Ættar bönd

Ein óútgefin skáldsaga mín heitir þessum titli en hún hlaut aldrei vængi þar sem þeim fáu sem fengu að sjá féll hún ekki nógu vel og kemur kannski aldrei út þó að titillinn sé góður að minni hyggju. Þar átti að kafa ofan í fjölskylduflækjur og nota til þess sjónauka fjölskylduboða og arfskipta. Mér kom þetta andvana verk í hug þegar ég sá fyrr í ár ítölsku kvikmyndina Mio fratello, mia sorella eða Bróðir minn og systir mín (sem er kannski betra heiti en Ættar bönd þó að ég hefði kosið hitt). Þar gerir látinn eðlisfræðiprófessor einn rígfullorðnum börnum sínum þann óleik í erfðaskrá sinni að neyða þau til sambýlis; annars fái þau ekki túskilding með gati í arf. Þau heita Nik og Tesla (eftir eðlisfræðingnum) og hafa á 20 árum þroskast í gjörólíkar áttir. Hún á tvö fullorðin börn og er orðin stíf og öryggisþurfi en hann hefur gefið upp allan metnað, virðist hafa eytt ævinni á ströndunum í Costa Rica og vill vera frjáls andi sem gerir það m.a. að verkum að hann labbar um húsið allsber strax á fyrsta degi. Klisjurnar um þau eru að hann hafi stungið af og sé stikkfrí en hún hafi dæmt sig sjálfa í ævilangt fangelsi ásamt börnum sínum.

Þetta er gott efni í grínmynd en það verður myndin ekki því að sonur Teslu er veikur, telur sig vera útvalinn í leiðangur til Mars til að bjarga klassískri tónlist frá útrýmingu og talar aðallega við ímyndaðan vin sinn Kelvin frá Mars og þessi ógæfa hefur eyðilegt líf Teslu og dóttur hennar þannig að Nik hefur í raun ekki svo miklu að spilla. Stráksi er leikinn af hinum afar fallega Francesco Cavallo sem lék annan ofbeldismanninn í Kaþólska skólanum. Francesco muldrar allt sem hann segir og það er fjarlæg nánd hans sem heldur myndinni uppi; túlkun hans á geðveika drengnum er grafalvarleg og einlæg. Mamman telur geðveikina stafa af ofurviðkvæmni drengsins sem áhorfandinn fær líka sterka tilfinningu fyrir; hann var tónlistarmaður en nú er allt honum ofviða eins og manni finnst oft verða um fólk af ungu kynslóðinni. Að sjálfsögðu er bóhemabróðirinn algerlega á móti uppeldisaðferðum mömmunnar sem hann telur hafa hlíft stráknum um of og vill frekar draga hann úr skelinni. Dóttirin hefur lent á milli í þessum aðstæðum, hefur verið látin bera ábyrgð á bróður sínum ásamt mömmunni — titillinn er því margræður — og koma í veg fyrir að nokkuð geti komið honum úr jafnvægi. Hún er enda hætt að kalla móður sína mömmu, sennilega þar sem mamman er í stöðugri taugaveiklun að reyna að vera góð mamma sonarins veika. Seinna kemur í ljós að saga bróðurins frjálslega er líka flóknari en aðrir vita og hann hefur þurft að glíma við sína eigin djöfla.

Þó að það sé laumulega með það farið er líkt og sagan eigi að fjalla annars vegar um samband eðlisfræði og tónlistar sem takast á um eina brothætta sál en hins vegar um hvernig venjulegt fólk getur bæði farist og bjargast í erfiðum aðstæðum. Mörgum hefur þótt ólíkindabragur á sögulokunum þegar bílslys er notað sem eins konar guð-úr-vélinni sem öllu kippir í lag en ég lít á lokamínútur myndarinnar fremur sem táknræna útfærslu tilfinningakreppunnar (ég reyndi sjálfur eitthvað svipað í skáldsögunni Brotamynd) þar sem áhorfendur eru kynntir fyrir þremur mögulegum sögulokum, þ.e. að veika drengnum hafi batnað í sviphendingu, að hann hafi dáið og að lokum að honum hafi batnað smám saman sem er langlíklegasta niðurstaðan því að geðsjúkdómar geta þróast og líka í jákvæða átt. Þannig að það er alls ekki útilokað að Marsferðinni hafi að lokum verið slaufað og Kelvin horfið úr kolli unga mannsins.

Previous
Previous

Undanvillingurinn

Next
Next

Vaknað úr dái