Vatn, jörð, loft, eldur
Þessar höfuðskepnur eru byggingarefni Álfheima og í Risanum er sagan sögð frá sjónarhorni hinnar jarðbundnu Soffíu sem veit ósköp vel að hún heitir þekktu gribbunafni og sagði í fyrstu bókinni: „Ég kann mörg lög og þau eiga öll við hér.“ Pétur var líklega svolítið dolfallinn andspænis sjálfstrausti Soffíu og hyggjuviti. En hvaða augum lítur hún sjálfa sig?
Sjónarhorn er líklega eitt mikilvægasta tæki skáldsagnahöfundar enda verða iðulega slys þegar sögur færast á svið eða skjá. Eitt er t.d. persóna sem hefur áhyggjur sem hún þegir yfir en annað ef hún er síkveinandi og hafa ýmsar aðlaganir farið flatt á þessu. Ég spilli ekki sögunni þó að ég láti þess getið að Soffía lítur sig alls ekki sömu augum og Pétur leit hana. Hún lítur hann ekki heldur sömu augum og hann sjálfan sig. Hvað þá með Konál og Dagnýju? Það kemur ekki í ljós fyrr en í þriðja og fjórða bindi.
Að ofan má líta fjögur ungmenni og hund en þetta eru ekki mínar söguhetjur enda vil ég alls ekki taka það frá lesendum að móta þær í huganum. Þar fyrir utan eru mínar sögupersónur eldri og það er alls enginn hundur. Höfundur er að vísu ekki lengur hræddur við hunda en vill ekki ganga svo langt að hleypa þeim inn í öll skáldverk.
Enn síður vil ég að lesendur fari að bregða einhverri blytonskri dósamatsbirtu á söguna mína. Þó að það fari höfundum illa að reyna að stjórna viðtökum eigin verka sé ég mína fyrir mér fulla af drunga og myrkri og ógnum jafnt innra sem ytra, ekki þó í anda hryllings- eða spennumynda heldur væri gott ef lesendur sætu eftir með örlítinn efa og ugg sem þeir losna ekki alveg við. Því að þannig er lífið og þannig voru álfarnir sem forfeður okkar trúðu á.