Undanvillingurinn

Grænmetisætan (채식주의자) eftir nýja Nóbelshöfundinn Han Kang (þann fyrsta og enn eina sem er yngri en sá er þetta ritar) er sannarlega áhugaverð bók og kannski ekki síst fyrir þann íslenska bókmenntafræðing sem hefur skrifað einna mest um hungurverkföll og fjarveru yfirleitt. Kona sem lýst er (af eiginmanni sínum) sem nánast fáránlega venjulegri hættir að borða kjöt að því er virðist á siðferðislegum forsendum og nærsamfélag hennar tryllist gjörsamlega. Lýsingar bókarinnar sækja margt til hrollvekjusymbólisma, af íslenskum bókmenntum eru sum verk Svövu augljós hliðstæða en í þeim var þó mildandi glettni. Tilfinningin að lesa Grænmetisætuna er kannski nær sumum skáldverkum Steinars Braga en lestur á einu slíku varð til þess að ég kastaði upp jólamatnum árið 2008. Áherslan á hið líkamlega er þannig sterk og vægðarlaus, Han Kang vill greinilega ekki að við höldum fjarlægð við söguna með symbólskri hugsun. Samt blasir við í fyrsta lestri að Grænmetisætan fjallar álíka mikið um grænmætisætur og „The Only Gay in the Village“ grínþættirnir í Little Britain fjölluðu um samkynhneigð (þeir fjalla kannski frekar um þema sem Kári Tulinius tók svo til umfjöllunar í fyrstu skáldsögu sína, Píslarvottar án hæfileika).

Skáldverkið skiptist í þrjá allsjálfstæða hluta. Sá fyrsti er frá sjónarhorni eiginmannsins sem skilur ekki neitt. Hann hefur greinilega aldrei skilið konu sína og ekki haft neinn áhuga á henni, fyrir utan ákveðna þráhyggju fyrir því hvort hún notar brjóstahaldara eða ekki. Fullkomið áhugaleysi hans á forsendum konunnar andar af hverri síðu. Þeim mun meiri áhuga hefur hann á viðbrögðum kolleganna og að lokum tengdafjölskyldunni sem bregst mjög ofsafengið við þessari fæðutengdu uppreisn. Sjálfur lýsir hann sér aðallega sem sviknum vegna þess að eiginkonan er ekki lengur eins og auðsveip þjónustustúlka þó að hann nauðgi henni raunar þegar hún neitar honum um kynlíf. Hið algera skilningsleysi mannsins fær mann til að gruna um að sagan fjalli að verulegu leyti um samskipti kynjanna og að það staðfestist í öðrum þætti sem er frá sjónarhorni mágs grænmetisætunnar, listamanni sem innlimar uppreisn mágkonu sinnar inn í erótíska fantasíu sína. Þessi gerólíku en þó á sinn hátt áþekku viðbrögð karlkynsins við höfnun kjötsins minna mann á sögur heilögu meyjanna sem ekki vildu giftast vegna trúar á Jesú og uppskáru trylling feðraveldisins fyrir. Faðir konunnar sjálfur er þar skýrasta dæmið en hann vill beinlínis neyða kjöti upp í dóttur sína.

Seinasti þáttur verksins er kannski áhugaverðastur vegna þess að þar er skipt yfir í sjónarhorn systur undanvillingsins, eina sögumannsins sem vill skilja. Þar er tekist á við grundvallarspurningar um heilbrigði og geðheilsu og smitandi sundrunina sem hlýst af uppreisn systurinnar. Ég þekki lítið sem ekkert til Suður-Kóreu þannig að samfélagsgagnrýni bókarinnar hitti kannski ekki jafn beint í mark hjá mér og öðrum. Mér finnst líka svolítið erfitt að fylgja eftir lönguninni um að verða tré en þar er á ferð táknræn hugsun sem ég þekki líka frá Svövu, einkum sú kenning hennar að vegna karllægni tungumálsins yrði hún að fara inn í bæði goðsagnir og tungumálið og snúa þeim við, en auðvitað má einnig glöggt greina áhrif Búddismans sem Han Kang mun hafa hellt sér í á fyrri æviskeiðum.

Höfundarverk Han Kang mun vera fjölþætt og fjölbreytt ef marka má Nóbelnefndina sem segist einkum verðlauna hana fyrir að afhjúpa hve brothætt mannslífið sé og hin sögulegu ör tilveru okkar. Grænmetisætan hefur fallið þeim íslensku lesendum sem ég hef rætt við afar misjafnlega í geð en enginn vafi er þó á að bókin er áhugaverð og grípur á ýmsu kýlinu.

Next
Next

Ættar bönd