Nína og Geiri
Ég var um það bil níu ára þegar „Sagan af Nínu og Geira“ kom út á plötu, Brimkló þá ein allra vinsælasta hljómsveitin hérlendis og þetta lag leikið í öllum tónlistarþáttum í hinu eina sanna útvarpi, ekki síst óskalögum sjúklinga sem virtust á þeim tíma helst hafa það markmið að gera okkur hin jafn veik og þeir voru sjálfir. Líklega voru epísk popplög í tísku undir lok 8. áratugarins, „Sylvia’s Mother“ og „Living Next Door to Alice“ og fleiri harmþrungin símtalslög öllum í fersku minni. Nína og Geiri féllu vel í kramið. Íslenska kramið var þá einna helst flutningurinn úr sveit í borg, löngu afstaðinn nema helst hjá höfundum barnabóka sem skrifuðu enn eins og allar ömmur byggju í sveitinni. Mín bjó í miðbæ Reykjavíkur og var alltaf spariklædd og með bleikt hár.
Þegar ég hlustaði á lagið á sínum tíma hvarflaði aldrei annað að mér en að Nína og Geiri væru jafn gömul. Harmleikur lagsins fólst fremur í því að ljóðmælandinn ætlaði alla leið til Reykjavíkur úr sveitasælunni og vildi vera óbundinn og í ævintýraleit. Honum fannst Nína of ung, ég gerði ráð fyrir að þau væru bæði of ung. Síðan sá manngarmurinn sig um hönd og fannst nú frekar drembilega að „hún skal víst fá að giftast mér“. Hrokinn er þeim mun óskiljanlegri í ljósi þess að hann játar í tvígang í laginu að hann sé skilningslaus („Ég næstum það ekki skilið fæ“ og „Ég enn ei skil það sem hún sagði þá“) og líklegt að Nína þreytist fyrr eða síðar á fattleysi hans.
En þá verða hvörf í laginu því að Nína hafði tekið saman við vin hans Jón í staðinn. Hér var textahöfundurinn að svindla. Ekkert hafði áður verið minnst á þennan Jón í laginu, hann birtist bara eins og skrattinn úr sauðarleggnum sem lokaorð lagsins sem þangað til hafði fjallað um Nína og Geira. Eitt skýrasta íslenska dæmið um byggingarbrelluna „Guð úr vélinni“?
Væntanlega hefur flestum krossbrugðið líkt og mér við að heyra lag bandaríska sveitatónlistarmannsins Conway Twitty „Don’t Cry, Joni“ (1975) í fyrsta sinn því að Nína og Geiri reynast vera þýðing á ameríska parinu Jimmy og Joni og í enska textanum er Joni 15 ára en Jimmy 22 sem skýrir kannski hvers vegna hann vill ekki giftast henni strax en í íslenska laginu virtist ljóðmælandinn dyntóttur og vanþakklátur. Hann snýr svo aftur eftir fimm ár, Joni orðin fullorðin, og þá kemur í ljós að hún hefur gifst John, besta vini hans, sem líka birtist eins og þjófur að nóttu í hinni amerísku gerð. John og Jón ríma auðvitað ágætlega en samt finnst mér að það hefði verið meira fútt í að láta hann heita Zebulon eða Obadiah.