Virðingarröðin
Í menningarlegum fjölskyldum er reglulega skipst á bókum, einkum léttmeti, og um daginn kom systir mín á mig einni sem ég tók þó latlega við. Sú heitir Hvarf Stephanie Mailer og er eftir Joël Dicker, svissneskan höfund sem skrifar á frönsku en í enskri þýðingu og gerist í fylkinu New York í Bandaríkjunum. Dicker sá skrifaði áður margræmda en óeftirminnilega sögu sem mig minnir að ég hafi lánað henni og leit á þetta sem hefnd. Sú seinni hefur þó reynst talsvert betri en hin, fyrstu 298 síðurnar af alls 540. Sjáum hvað setur. En ég er svo sem ekki að segja frá þessu aðeins til að upplýsa um lestur seinasta sólarhrings heldur rakst ég á þessa skemmtilegu virðingarröð skáldsagna í bókinni.
Þó að hér tali hégómlegur gagnrýnandi – skáldsögur eru fullar af slíkum, ég veit ekki hvers vegna – er kannski broddur í þessu. Efst trónir sem sé óskiljanlega skáldsagan, síðan sú vitsmunalega, þá sú sögulega, síðan venjulega skáldsagan (sem gerist í nútímanum og með skiljanlegum þræði) og neðst eru sakamálasagan og ástarsagan. Ég hafði ekki áttað mig á að sögulegar skáldsögur væru svona hátt skrifaðar en þó eru kannski einmitt nýleg dæmi um nákvæmlega það. Barna- og ungmennabækur eru ekki með en það má svo sem fylla í eyðurnar. Dicker er sjálfur að skrifa eins konar glæpasögur en þó með talsverðu húmorísku og gáfulegu ívafi, til dæmis eru iðulega sögur inni í sögunni.
En ef ég skrifa óskiljanlegar skáldsögur í framtíðinni, þá gæti hér verið lykill að því.