Vaknað úr dái
Ungur illa særður maður vaknar á spítala og hefur legið í dái í þrjú ár þegar hann vaknar og spyr eftir systur sinni. Hann er sá eini úr fjölskyldunni sem lifir eftir skotárás (m.a. deyr Stephane Rideau úr Villreyrnum) og þarf síðan að rifja upp hvað gerðist í félagi við sálfræðing. Þetta er prýðileg hugmynd kvikmyndarinnar Le patient á Netflix en því miður spillir lausn myndarinnar henni, á að vera óvænt en er það ekki og ekki heldur undirbyggð nægilega vel. Kannski voru mistök hjá mér að horfa á svo hæga mynd að kvöldlagi en mér fannst erfitt að halda athyglinni þó að aðalleikarinn Txomin Vergez leiki vel, einkum í spítalaatriðunum en í endurlitsatriðunum hefði ég þegið hvíld frá hrjáða svipnum. Miðað við dóma voru það fleiri en ég sem ekki skildu hlutverk allra persóna eða hluta í þessari mynd og kannski var það þess vegna sem ég ákvað í kjölfarið á sjónvarpsþátt með svipuðum þræði í von um að hann stæði betur undir væntingum.
Ítalski sjónvarpsþátturinn Tutto chiede salvezza (Allt krefst frelsunar) hefst á svipaðan hátt en reynist fjalla meira um sjálfan spítalann og veruna þar; kannski er munurinn sá að spennan felst í hvað verður um persónurnar frekar en hver gerði hvað. Hver þáttur sýnir einn dag þannig að tími gefst til að kynna persónurnar hægt og rólega og vekja þannig áhuga áhorfenda á þeim. Kannski er enn mikilvægara að þessi þáttröð er grundvölluð á bók eftir höfundinn Daniele Mencarelli sem raunar er ekki síður þekktur sem ljóðskáld — þetta gerir meðal annars að verkum að ljóðið sem flutt er í þættinum er furðu gott. Hinn ungi Daniele (sóttur í höfund sjálfan) hefur tekið æðiskast og ráðist á föður sinn en man ekki eftir því; hann er leikinn af Federico Cesari sem mun þekktastur fyrir að leika í Skam Italia sem ég hef ekki séð en persóna hans Martino mun vera hliðstæða Isaks í hinu upphaflega Skam. Hvílíkri velgengni náði ekki Julia Andem og frændur okkar Norðmenn en hún er sannarlega verðskulduð — fyrir utan Skam eru til Skam France, Skam España og Skam Italia, Skam Austin er bandaríski fulltrúinn, Skam NL hollenski, Króatar eru með Sram, Belgar nota heitið wtFock (greinilega svalasta þjóðin) og Þjóðverjar Druck. Þetta minnir mig örlítið á það þegar flestallar þjóðir heims völdu að kalla Kermit frosk áfram Kermit nema spænskumælandi þjóðir sem kalla hann ýmist René eða Gustavo. Syrpurnar í hinum löndunum hafa stundum orðið mun fleiri en af upphaflega Skam, 12 í Frakklandi en raunar aðeins tvær í Bandaríkjunum (þeir sem þekkja Skam vel geta ímyndað sér hvers vegna ekki varð af þriðju syrpu þar í landi), og maður hefur ýmsa leikara séð sem komust til manns í þessum þáttum, þar á meðal eru hin ítalska Ludovica Martino (Eva í Skam Italia), hin spænska Nicole Wallace (Nora í Skam España), hinn þýski Zethphan Smith-Gneist (sérþýsk persóna), hinn ítalski Ludovico Tersigni (hliðstæður Jonas), hinn spænski Gabriel Guevara (hliðstæður Penetrator-Chris) og svo auðvitað Federico okkar.
