemur strax fram á fyrsta hótelinu þegar í ljós kemur að Benji hefur sent sjálfum sér eiturlyf í pósti á hótelið eða þegar þau hitta hópinn og Benji byrjar strax að reyna að hertaka félagskapinn.

Hann heldur því síðan áfram, ýmist með góðu og illu, og fer ansi illa með hinn ferkantaða David. Einu sinni hefði sá hluti myndarinnar farið mjög illa með mig líka en í þetta sinn var ég sallarólegur og sagði sjálfum mér að ef ég væri frændi Benji hefði ég einfaldlega aldrei farið með honum til útlanda því að eitt af því sem ég hef komist að um sjálfan mig er að ég er ekki mjög meðvirkur og allra síst með óþolandi fólki — ef ég væri átakasæknari gæti ég jafnvel verið danskur. Smám saman nær Benji að vinna alla til fylgis við sig eins og fólki sem er hrætt við annað fólk tekst iðulega að gera, ég þekkti eina slíka vel sem var fyrirfram illa við alla sem hún var líkleg til að hitta fyrir en náði alltaf að verða besti vinur þeirra með smá átaki.

Þannig sýnist mér Benji líka vera en vandinn er auðvitað sá að hann er maður andartaksins sem skín skært í smátíma og er eftirminnilegur, hugsanlega ógleymanlegur. David er aftur á móti ósýnilegur og auðgleymdur nema fyrir það litla horn heimsins þar sem hann er ómissandi en Benji á ekkert slíkt horn og er hvergi ómissandi sem er hans harmleikur. Þó að í allri ferðinni sé það David sem þjáist og Benji sem þeytir honum um allt er veruleikinn annar þegar heim er komið; þar er það Benji sem er einn og þjáist. Þessi stúdía á frændunum tveimur er síðan sett í samhengi við flókna samfélagsstöðu gyðingsins, allir hinir gyðingarnir í ferðinni reynast vera afkomendur einhvers sem var ofsóttur en komst að lokum í álnir með klókindum sínum sem sannarlega fellur vel að algengum hugmyndum um gyðinga. Annars konar klókindi má sjá hjá Benji sem tekur yfir öll svæði en situr að lokum einn á flugvelli og veit ekkert hvert hann stefnir.

Þeir frændur eru leiknir af Jesse Eisenberg sem einnig er handritshöfundur og leikstjóri og Kieran Culkin sem ég er nýbúinn að fá dágóðan skammt af í Succession. Auðvitað er margt líkt með Benji og Roman Roy, t.d. það að þeir þjást. Það er einmitt sú þjáning, full af gorgeir og látalátum, sem Culkin túlkar svo vel í báðum hlutverkum. Við þekkjum mörg ótrúlega klára og sjarmerandi menn (jafnvel skáld og listamenn) sem brotlentu samt og þó að einhverjar skýringar séu til (iðulega meðal annars áfengi og fíkniefni) er samt engin raunveruleg skýring á hvernig fór. Ég hugsa iðulega um einn slíkan í minni fjölskyldu og það hefur kannski verið svolítill Benji í honum líka. A Real Pain er þannig ekki þriggja tíma epísk stórmynd en hún fjallar samt um eitthvað sem skiptir máli í lífi okkar margra og er þess vegna mikilvæg.

Previous
Previous

Ráðlausir foreldrar, ráðlaust samfélag

Next
Next

Gys og grímur