Þríleikir

Í The Importance of Being Earnest minnist Lafði Bracknell á að barn hafi týnst en í staðinn fundist „the manuscript of a three-volume novel of more than usually revolting sentimentality“. Hér er vísað til þeirrar hefðar á Englandi að gefa skáldsögur út í þremur hlutum í von um aukinn hagnað. Á Englandi leið þessi hefð undir lok um aldamótin 1900 en sem kunnugt er komu ýmsar skáldsögur Halldórs Laxness út í tveimur, þremur eða fjórum bitum nokkrum áratugum síðar. Ef til vill eimir þó eftir af hefðinni í þeirri venju vísindaskáldsagna- og fantasíuhöfunda að hugsa verk sín í þremur bindum.

Á íslensku komu skáldsögur líka út í mörgum bindum en ekkert sérstaklega þremur. Upp úr 1990 komst síðan orðið „þríleikur“ í tísku meðal bókmenntaelítunnar, líklega í tengslum við útgáfu á Grískum harmleikjum í þýðingu hins hógværa en hámenntaða Helga Hálfdanarsonar. Sumir af þessum harmleikjum voru τριλογία, þ.e. þrjú sjálfstæð verk sem líka má lesa saman sem þrenningu – sem er raunar allt annað fyrirbæri en þegar skáldsaga er gefin út í þremur bókum eftir hentugleikum.

Líklega er fátt snobb heilbrigðara en að snobba fyrir grískum menningararfi en Íslendingum hættir til að ganga of langt í öllu og stundum líður manni eins og ekki sé þverfótað um bókabúðir eða bókasöfn fyrir þríleikjum þessa dagana. Eins er hugtakið notað út og austur, líka um skáldsögur sem eru engin τριλογία í grískum skilningi en voru gefnar út í þrennu lagi. Líklega er það vegna þess hve nóg mér þykir um þríleikjaæðið sem ég gaf út tveggja binda ritröð árin 2019-2020 og stefni á fjögurra binda verk árin 2021-2024. Jafnvel íslenskir bókmenntamenn hafa gott af því að læra aðrar tölur en 3 þó að það sé ágæt tala.

Previous
Previous

Nína og Geiri

Next
Next

Þessi var góð