En sem sagt, Daniele er nú fastur á spítala í viku óháð eigin vilja, í stofu með fimm öðrum misóðum. Sjálfur telur Daniele sig ekki eiga heima í þessum hópi en er samt einna óþægasti sjúklingurinn og stöðugt að reyna að brjóta reglur. Heimur hans í þessa viku eru hinir sjúklingarnir, starfsmennirnir og fjölskyldan sem öðru hvoru kemur í heimsókn. Við bætist stúlkan Nina sem hann sér ekið inn á spítalann og verður samstundis ástfanginn af enda er hún gömul skólasystir hans. Ástin á greinilega auðvelt með að blómstra við Tíber. Allt starfsfólk og aðstandendur eru hins vegar andsnúin því að geðsjúklingarnir séu að stunda mök á salernunum. Smám saman rennur upp fyrir okkur og líka Daniele að hann er nú stimplaður eins og hann hefur sjálfur stimplað alla hina. Um leið fer hann að líta á stofufélaga sína sem manneskjur og sér hversu illa farið er með þá af öðrum. Þróunin hjá áhorfandanum er önnur, frá því að finnast Daniele hálfgerður leiðindagaur í að sjá kosti hans og mennsku. Hvörfin hjá þessum áhorfanda urðu þegar stofufélagi hans Gianluca er sóttur heim af föður sínum og Daniele stendur óvænt með Gianluca sem hann hefur áður fyrirlitið. Hér skiptir máli að bókin sem þátturinn er grundvallaður á gerist árið 1994; hún gerist um leið og heimsmeistarakeppnin þegar Ítalir komust í úrslit og töpuðu eftir að Biaggio brenndi af víti. Vegna þess að ekkert er minnst á Biaggio í þáttunum og hegðun og klæðaburður persónanna lýtur eðlilega takmörkunum var ég lengi ekki viss um hvort þessu væri fylgt eða hann færður til nútímans; hið síðara mun raunin.
Í sjúklingahópnum er eldri maðurinn Mario áberandi sem er líklega greindastur og kannski líka óðastur í stofunni og hann stendur fyrir einkennilegasta atriði þáttanna um miðbik þeirra þegar örstuttur söngleikur leysir raunsæið af hólmi. Því miður er Mario einnig sú persóna sem ekki heldur áfram í seinni þáttaröð eftir að detta óvænt út um opinn glugga í þætti 6 en viðbrögð hinna sjúklinganna við því eru í fyrstu sérkennilega ódramatísk sem gerir atriðið eftirminnilegra en ella. Daniele Mencarelli skrifaði fleiri sjálfsævisögulegar skáldsögur og ein heitir La casa degli sguardi og fjallar um þegar Daniele fer aftur á spítala, í þetta sinn sem hjúkka. Hið sama gerir hann einnig í seinni þáttaröðinni en mig grunar samt að hún sé frekar lauslega byggð á sögunni þar sem hann snýr aftur á sama geðsjúkrahús en í bókinni var það barnaspítali. Hvað um það er áhugavert að sjá hann núna hinumegin við borðið sem starfsmann en illu heilli nýta geðsjúklingarnir sér veikleika Daniele og eru strax í öðrum þætti farnir að kúga hann. Daniele reynist einstaklega laginn að koma sér í vandræði þó að hann vilji vel og er gjarn á að týna sjúklingunum þegar hann er að reyna að hjálpa þeim. Þá rýkur hann iðulega upp í skapofsa þegar þess er síst þörf. Eins og Gianluca (sem er áfram vinur hans eftir að þeir útskrifast báðir) segir við hann: „Eins og venjulega skilur þú ekkert“. Daniele er hugsjónamaður og finnst að allir eigi að elska hann vegna þess að hann er svo góður en Gianluca á léttara með að skilja sjúklingana sem taka óhamingju sína út á nýja manninum.
Vegna þess að umfjöllunarefnin eru flókin heldur seinni þáttaröðin dampi furðu vel og breytist aldrei í sápu þó að þemað um manngæskuna sem opni allar dyr verði svolítið áberandi í sumum seinustu þáttunum (bara ef það væri þannig í raun og engin dæmi væru um að fólk væri myrt einfaldlega fyrir það eitt að hafa sýnt ógæfumönnum mannúð) en þátturinn heldur þó nægri fjarlægð til að þróast aldrei yfir í vellu. Kannski hefur hún frekar á réttu að standa, stúlkan sem sakar Daniele um að vera sjálfselskt smábarn í líki fullorðins manns eða hinn ungi Rachid sem telur að hann meini ekkert með samúð sinni og áhuga á sjúklingum. Hugsanlega er sannleikurinn einhverstaðar þar á milli. Eins og ég hef áður rökstutt er pragmatismi eina siðlega afstaðan og að daðra sífellt við það sem er útilokað að náist fram eða geri gagn er í raun ljótur leikur og vekur upp grunsemdir um að aðalatriðið sé sjálfsupphafning. Á þessari línu dansar sagan um Daniele undir lokin.