Þessi var góð
Í sumar þegar ég var að leggja drög að þessari síðu sat ég eitt sinn á notalegum svölum með góðan morgunverð og gluggaði í bók eftir Agöthu Christie. Í bókinni er Poirot fenginn til að aðstoða við hátíð í smáþorpi þar sem morðratleikur er einn dagskrárliða, skrifaður af Miss Oliver sem var nokkuð augljóslega skopmynd af höfundinum sjálfum. Þá staldraði ég við setninguna „The whole plot and action of the Murder Hunt seemed to him to be wrapped in impenetrable fog.“ Var nokkuð viss um að Agatha Christie hafi verið nokkuð ánægð með sig eftir að hafa komið að þessari setningu. Annars er hún ekki fræg fyrir góðar setningar, galdur bóka hennar felst í öðru. En hún gat það vel þegar hún vildi.
Höfundur sem getur verið ánægður með góða setningu er öfundsverður og minn draumur hefur alltaf verið að aðrir höfundar geti staldrað við í bók eftir mig og hafa langað til að hafa samið s.s. eins og eina setningu sjálfir. Ef það hendir einhvern lesanda þessarar síðu má alveg láta mig vita!