Fræðimannsannir

Á morgun verð ég á málþingi. Þau eru alls sex á sex vikum sem ég ýmist tek þátt í að skipuleggja eða er með erindi á. Ekki finnst mér ég neitt sérlega góður fyrirlesari og skil ekki hverju þessu eftirspurn sætir. Kannski er það öll þekkingin. Nútíminn vill þekkingu? Það er inngróið í mann að nútíminn sé hræðilegur og framtíðin enn verri en stundum hvarflar að mér að fólk hafi líklega alltaf verið hræðilegt en við séum bara búin að sveipa allt hræðilega fólkið úr fortíðinni þægilegri gleymsku.

Hér að ofan er vísbending um hvar málþingið verður. Ég fæ sem betur fer að tala íslensku. Zoomfundirnir gerðu það að verkum að ég þurfti stundum að hlusta á mig tala útlensku og er enn að jafna mig. Raunar elska ég flest tungumál en íslensku líklega mest, jafnvel meira en dönsku. Hún er píanóið mitt. Þó að ég leyfi mér stundum smá flipp er nauðsyn að fara vel með hljóðfærið sitt.

Eins og sjá má hér að ofan eru margar fræðibækur á borðinu hjá mér þessar vikur og verða lesefni helgarinnar. Aldrei verður maður leiður á að fá í hendurnar spennandi fræðibók sem kannski breytir myndinni af heiminum.

Previous
Previous

Hilary Mantel látin

Next
Next

Virðingarröðin