Ráðlausir foreldrar, ráðlaust samfélag

Í gamladaga var börnum hent út á sumrin og þar léku þau sér eftirlitslaus alla daga, slógust og hrekktu hvert annað og lentu í slysum. Núna hefur uppeldi breyst og engum dettur þetta í hug lengur en í staðinn eru börnin eftirlitslaus að leika sér á netinu á dulmáli sem fullorðnir skilja ekki uns þau stinga hvert annað með hnífum. Unglingaveikin (Adolescence) er glænýr breskur þáttur þar sem glímt er við það hvernig öllum finnst þeir hafa misst tökin: foreldrar, kennarar og krakkarnir. Kannski höfðu þeir aldrei þessi tök en með vaxandi kröfum til alls og allra blasir það sannarlega við. Ég læt þess getið í upphafi að þátturinn er snilldarlega saminn og óvenjulega tekinn, allir fjórir þættirnir ein taka með engum sviðskiptum sem hefur sín áleitnu áhrif. Það er svo margt búið að skrifa um tökurnar og aðalleikarann Owen Cooper að ég hef eiginlega engu við það að bæta. Aðalpersónan Jamie, 13 ára, er handtekinn fyrir morð í fyrsta þætti, eiginlega á frekar hrottalegan hátt í ljósi þess að hann er ekki hryðjuverkamaður. Sá snýst alfarið um handtökuna og fyrstu yfirheyrsluna. Pabbinn fylgir Jamie í þessa erfiðu ferð og er algerlega úti að aka, það jákvæðasta sem segja má um hann er að honum er það sjálfum ljóst en samt er erfitt að pirra sig ekki smá á dugleysi hans og skilningsleysi. Löggan er aftur á móti við stjórnvölinn en blöskrar auðvitað að þurfa að meðhöndla líkt og harðsoðinn glæpaman þennan litla sakleysislega strák sem pissaði á sig þegar löggan kemur. Enda kemur í ljós að það er til myndband af Jamie að ráðast á jafnöldru sína með hnífi. Sekt eða sakleysi væri hið hefðbundna spennuefni en í þessum þætti er það frekar: hvers vegna?

Í öðrum þættinum sjáum við Jamie alls ekki heldur fylgjum lögreglunni í skólann hans sem er eins og hálfgerður dýragarður. Enginn hefur stjórn á neinu þar og kennararnir skilja alls ekki börnin og langar ekki einu sinni til þess, skiljanlega þar sem þeir menntuðu sig til að fræða fólk um ensku, stærðfræði og sögu en eru síðan beðnir um að taka ábyrgð á öllu, vera í senn félagsráðgjafar og fangaverðir en þó umboðslausir. Þeir eiga að ala upp börnin en er þó bannað það. Krakkarnir eru brjóstumkennanlegir en samt hættulegir, svolítið eins og afrísk rándýr í útrýmingarhættu sem eru í raun fórnarlömb okkar en geta þó verið viðsjárverð hvenær sem er. Sannarlega eru þau engir sakleysingjar, ekki heldur stelpan sem var myrt og hafði áður bæði lent sjálf í einelti og ráðist að Jamie í staðinn. Lögregluforinginn fær mikilvæga aðstoð frá syni sínum sem skýrir fyrir honum hvað tjáknin á Instagram merkja, aðallega vegna þess að honum finnst erfitt að horfa upp á pabba sinn ráðvilltan og skilningslausan. Er það kannski svona sem yngri kynslóðum líður andspænis okkur fimmtuga fólkinu? Löggan tekur þessu furðu vel enda er það mála sannast. Síðar nær hann eins og Bergerac forðum að elta uppi lítinn og mjóan dreng sem hugsanlega tengist málinu og er eins ólíkur alvöru glæpon og hugsast getur en samt kannski hættulegur. Við fáum svo mest lítið að vita um þann strák.

Í þriðja þættinum fáum við þó að fylgjast með fagmanni, sálfræðingnum sem talar við Jamie og á að meta hann. Ólíkt meira og minna öllum í þætti 2 veit hún hvað hún er að gera en það merkir ekki að hún geti leyst margþættan vanda Jamie eða verið honum það sem hann þarf á að halda. Þessi þáttur gerist allur í unglingafangelsi og aðeins fimm leikarar sjást, þar af eru sálfræðingurinn og Jamie að ræðast við mestallan tímann. Hann hefur strax breyst talsvert frá fyrsta þættinum þegar hann vissi ekkert hvað hann átti að gera á lögreglustöðinni og er orðinn talsvert forhertari og tilbúnari að tefla eins konar sálfræðiskák við sérfræðinginn. Innst inni vill hann samt bara að henni líki við hann. Þau ræða meðal annars um kynlíf og girnd stráksins og er það vægast sagt óþægileg umræða (ekki síst í ljósi nýlegrar íslenskrar umræðu um kynlíf unglinga) sem raunar kom líka við sögu í fyrstu þáttunum tveimur. Það er ekki hægt annað en að dást að unga leikaranum Owen Cooper sem þarf að fara upp og niður tilfinningaskalann með vandræðaunglingnum. Kannski hefði atriðið þó verið enn meira sláandi ef ég væri ekki tiltölulega nýbúinn að sjá þáttinn um Menendezbræðurna þar sem einn þátturinn var álíka klausturfóbískur og komst kannski nær því að máta mig.

