Luis Bermejo
Eins og ég nefndi um daginn eru margir yngri lesendur Hringadróttinssögu búnir að ramma söguna inn í túlkun Peters Jackson á útliti söguheims og persóna sem raunar er undir áhrifum frá eldri listamanninum, ekki síst Ralph Bakshi sem gerði teiknimynd upp úr sögunni um 1980. Hún var sýnd á Íslandi en ég fór þó aldrei að sjá hana því að mér þótti auglýsingaveggspjöldin benda til að hún væri of óhugnanleg fyrir mig. Hins vegar bað bróðir minn um og fékk teiknimyndasögu eftir bókinni í jólagjöf árið 1981 og sú hefur sennilega mótað minn fyrsta lestur á sjálfri bókinni sem fór fram árið 1985, á ensku því að hún var ekki þýdd í barnæsku minni. Þetta er langur tími fyrir 11-15 ára.
Útlitið í teiknimyndasögunni er ekkert ósvipað kvikmyndum Bakshis og Jacksons en þó er blæbrigðamunur. Höfundur þessarar myndlýsingar var spænskur teiknari sem hét Luis Bermejo (1931-2015) en nafn hans er ekki áberandi á íslensku þýðingunum frá Fjölva og ég uppgötvaði nafn þessa áhrifamanns í bókmenntauppeldi mínu ekki fyrr en nýlega. Hann var undir talsverðum áhrifum frá bandarískum ofurhetjublöðum; þannig er Aragorn í hans gerð mjög svipaður hinni dæmigerðu ofurhetju.
Þessi gerð sögunnar fór heldur rólegar af stað en þær yngri eins og sjá má hér að ofan. Til dæmis höfðu söguhetjurnar tíma til að setjast niður við varðeld sem þær hafa ekki hjá Jackson þar sem mikið er hlaupið. Annað sem munar miklu er hvernig hobbitarnir minna á börn og unglinga í útliti en kannski síður í hegðun. Líklega eru þetta síst fíflalegu hobbitar í öllum aðlögunum skáldsögunnar og kannski er það fyrir áhrif frá henni að mér fannst þeir ekkert fíflalegir þegar ég las bókina.
Annað sem ég man eftir úr teiknimyndasögunni er hversu óhugnanlegir og krepptir svörtu riddararnir (hringvomarnir) eru þar þó að eðli málsins samkvæmt heyrist ekkert í þeim og þeir séu ekki heldur nándar nærri jafn árásargjarnir og í myndinni síðar. Kannski er árásargirni þeirra fyrir vikið áhrifameiri og draugslegri. Það er mun óhugnanlegra að standa kyrr en að hreyfa sig og um það mætti skrifa mun lengra mál.