Risinn er kominn út
Bók er samskiptaleið og þess vegna finnst mér ekki nóg að skrifa bækur þó að það sé skemmtilegasti hlutinn fyrir mig. Ég vona að það sé litlu síðra að lesa bækurnar og þó að sumum finnist bókin úrelt form vona ég að það séu enn til lesendur sem líður eitthvað svipað og þegar ég er niðursokkinn í góða bók. Handa því fólki er bálkurinn Álfheimar en annað bindið er nú í bókabúðum landsmanna.
Eins og áður er bókarkápa Atla Sigursveinssonar listaverk. Minn þáttur í þeim er sá einn að stinga upp á fjórum litum, fjórum dýrum, fjórum vopnum og fjórum höfuðskepnum. Að gæða þessar hugmyndir slíku lífi og raun ber vitni er hins vegar afrek myndlistarmannsins. Í Risanum fæst skýring á því hvers vegna litirnir, dýrin og vopnin eru fjögur en auðvitað var vísbendingu að finna í Bróðurnum sem þið munið vonandi að var blá og með geddu á forsíðu.
Ekki eru þessar bækur líkar Hringadróttinssögu að öðru leyti en því að hver þeirra er nefnd eftir andstæðingi í felum og ekki líkar Narníubókunum að öðru leyti en því að fjögur ungmenni hverfa til annars heims. En Íslendingar eiga sér líka sína álfahefð og þessi bókaflokkur er kannski ekki síst tilraun til að taka hana í sundur. Höfundur notar skáldsagnaformið til að skilja í hverju galdur álfa fólst fyrir 19. aldar mönnum og það er aðalefni bálksins sem líta á má sem eina bók þótt út komi í fernu lagi.
Í viðleitni minni til að skilja 19. aldar álfa einbeiti ég mér ekki að yfirborðskenndum þáttum heldur reyni í staðinn að nálgast álfinn í manninum eða öllu heldur þann þátt mannssálarinnar sem gerir álfinn nauðsynlegan. Einmitt þess vegna finnst mér mikilvægt að sviðsetja álfa andspænis nútímamanninum en alls ekki sem fornan eða horfinn menningararf. Hinu breytilega sjónarhorni er ekki aðeins stolið frá hinu norska SKAM heldur líka Rashomon Kurosawa og ensku skáldsögunni An Instance of the Fingerpost sem hreif mig á sínum tíma en ég mun nú hafa gefið mitt eintak, líklega af því að ég óttaðist að lesa hana aldrei aftur og vildi því heldur veitum nýjum lesanda þá ánægju.
Meira um Álfheima á morgun!