Í lokaþættinum er sjónum beint að foreldrunum sem nú sitja uppi með að vera orðin morðingjaforeldrar og verða fyrir grimmilegu einelti af þeim sökum því að á einhverjum þarf samfélagið að fá útrás fyrir reiði sína yfir glæpnum og allt er betra en að líta í eigin barm (þetta var líka þemað forðum í hinni sláandi bók, We Need to Talk About Kevin eftir Lionel Shriver). Foreldrar eru raunar þeir sem oftast hafa orðið þegar rætt er um unglingavandamál í fjölmiðlum, bæði vegna þess að sérfræðingarnir eru allir meira og minna undir þagnarskyldu og foreldrið hefur auk heldur verið upphafið sem alviturt og algott í hinu nútímalega alræðissamfélagi kapítalismans — sem er eiginlega synd í ljósi þess að ábyrgð þess á ástandinu er mikil en enginn er að leita hennar opinberlega, þvert á móti er nútíminn stöðugt að rétta yfir fortíðinni og aðallega hinu opinbera (helsta sparkpúða auðvaldssamfélagsins) með því endanlega dómsorði að börn séu alltaf best geymd hjá foreldrinu, sama hversu drukkið, skakkt og ábyrgðarlaust það kunni að vera. Það eru foreldrar Jamies raunar ekki en þau vita sannarlega ekki heldur hvað þau eru að gera. Það er vitaskuld eðlilegt því að langflestir verða einfaldlega foreldrar fyrir kenjar náttúrunnar og þurfa enga þjálfun til þess en það er engin trygging fyrir því að öllum takist vel upp. Og það er svo sem ekki heldur eins og allir ferðist gegnum atvinnulífið og fullorðinsheiminn með skýra strategíu heldur og séu beinlínis góðir í vinnunni.

Ég er bæði andvígur því að rétta yfir fortíðinni út frá tímabundnum ráðandi viðhorfum nútímans en líka því að ímynda sér að öllu hafi hnignað og allt hafi verið betra áður fyrr sem er endurtekið þema hjá stöku pistlahöfundi. Þannig var það ekki og netið bjó ekki til vandann. Auðvitað er það samt plássfrekur athyglisþjófur og getur gert okkur að meðvitundarlausum draugum sem við megum kannski síst við. Á allt þetta bregður Adolescence birtu á ágengan hátt. Sérstaklega skýrt verður þetta í lokaþættinum þar sem skýrt kemur fram hversu venjulegir foreldrarnir eru þegar þau rabba saman í bílnum og hlusta á Aha saman. Síðan lendir pabbinn í því að fá óvænta stuðningsyfirlýsingu frá samsæriskenningasinnuðum Byko-starfsmanni (bestu aukapersónu þáttarins) og sýnir að lokum að það er ekki aðeins strákurinn sem á við reiðistjórnunarvanda að etja. En er eðlilegt að verða svona reiður, æpa og öskra og kasta hlutum? Nógu algengt er það í bíómyndum og sjónvarpi en ég var ekki alinn upp við þetta og hef ekki stundað það sjálfur. Kannski vantar meira afþreyingarefni um rólegt fólk. Í lokaatriðinu sitja hjónin og ræða hvernig þau gerðu allt fyrir strákinn og komast að lokum að þeirri niðurstöðu að þau hefðu getað gert meira en um leið blasir við að stelpan þeirra er sterk og hefur ekki stungið neinn. Ráðleysi þeirra er yfirþyrmandi sorglegt en samt fæ ég ekki varist þeirri hugsun að þau séu ansi sjálfhverf í sinni sorg og að kannski hafi það einmitt verið meinið. Ef til vill var það fyrst og fremst áhuginn sem vantaði. Það er ekkert sjálfgefið að fólk hafi beinlínis áhuga á eigin börnum.

Next
Next

Illþolandi bræðrungar